Gjald af áfengi

101. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 02:33:57 (4719)


[02:33]
     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. Jóhann Ársælsson hefur miklar áhyggjur af einkaklúbbunum. Í dag getur hver einstaklingur flutt inn til einkanota eitthvað tiltekið magn. Ég man ekki hvað það er mikið, hvort það eru þrjár flöskur eða sex flöskur. Það skiptir ekki máli.
    Ef við erum að tala um klúbba þá geta þeir auðvitað pantað þetta inn á nafni hvers meðlims. Þannig að það er lítið mál í dag fyrir klúbbana að fara þessa leið. Verðmunurinn getur aldrei orðið nema sáralítill og hann verður það lítill að það svarar engan veginn kostnaði fyrir einhverja klúbba að liggja með lager af áfengi, það get ég fullvissað hv. þm. um. Ég held að þessi hætta sé ekki til staðar og þingmaðurinn geti alveg sofið rólegur út af því.
    Varðandi lagerhaldið þá er alveg ljóst að það verður borið af innflytjandanum. Innflytjandinn hlýtur að bjóða ákveðið verð til Áfengis- og tóbaksverslunar ríkisins og inni í því verði er allur kostnaður sem innflytjanda ber að standa straum af, þar á meðal lagerhaldið. Það er því alveg ljóst að það mun ekki breyta neinu gagnvart hinu opinbera. Hins vegar er alveg ljóst í mínum huga að hið opinbera mun spara sér verulegar upphæðir og ég fór yfir nokkrar liði áðan eins og dreifingarkostnaðinn, eins og kostnaðinn við innflutninginn sjálfan, eins og starfsmannahaldið, eins og húsnæðið, eins og fjármagnskostnaðinn og þannig mætti lengi telja. Þannig að ég tel alveg ljóst að það er fyrst og fremst íþynging fyrir innflytjendur eins og er. En ég vil líka segja það að ég tel að þetta sé ákveðið skref í áttina að frekara frjálsræði og það er þess vegna sem ég tel persónulega að það sé í lagi að axla þessar byrðar.