Framkvæmdir sveitarfélaga í fráveitumálum

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 00:29:56 (4684)


[00:29]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það verður að segjast eins og er um þetta frv. að þegar maður hefur lesið það yfir og áttað sig á hvað í því felst þá verður manni eiginlega efst í huga hlátur yfir afrekum ríkisstjórnarinnar í þessum efnum. Þetta er satt að segja þvílíkur brandari að það verður varla annað gert en að hlægja þetta frv. út af borðinu, svo skringilegt sem það nú er og raunalegt, satt best að segja, í aðra röndina.
    Ég vil fyrst nefna að í frv. felst, svo merkilegt sem það er, viðurkenning á því að ríkisvaldið hafi beitt sveitarfélögin ofríki á sínum tíma, hafi sett á sveitarfélögin kvaðir í fráveitumálum sem nema háum fjárhæðum án þess að sjá þeim fyrir tekjustofni á móti til að standa undir þeim kvöðum. Það er auðvitað ágætt út af fyrir sig að fá viðurkenningu ríkisstjórnarinnar á því að hún hafi þarna brotið meginregluna í samskiptum ríkis og sveitarfélaga, að ríkið eigi ekki að vera að setja kvaðir á sveitarfélög eða fela þeim verkefni án þess að ætla þeim tekjur á móti þeim verkefnum. En með þessu frv. er það beinlínis viðurkennt að svo hafi verið að verki staðið af hálfu ríkisstjórnarinnar á sínum tíma þegar hún gekk frá afgreiðslu EES-samningsins á Alþingi.
    Það er sérstakt umræðuefni að mínu viti að fara yfir samskipti ríkisstjórnarinnar við sveitarfélögin á þessu kjörtímabili. Menn muna og vita af því frv. sem er hér til umfjöllunar um grunnskóla þar sem áætlað er að flytja yfir á sveitarfélögin það verkefni að annast rekstur grunnskólans að fullu og öllu án þess að fyrir liggi í frv. hvaða tekjur sveitarfélögin eigi að fá á móti, einungis yfirlýsingar um að þau muni fá tekjur til að standa undir verkefninu. Í ljósi þessa máls, þar sem liggur fyrir skýlaust að ríkisstjórnin hefur svikist um að standa við þennan meginþátt í samskiptum ríkis og sveitarfélaga að verkefnum skuli fylgja tekjur, er ekki ástæða til annars en ætla að ríkisstjórnin muni ekki standa við sitt varðandi grunnskólann. Það er full ástæða til að vantreysta þessari ríkisstjórn til að standa við seinni hlutann af því máli. Í þeim efnum er reynslan órækasti vitnisburðurinn. Nefna má reyndar fleiri mál sem svo er ástatt um að ríkisstjórnin hafi ekki staðið við þetta meginatriði í samskiptum ríkisvalds og sveitarfélaga.
    Í öðru lagi gengur þetta frv. gegn yfirlýstri stefnu ríkisstjórnarinnar sjálfrar í samskiptum ríkis og sveitarstjórna en sú stefna er þannig að ekki eigi að vera um blönduð verkefni að ræða. Þau verkefni sem sveitarfélögin annast eigi þau að hafa með höndum að fullu og öllu og tekjur til að standa undir þeim verkum. Af hálfu ríkisstjórnarinnar hafa á þessu kjörtímabili verið fluttar margar ræður um það að afnema úr núverandi lögum þau verkefni sem eru blönduð verkefni að einhverju leyti eins og t.d. rekstur grunnskólans sem í dag er blandað verkefni að því leyti að ríkið annast ákveðinn hluta þess og greiðir hann en sveitarfélög annast annan hluta og greiða þann hluta. Nú ætlar ríkisstjórnin að færa það verkefni að fullu yfir til sveitarfélaga einmitt á grundvelli þeirrar stefnu að ekki sé gott að vera með blandað verkefni.
    Nú kemur ríkisstjórnin og leggur til að verkefni sem er í dag verkefni sveitarfélaga verði blandað verkefni og mér fannst á skorta að umhvrh. útskýrði með hvaða rökum fráhvarf ríkisstjórnarinnar frá þessari stefnu byggist. --- Ég vil ekki trufla þann fund sem er hér í horninu hjá umhvrh. en mér þætti betra að hann heyrði mál mitt. --- Ég sé það að hann er með farsíma í vasanaum en ég hygg að hann sé ekki að tala í hann núna. ( Umhvrh.: Hvernig sérðu það? Ég er ekkert með hann í vasanum.) Ég vil mælast til þess við hæstv. umhvrh. að hann sé ekki að tala í símann á meðan ég tala a.m.k. Aðrir ræðumenn verða að setja fram óskir af sinni hálfu hvað það varðar en mér þætti verra ef ráðherrann væri með símann við eyrað þegar ég vænti þess og fer fram á það að hann sé að hlusta á mál mitt.
    Ég vil því endurtaka spurningu mína af því að ég veit að hann hafði ekki athygli á ræðu minni þegar ég bar fram spurninguna: Hver eru rök ráðherrans fyrir því að ríkisstjórnin hverfur frá þeim meginþætti í stefnu sinni í samskiptum milli ríkis og sveitarfélaga að verkefnin skuli vera annaðhvort ríkisverkefni eða sveitarfélagaverkefni og tekur upp þá stefnu í þessu máli að hér verði um blandað verkefni að ræða?
    Virðulegi forseti. Mér finnst að í raun ætti frv. að bera annað nafn til þess að endurspegla það sem er að gerast í þessu máli. Ríkisstjórnin setti svo miklar kvaðir á sveitarfélögin að það nemur tugum milljörðum kr. Hún setur enga tekjustofna á móti þeim kvöðum. Eðlilega er málið komið í mikinn hnút. Menn sjá það að sveitarfélögin ráða ekki við að standa undir þessum kröfum sem þeim er ætlað og því þurfi eitthvað að gera til þess að leysa úr þeim hnút sem kominn er vegna aðgerða ríkisstjórnarinnar. Það sem verður ríkisstjórninni að tillögu í þessu efni er hins vegar ekki stórmannlegra en svo að hluti af tekjum ríkisins af framkvæmdunum á að endurgreiðast, aðeins hluti og hann skilyrtur. Í raun ætti frv. að heita, til að lýsa því sem er að gerast, að þetta væri frv. til laga um stuðning sveitarfélaganna í landinu við ríkissjóð. Staðreyndin er sú, að hæstv. fjmrh. vill ekki með nokkru móti fallast á það að framkvæmdir í fráveitumálum verði undanþegnar virðisaukaskatti eins og væri hin eðlilega leið. Þannig ættu menn vitaskuld að leysa þetta verkefni, að breyta lögum um virðisaukaskatt þannig að þessar framkvæmdir sem um er að ræða verði undanþegnar virðisaukaskatti. Þá væri málið leyst hvað þetta varðar og ríkissjóður væri ekki að hafa þetta verkefni sveitarfélaganna að féþúfu eins og hann er að gera í dag. En því miður strandar málið á því að hæstv. fjmrh. og ríkisstjórnin vill ekki endurgreiða sveitarfélögum það sem þau greiða til ríkisins vegna framkvæmdanna.
    Það er krafa ríkisstjórnarinnar að ekki aðeins vinni sveitarfélögin þetta verkefni heldur skuli þau um leið og þau vinna það greiða sérstakan skatt í ríkissjóð. Það er krafa ríkisstjórnarinnar og það er sérstaklega athyglisvert að það er sérstök krafa Sjálfstfl. að samhliða því að sveitarfélögin sinni þeim verkum sem á þau eru lögð og vinni þau þá greiði þau sérstakan skatt í ríkissjóð.
    Það er ekki hægt að hugsa sér ömurlegri frammistöðu af hálfu nokkurrar ríkisstjórnar en þessarar gagnvart sveitarfélögum og skilningi á skyldum þeirra við íbúa sína. Á því færi þess vegna betur, virðulegi forseti, til þess að menn skildu hvað væri á ferðinni, að frv. héti frv. til laga um stuðning sveitarfélaganna á Íslandi við ríkisstjórn Davíðs Oddssonar því að í reynd er verið að skattleggja sveitarfélögin fyrir ríkissjóð. Og ríkisstjórnin fæst ekki til þess að verða við þeirri eðlilegu kröfu að fella niður innheimtu á virðisaukaskatti vegna þessara framkvæmda.
    Mig langar til þess að beina fyrirspurn til hæstv. umhvrh., sem að sjálfsögðu loðir ekki í salnum frekar en venjulega því að hann er ævinlega eins og fló á skinni hér þegar málið er til umræðu. Ég vænti þess að forseti muni þá bera boð á milli. Mig langar að fá skýringu ráðherra á 2. mgr. 4. gr. sem hefur verið nefnt í umræðunum. En hún hefur verið nefnd af ræðumönnum með þeim skilningi að um væri að ræða heimild til þess að flytja styrk milli sveitarfélaga á þann veg að fámennari sveitarfélög fái hærri styrkveitingu en fjölmennari. Það má vera að það sé réttur skilningur en mér finnst það ekki koma fram í textanum og til þess að hafa það á hreinu spyr ég ráðherra hvort það eigi að skilja málsgreinina þeim skilningi sem fram hefur komið fyrr í umræðunni. Miðað við lagatextann eins og hann hljóðar er það ekki sjálfgefið mál heldur skil ég hann einfaldlega á þann veg að það fari ekki eftir stærð sveitarfélaga eða fjölda íbúa í því heldur kostnaði á íbúa við framkvæmdina. Það gæti því verið um að ræða að menn væru styrkja sérstaklega t.d. fjölmenn sveitarfélög vegna þess að menn teldu að kostnaður á íbúa í þeim væri óvenjuhár miðað við landsmeðaltal eða eitthvað því um líkt. Þannig hef ég skilið 2. mgr. 4. gr. en það væri fróðlegt að fá skýringar ráðherra á því þannig að öll tvímæli séu tekin af um það efni.
    Ég vil svo að lokum, virðulegi forseti, árétta aðrar spurningar mínar til hæstv. umhvrh. um það hvernig hann útskýrir stefnubreytingu ríkisstjórnarinnar í samskiptum sínum við sveitarfélögin hvað varðar hin hreinu verkaskipti og ákvörðun um að leggja til blönduð verkaskipti. Ég árétta einnig það sem fram kemur í reynd með frv. að ráðherrann og ríkisstjórnin er að viðurkenna að hafa lagt kvaðir á sveitarfélögin án þess að leggja þeim til tekjustofna til þess að standa undir þeim kvöðum og það er eiginlega orsökin fyrir frv. Menn eru að reyna að finna leið til þess að gefa sveitarfélögunum einhverjar vonir um að geta ráðist í þessar framkvæmdir. Mitt mat er að þetta gangi of skammt. Það kann að vera eitthvert gagn að þessu, ég skal ekki neita því, en þetta gengur of skammt til þess að það sé til einhverra umtalsverðra bóta. Niðurstaðan af því er sú að það er styrkveiting úr sjóðum sveitarfélaganna í ríkissjóð þrátt fyrir þetta frv. og það er öfugmæli að þegar verið er að leggja kvaðirnar á sveitarfélögin skuli ríkissjóður afla sér tekna með því móti. Það er náttúrlega alveg fáheyrð ósvífni af hálfu ríkisstjórnarinnar og verður mér hugsað til framgöngu þáv. stjórnarandstöðu á síðasta kjörtímabili í garð þáv. ríkisstjórnar en menn voru nokkuð sveryrtir í garð hennar um meinta framgöngu gagnvart sveitarfélögum. En hafi mönnum þá þótt eitthvað athugavert við það held ég að nú keyri um þverbak, svo ekki sé fastar að orði kveðið.