Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 02:15:49 (4715)


[02:15]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Fyrst skal ég svara spurningunni. Hér er eingöngu átt við sömu aðila og sömu aðferð og hingað til hefur verið notuð, er notuð samkvæmt núgildandi lögum. En þeir aðilar sem ég man að nefna í því sambandi eru t.d. ráðuneytin og ríkisstjórnin og Alþingi, þar sem leyfi hefur fengist til þess að fella niður gjald. Þetta eru slíkir aðilar og í þessu á ekki að felast nein breyting frá þeirri framkvæmd sem er í dag.
    Hv. þm. hafði áhyggjur af því að nú mundu einkaaðilar fara að flytja inn í stórum stíl og halda lager. Ég sé ekki hvernig menn hugsa sér það vegna þess að þegar menn taka út áfengi, í innflutningi til að mynda, þá þurfa menn að borga gjaldið og í raun og veru er lítill verðmunur á því og áfengi sem selt er út úr ríkinu dag. Þannig að ef menn hafa mikinn áhuga á því að halda uppi dýrum lager, einhverjir klúbbar eða einkaaðilar, í sínum kjöllurum, þá geta þeir gert það í dag. Þeir fara bara í ríkið og kaupa þetta og geyma þetta í kössum heima hjá sér. Það er afspyrnuvond fjárfesting held ég, nema þeir drekki þeim mun meira og hraðar. En það verður engin breyting á af því að gjaldið verður tekið af vörunni við innflutning í stað þess að það gerist þegar varan er afhent hjá ÁTVR. En ríkisvaldið þarf ekki að halda lagerinn, það geta aðrir gert og jafnvel þeir erlendu framleiðendur sem selja hingað sínar vörutegundir. Ég held að áhyggjur hv. þm. þurfi ekki að vera miklar af þessum ástæðum af því að þessi vara er svo dýr að það borgar sig fyrir þá sem sjá um að dreifa henni að halda lager í lágmarki. Og það er einmitt kúnstin við rekstur Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins, að þrátt fyrir það að innkaupsverðið sé lágt, það er þar eins og annars staðar í verslun að halda birgðum í lágmarki.