Listmenntun á háskólastigi

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 13:28:35 (4728)

[13:28]
     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég skrifa undir nál. hv. menntmn. um þetta mál með fyrirvara og ástæðan er einfaldlega sú að hér er náttúrlega um að ræða frv. til eins konar hálflaga. Það er dálítið sérkennilegt brautryðjendastarf sem unnið er í þessu efni undir forustu núv. ríkisstjórnar og hv. 3. þm. Reykv., sem undirbjó málið, vegna þess að í frv. er gert ráð fyrir því að það verði heimilt að efna til listmenntunar á Íslandi en það eru engir peningar í málinu. Það má telja nokkuð athyglisvert að fara þessa leið fram hjá þeim mikla vanda sem menn hafa tekist á við í frumvarpasmíð á undanförnum árum og áratugum, að reyna að tryggja fjárhagslega stöðu þeirra mála sem menn hafa verið að flytja um leið og þeir hafa afgreitt hið faglega innihald málsins, að hér er í raun og veru ekki gert ráð fyrir því að það séu neinir fjármunir í dæminu eins og frv. lítur út. Efnislega hefur frv. það ákvæði eitt að það er gert ráð fyrir að menntmrh. geti samið við lögaðila, félög eða stofnanir um að annast menntun á háskólastigi í listum sem fari fram á vegum sjálfstæðrar stofnunar að fullnægðum þeim kröfum sem gerðar eru af hálfu menntmrn. til slíkrar menntunar.
    Nú gæti auðvitað menntmrh. samið við háskólann um að annast þetta verkefni án sérstakra lagabreytinga eða án sérstaks lagafrv. en hér kjósa menn að fara þessa leið.
    Síðan segir í 2. gr. frv. að í samningi samkvæmt þeirri fyrstu verði ákveðið á hvaða sviðum verði veitt háskólamenntun í listum hér á landi. Í samningnum verði tilgreint hvaða námsframboð og námskröfur verður um að ræða og síðan er gert ráð fyrir því eins og segir að í samningnum verði kveðið á um hvernig fjárframlögum úr ríkissjóði skuli háttað og þau verði ákveðin í fjárlögum hverju sinni. Síðan segir í síðustu grein, til þess að reyna að brúa þetta sérkennilega frv. og tengja það við þann veruleika sem við búum við, að gert sé ráð fyrir því að meðan þessi samningur væri í gildi, sem hugsanlega yrði gerður, þá frestist framkvæmd laganna um Leiklistarskóla Íslands og Myndlistar- og handíðaskólann meðan á samningstímanum stendur og alveg hugsanlegt að þessir skólar fari aftur að starfa eftir þeim lögum sem þeir hafa starfað eftir.
    Ég verð því að segja alveg eins og er að mér finnst það ekki rismikið af hæstv. ríkisstjórn að taka á þessum málum með þessum hætti. Það hafa legið fyrir frumvörp um listaháskóla í mjög langan tíma og í staðinn fyrir að taka myndarlega og skipulega á því þá er ákveðin þessi flóttaleið sem hæstv. ríkisstjórn leggur hér til, að það verði sett eins konar hálflög um listaháskóla. En það má svo sem segja að það sé betra en ekki neitt þannig að með hliðsjón af því skrifa ég undir frv. en hef þennan fyrirvara.
    Varðandi fyrirvara minn um málið vil ég svo líka halda því til haga að í þeim útreikningum sem liggja fyrir er bersýnilega gert ráð fyrir mjög háum skólagjöldum í einstökum þáttum háskólanáms í listum, jafnvel miklu hærri skólagjöldum í listnámi á háskólastigi en í öðrum námi á háskólastigi. Ég vil láta það koma fram að ég er ekki að skrifa upp á það að það fólk sem er í háskólanámi í listum borgi mun hærri skólagjöld en aðrir sem eru í háskólanámi hér á landi.
    Síðan vil ég vekja athygli á því að við meðferð málsins fékk hv. menntmn. umsagnir frá fjölda aðila, m.a. frá Reykjavíkurborg þar sem óskað var eftir ítarlegum viðræðum við menntmrn. um þessi mál af því að borgin hefur nú einu sinni staðið að fjármögnun Myndlista- og handíðaskólans og Tónlistarskólans í Reykjavík. Í umsögn borgarhagfræðings í Reykjavík, Eggerts Jónssonar, kemur fram að það sé dálítið sérkennilegt að á sama tíma og sveitarfélögin að stefnu menntmrn. eiga að yfirtaka grunnskólann þá er greinilega gert ráð fyrir því að Reykjavík og ríkið hafi samvinnu um þann þátt menntunar í landinu sem hér er um að ræða, þ.e. listmenntun á háskólstigi. Og Eggert Jónsson borgarhagfræðingur bendir á það í umsögn sinni að það sé ekki mikið samræmi í afstöðu ríkisstjórnarinnar til hinna ýmsu þátta menntamála.
    Þetta tel ég allt vera galla á þessu frv. Ég tel að það lýsi ekki miklum myndarskap eða krafti af hálfu stjórnvalda í þessu máli. Ég tel hins vegar, eins og ég sagði áðan, að þetta sé betra en ekki neitt og mun þess vegna greiða frv. atkvæði en ég vildi halda þessum fyrirvörum til haga í þessari umræðu um málið og þætti vænt um ef hæstv. menntmrh. sæi sér fært í umræðunni að greina frá því hvernig hann hyggst vinna að málinu áfram ef þetta frv. sem hér liggur fyrir verður að lögum.