Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 02:31:22 (4718)


[02:31]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. síðasti ræðumaður talaði um að það yrði lítil breyting. Það er kannski ekki hægt að alhæfa neitt um það fyrr en á það reynir hvort breytingin verði mikil eða lítil. Ef það þróast út í það að einkaaðilar fari að flytja mikið inn áfengi til eigin nota, t.d. klúbbastarfsemi og annað því um líkt, þá getur í kjölfarið á þessu fylgt töluverð breyting. Ég get ekki fullyrt neitt um það hve mikill verðmunurinn getur orðið. En einhver verðmunur hlýtur að geta orðið, það efast ég ekkert um, einfaldlega vegna þess að aðilar sem selja áfengi eru náttúrlega að bjóða mönnum ýmis tilboð og það getur vel verið að það geti leitt af sér lækkun á áfengisverði.
    Hv. þm. var að tala um sparnað í lagarhaldi og öðru því um líku fyrir ríkið og því ætla ég ekki að mótmæla. Ég bendi hins vegar á að lagerhald hlýtur að þurfa að vera einhvers staðar, það verða fleiri aðilar sem munu þá sjá um þetta lagerhald og það mun auðvitað koma fram í auknum kostnaði á þessari vörutegund. En með frv. sem hér er verið að fjalla um er talað um fastar tölur fyrir gjaldið á áfengi. Það þýðir í raunveruleikanum að verðið verður hærra heldur en annars væri og ég tel að það eigi að vera stefna ríkisins sem þar ræður um verðlagninguna. Ég tel að það hljóti að verða gerðar breytingar eftir því hvað mönnum sýnist hverju sinni í sambandi við hvaða verð eigi að vera á áfengi og það verður auðvitað alltaf mismunurinn sem rennur í ríkissjóð. Þess vegna skiptir kostnaðurinn máli.