Viðlagatrygging

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:21:30 (4741)

[14:21]
     Frsm. heilbr.- og trn. (Gunnlaugur Stefánsson) :
    Hæstv. forseti. Ég mæli fyrir nefndaráliti um frv. til laga um breytingu á lögum um Viðlagatryggingu Íslands, nr. 55/1992, fyrir hönd hv. heilbr.- og trn.
    Nefndin hefur fjallað um frumvarpið sem felur einkum í sér þá breytingu að framvegis verði skylt að viðlagatryggja skíðalyftur. Þá gerir frumvarpið ráð fyrir að felld verði brott heimild Viðlagatryggingar Íslands til að taka að sér vátryggingu annarra eigna en þeirra sem skylt er að vátryggja og er það gert til samræmingar reglum EES-samningsins. Loks er lagt til að lögfest verði heimild, sem var í eldri lögum um viðlagatryggingar, varðandi styrkveitingar til björgunarsveita.
    Ég vil sérstaklega í því sambandi benda á að hv. nefnd gerir tillögu að breytingu á orðalagi 4. gr. þessu viðvíkjandi þannig að heimild Viðlagatryggingar til styrkveitinga beinist að þeim landssamtökum sem hafa samstarfssamning við Almannavarnir ríkisins um skipun hjálparliðs. Nefndin telur eðlilegt að heimildin taki til landssamtaka björgunarsveita en ekki einstakra sveita um land allt. Þau landssamtök, sem hér um ræðir, eru Landsbjörg, Slysavarnafélag Íslands og Rauði kross Íslands. Innan þeirra vébanda eru allar starfandi björgunarsveitir hér á landi. Þá er gert ráð fyrir að styrkirnir renni til fræðslu- og þjálfunarmála í stað hinnar opnu heimildar sem frumvarpið gerir ráð fyrir. Ég vil taka sérstaklega fram að um það orðalag sem hér er gerð tillaga um var haft mjög náið samráð við slysavarna- og björgunarsveitir í landinu.
    Nefndin vill taka fram að Björgunarhundasveit Íslands er aðili að Landsbjörg og aukin áhersla verður í framtíðinni lögð á þátt leitarhunda á námskeiðum í snjóflóðaleit, en slík námskeið hafa um árabil verið haldin á vegum björgunarsveita.
    Hv. nefnd telur afar mikilvægt að hér verði áréttað að staða eigenda leitarhunda verði tryggari eftir að ákvæði þessara laga hafa tekið gildi.
    Að lokum, hæstv. forseti, er í þriðja lagi lagt til að gerðar verði breytingar á 5. gr., ákvæði til bráðabirgða, sem hljóði þannig, með leyfi forseta:
    ,,Á árinu 1995 skal stjórn Viðlagatryggingar Íslands greiða Ísafjarðarkaupstað 90 millj. kr. í bætur vegna tjóns sem varð á skíðalyftum á Ísafirði í snjóflóðum 1994.``
    Hv. heilbr. - og trn. telur ekki rétt að lögfest sé afturvirkt ákvæði sem byggir á því að munir séu tryggðir eftir á eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Því er lagt til að kveðið verði á um tiltekna eingreiðslu úr sjóðum Viðlagatryggingar Íslands í því afmarkaða tilviki sem hér um ræðir.
    Hæstv. forseti. Undir nál. hv. heilbr.- og trn. skrifa Gunnlaugur Stefánsson, Tómas Ingi Olrich, Ingibjörg Pálmadóttir, með fyrirvara, Guðmundur Hallvarðsson, Margrét Frímannsdóttir, með fyrirvara, Sólveig Pétursdóttir, Finnur Ingólfsson, með fyrirvara, Sigríður A. Þórðardóttir og Guðrún J. Halldórsdóttir, með fyrirvara.
    Ég legg til að að lokinni 2. umr. verði málinu vísað til 3. umr.