Tilkynning um dagskrá

102. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 14:56:00 (4747)


[14:56]
     Finnur Ingólfsson (um fundarstjórn) :
    Virðulegi forseti. Ég tek undir það hjá hv. 6. þm. Vestf. að í gær á fundi forseta og formanna þingflokka var talað um að þessi dagur yrði dálítið óvenjulegur vegna þess að það er sú hefð brotin hér að vera með þingfund þann dag sem eldhúsdagsumræður eiga að fara fram að kvöldi. Tilgangur þessa fundar í dag átti að vera sá að leyfa þingmönnum að mæla fyrir málum sem bíða þó nokkuð mörg eftir 1. umr. svo hægt sé að vísa þeim til nefndar áður en þing fer heim. Nú hef ég ekki nákvæmlega fylgst með því hvað hér hefur gerst síðustu klukkustundirnar, en mér sýnist að menn séu kannski fyrst og fremst að mæla fyrir nál. úr nefndum þannig að þingmenn hafa ekki komist að með sín mál hér við umræðuna. Nú er liðið nokkuð á dag, umræða í kvöld, þannig að ég efast um hvort skynsamlegt sé að halda þessu mikið lengur áfram, enda höfum við framsóknarmenn óskað eftir og boðað hjá okkur þingflokksfund kl. 3 til að taka þar ákvarðanir um mál sem snerta þingið og framhald þingstarfa.