Ólympískir hnefaleikar

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:24:37 (4726)


[13:24]
     Frsm. menntmn. (Sigríður A. Þórðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir nál. frá menntmn. um till. til þál. um ólympíska hnefaleika.
    Nefndin hefur fjallað um tillöguna sem kveður á um að skipuð verði nefnd er kanni hvort rétt sé að leyfa ólympíska hnefaleika sem íþróttagrein hér á landi.
    Menntamálanefnd hefur fjallað um samhljóða tillögu á tveimur undangengnum þingum. Á 117. löggjafarþingi fékk nefndin til viðræðna við sig Janus Guðlaugsson, námsstjóra í íþrótta- og æskulýðsdeild menntamálaráðuneytis. Þá studdist nefndin við umsagnir frá 116. og 117. löggjafarþingi frá menntamálaráðuneyti, landssamtökunum Heimili og skóli, Ungmennafélagi Íslands, Íþróttakennarafélagi Íslands, Íþróttasambandi Íslands og Læknafélagi Íslands.
    Í umsögnum framangreindra komu fram skiptar skoðanir um réttmæti þess að heimila hnefaleika hér á landi að nýju en þeir hafa verið bannaðir um áratuga skeið á grundvelli laga nr. 92 frá 1956. Menntamálanefnd tekur ekki afstöðu til efnis tillögunnar en telur rétt að í menntamálaráðuneytinu verði aflað upplýsinga um þau atriði sem tilgreind eru í tillögunni þannig að unnt verði að taka vel ígrundaða ákvörðun um hvort ástæða sé til að leyfa iðkun ólympískra hnefaleika hér á landi. Með vísan til framangreinds leggur nefndin til að málinu verði vísað til ríkisstjórnarinnar.