Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:43:26 (4703)


[01:43]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þegar ég nefndi útlendinga í þessu máli þá er það vegna þess að það stendur þannig á að Íslendingar hafa gert samninga við aðrar þjóðir. Þeir samningar eru um tiltekin efni og okkur ber að fara að þeim samningum. Við höfum sjálfir valið að hafa þann háttinn á að kveðja til aðila sem eiga að fylgjast með því hvort samningar eru haldnir og ég verð að segja alveg eins og er að það hefur gengið erfiðlega að skýra það út hvernig á því standi að ekki sé hægt að koma málum til nefnda á þjóðþingi Íslendinga þegar milljónaþjóðirnar, jafnvel þær þjóðir þar sem eru hundruð milljóna þegna, geta rennt í gegn stórmálum á miklu skemmri tíma.
    Ástæðan er þessi, virðulegi forseti. Það hagar þannig til að þetta eru þrjú mál. Í raun og veru hefði verið hægt að flytja um þau bandorm sem ég tel þó vera heldur lakara þegar um slík mál er að ræða. En það er beðið um tvöfaldan ræðutíma í þessum málum. Ef menn nota ræðutímann út í ystu æsar þá getur hver maður talað í þrjá klukkutíma um þessi mál sem eru öll sama málið og ekki flókin mál, þrjá klukkutíma

hver þingmaður til þess að gera grein fyrir frumsjónarmiðum sínum í upphafi. Það sem er kannski einkennilegast af öllu saman er að þetta er niðurstaðan þrátt fyrir að ætlun löggjafans hafi verið á sínum tíma þegar tímatakmörkin voru sett að koma í veg fyrir það sem var þjóðaríþrótt þingmanna hér áður, þ.e. það sem á útlensku heitir filibuster eða maraþonumræður til að koma í veg fyrir að mál mjökuðust áfram og meiri hlutinn næði sínum málum fram.
    Það var þetta sem ég var að segja að væri alvarlegt. Þetta er kannski í lagi í sumum málum þar sem við eigum við okkur sjálfa að sakast en þegar um er að ræða samninga við aðrar þjóðir þá er mjög erfitt að skýra þetta fyrir útlendingum. Það átti ég við. Í því fólust engar hótanir heldur var ég að lýsa mínum sjónarmiðum.