Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 02:18:07 (4716)


[02:18]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég held nú að það sé samt ástæða til að hafa áhyggjur af þessu atriði. Ég er sannfærður um það að menn geta gert mismunandi góð innkaup á áfengi eins og öllum öðrum vörum og þeir aðilar sem hugsanlega mundu vilja flytja inn áfengi til einkanota, klúbbar eða aðrir aðilar, mundu geta fengið áfengi kannski á lægra verði heldur en það er selt í útsölum. Það sem ég hef áhyggjur af er að það verði mjög margir aðilar sem meðhöndla áfengi með þessum hætti og aðilar sem jafnvel eru í því að selja ólöglega áfengi fari að nýta sér að flytja inn áfengi sjálfir. Ég á eftir að sjá að það verði hægt að fylgjast með fjölmörgum slíkum aðilum. Ef við t.d. gæfum okkur að klúbbar, sem eru fjölmargir í þessu landi sem nota áfengi á sínum skemmtunum og er ekkert athugavert við það, sæju sér hag í því vegna t.d. tilboða erlendis frá að flytja inn áfengi sjálfir til einkanota, þá værum við búnir að fá inn lagerhald á áfengi í fjölmörgum húsum, eða réttara sagt, hjá mjög mörgum aðilum í landinu og það er alveg ástæða til að hafa áhyggjur af þessu.
    En eins og ég sagði áðan, ég ætla ég ekki að fara að ræða þessi mál neitt meira hér við þessar aðstæður. Ég geri alveg fastlega ráð fyrir því að menn eigi eftir að fjalla töluvert mikið um þessi mál áður en þau verða afgreidd endanlega hér frá hv. Alþingi.