Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 01:47:56 (4705)


[01:47]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég vil minna á það að fyrir jólin var reynt að ræða þetta mál. Það byrjaði á því að málið drukknaði í þingskapaumræðu. Sá sem hér stóð sagði: Við skulum bíða með umræðu um málið af því að það var kvartað undan því að eitt málið af þremur vantaði. Þó ekki væri nauðsynlegt að tala fyrir því við 1. umr. féllst ég á það þá að bíða með málið. Næst þegar átti að taka málið fyrir kom beiðni um það líka að klára ekki málið því ákveðnir þingmenn höfðu verið settir á mælendaskrá sem voru ekki við. Þá stóð ég aftur upp í þinginu og sagði: Við skulum þá bíða með málið í bili því ég vonast til að það náist víðtækt samkomulag um að koma því til nefndar. Síðan leið nokkur tími. Málið hefur verið aftur og aftur á dagskrá en því miður ekki komist áfram og nú er þolinmæðin þrotin.
    Varðandi aðra þætti sem komu fram þá vil ég benda á að það er enginn munur gerður á því hvort þjóðirnar voru í ESB eða í EES. Svíarnir breyttu sinni afstöðu til málsins áður en áður en þeir ákváðu að ganga í ESB. Og í desember breyttu Finnarnir, ekki af eigin hvötum heldur dæmdi EFTA-dómstóllinn þá og það er þess vegna sem Norðmenn hafa núna breytt sinni afstöðu, þeir sjá að nákvæmlega sama málið er uppi á borði hjá þeim. Það er ekki hægt að deila við dómarann og við sjáum það núna, sem er nýtt í málinu og ég ræddi ítarlega áðan, að Íslendingar geta ekki vikist undan því. Þetta var ekki fyrirvari við samninginn sem var gerður, þetta var rætt á sínum tíma, reyndar af hæstv. utanrrh. og ég hygg af hv. þm. Hjörleifi Guttormssyni og Steingrími J. Sigfússyni, heldur var þetta einhliða yfirlýsing sem var gefin um það að áfengisstefnan, þar á meðal einkainnflutningurinn hjá ÁTVR og sambærilegum stofnunum annars staðar, væri hluti af félags- og heilbrigðismálastefnu þessara þjóða og þær áskildu sér þess vegna allan rétt.
    Nú hefur annað komið í ljós. Allar þessar þjóðir hafa horfið frá sinni stefnu nema Íslendingar sem ekki hafa gert það enn.