Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 20:46:36 (4768)


[20:46]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) :
    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Það líður að lokum þinghalds í vetur og þar með lýkur kjörtímabilinu að mestu. Það hefur verið í mörgu að snúast hjá þjóðinni undanfarin fjögur ár og skipst á skin og skúrir.
    Í upphafi var ótti flestra að okkar biðu sömu efnahagslegu örlög og frænda okkar í Færeyjum. Það var ekki til þess fallið að draga úr þeim ótta að í ljós kom að skera varð þorskaflann niður um helming og enn þótti kárna gamanið þegar í kjölfarið kom hrun á verðlagi í helstu útflutningsvörum okkar. Þá töldu fræðimenn og sérfræðingar jafnt sem talsmenn Alþýðusambands Íslands að erfitt yrði að koma í veg fyrir að atvinnuleysið færi upp í 20--25% eins og gerst hefur hjá sumum nágrannaþjóðum okkar. En þessir hlutir eru allir að baki. Það tókst að leika varnarleikinn þannig að þjóðin er nú í sæti sigurvegarans.
    Vorið 1991 hafði fyrrv. ríkisstjórn, vinstri stjórn, kippt grundvellinum undan þeim árangri sem þjóðarsáttarsamningarnir frá árinu áður höfðu náð. Þjóðarsáttarsamningarnir gátu ekki staðist við aðstæður þar sem ríkisfjármálin voru komin um koll, lánsfjáreftirspurnin var orðin slík að ríkisvaldið sogaði í sig tvöfaldan heildarsparnað þjóðarinnar. Svigrúm atvinnulífsins var því orðið lítið og vextir voru rangt skráðir og á hinum frjálsa markaði voru vextir komnir upp úr öllu valdi. Þjóðarsátt gat ekki staðist við þessar aðstæður. Það er þar sem núv. ríkisstjórn tók við og lagði réttan grundvöll að farsælli þróun íslensks atvinnulífs. Þetta kostaði oft mikil átök en tókst þrátt fyrir utanaðkomandi erfiðleika, svo sem aflabrest og gífurlegt hrun á okkar dýrmætustu sjávarafurðum. En það er þetta starf allt sem nú er að skila árangri. Við búum ekki lengur við þá stöðnun sem hófst að mati hagfræðinga 1988 á sama tíma og stjórn þeirra Steingríms og Ólafs Ragnars tók við. Þær eiga sem sagt sama fæðingarvottorð stöðnunin og kreppan og vinstri stjórnin sem þá sat.
    Stöðugleikinn og vinnufriðurinn eru ekki bara orð. Þau eru meginskilyrði alls þess sem síðan hefur ræst. Við horfumst nú kinnroðalaust í augu við hvern sem er þegar við ræðum um íslenska verðbólgu. Hún hefur nú verið lægri en gengur og gerist í okkar nágrannalöndum um nokkurt skeið. Hún hefur að vísu hækkað nokkuð núna á fyrstu mánuðum ársins og stærsti einstaki liðurinn í þeim kipp er holræsagjaldið í Reykjavík sem vinstri meiri hlutinn lagði á og snarhækkaði allar vísitölur í einu vetfangi.
    Við höfm gætt þess í okkar viðleitni á þessum árum að tryggja starfsskilyrði atvinnufyrirtækjanna ekki með því að rétta ölmusur úr hendi ráðamanna heldur með því að leggja fastan og ákveðinn grundvöll að því umhverfi sem atvinnulífið starfar í. Menn hafa sagt að ríkisstjórnin hafi flutt skattálögur af fyrirtækjunum yfir á einstaklingana. Við höfum ekki lagt á 11 milljarða kr. skatta á fyrirtæki og einstaklinga eins og ríkisstjórn Steingríms Hermannssonar gerði. 11.000 millj. í sköttum á fyrirtæki og einstaklinga. Við höfum staðið við það sem við sögðum í kosningabaráttunni 1991 að við mundum stöðva skattahækkunarskriðu vinstri stjórnar. Skattar á fyrirtæki voru lækkaðir um 2.000 millj. kr. en skattbyrði á einstaklinga hefur staðið í stað og reyndar lækkað ef tekið er mið af þeim skattalækkunum sem nú verða í framhaldi af nýgerðum kjarasamningum. Þessar aðgerðir hafa heppnast og þess vegna er nú atvinnuleysi minna í hverjum mánuði en í sama mánuði fyrir ári.
    Þeir sem kvarta yfir því nú að fyrirtækin búi við of góðan rekstrargrundvöll eru þá væntanlega að boða stórhækkaða skatta á fyrirtækin á ný. Skyldi það vera það sem vænlegast er til að tryggja hér heilbrigt atvinnulíf og stöðuga atvinnu? Ég fullyrði að svo sé ekki. Auðvitað þarf að deila byrðunum jafnt niður og enginn flokkur skilur slíkt betur en Sjálfstfl., flokkur allra stétta. En atvinnulífið verður að ganga. Nú eru skattamál atvinnulífsins með þeim hætti í fyrsta sinn að væru hér til að mynda gerðir samningar um stóriðju, sem vel getur komið til, þá þarf ekki að eyða tíma viðræðunefnda í samninga um skattamál. Stóriðja getur gengið beint inn í hið íslenska skattaumhverfi og það er mikil breyting og holl. Það er í raun óeðlilegt að þurfa að bjóða erlendum fyrirtækjum sérstaka skattalega meðferð þegar þau hefja starfsemi hér á landi. Það er samkeppniskrafa íslenskra fyrirtækja að allir sitji við sama borð í þeim efnum og það hefur nú loks gengið eftir.
    Ég nefndi að nú væri svo komið eftir lækkun matarskatts og hinnar nýju skattalækkunar sem verður næstu daga í kjölfar kjarasamninga að skattar á einstaklinga hafa í heild lækkað á kjörtímabilinu. Til viðbótar hafa gerst hlutir sem eru mikilvægir og skila sér í buddu landsmanna. Raunvaxtalækkunin ein er gríðarlega mikilvæg. Sú vaxtalækkun er ekki borin saman við skatta eða skattalækkanir en hefur sömu þýðingu fyrir langflesta í þjóðfélaginu.
    Sagt er að okkur hafi ekki heppnast allt og vissulega er það rétt. Vinstri flokkarnir hafa sérstaklega nefnt að okkur hafi ekki gengið nægilega vel að fást við fjárlagahallann. Við náðum ekki öllum þeim markmiðum sem við settum okkur þar. Við settum okkur það markmið í upphafi að ná fjárlagahallanum alveg niður á kjörtímabilinu. En skjótt skipast veður í lofti. Óhjákvæmilegt varð, eins og ég nefndi áðan, að taka þá ákvörðun að skera þorskaflann niður um helming. Það var áður en það lá fyrir að verð á okkar afurðum mundi lækka um 20--30%.
    Það er freistandi að halda töluverðum halla á ríkissjóði þegar erfiðlega árar í landinu og margir hagfræðingar halda því fram að það beri að gera það. Við stóðumst þessa freistingu, þingmenn Alþfl. og Sjálfstfl. Við stóðum af okkur þá freistingu að kaupa frá okkur vandann með lántökum. Þess vegna var ríkissjóðshallinn á sl. ári aðeins um 7 milljarðar kr. Og það er sama á hvaða mælikvarða það er mælt, þetta er betri árangur hjá fjmrh. Íslands en hjá nokkrum kollega hans í sambærilegu landi um þessar mundir. Það segir ekki að okkur sé óhætt að hvika frá fyrri markmiðum. Það segir hins vegar það að við eigum að geta notað hluta ábatans sem er að verða til að ná þessum markmiðum á næstu árum og fjmrh. hefur einmitt lagt drög að því með þeirri langtímastefnu sem hann hefur kynnt.
    Það hefur líka gerst á þessum tíma að gegnsæi efnahagslífsins hefur orðið meira. Skilyrðin og reglurnar sem fyrirtækin lúta eru orðin sambærilegri, bæði innan lands og gagnvart erlendum aðilum. Þetta atriði er afskaplega mikilvægt þegar samkeppnisstaða íslenskra fyrirtækja er athuguð og borin saman við það sem annars staðar gerist. Þess vegna, með vísun til þess sem ég þegar hef sagt, getum við með sanni fullyrt að varnarbaráttan hafi tekist, vörninni sé lokið og sóknin sé hafin.
    Á meðan allt þetta hefur gerst hafa raunskuldir þjóðarinnar í fyrsta skipti í þrjú ár lækkað verulega, eða sem mælist í 30 milljörðum kr. eða svo um þessar mundir. Þá vísa ég til þess sem ég sagði í upphafi að menn óttuðust Færeyjaleiðina í byrjun kjörtímabils. Við þorðum þá síst að vona eða þorðum að trúa því að í lok kjörtímabilsins hefðu raunskuldir þjóðarinnar snarminnkað og að sú þróun mundi halda áfram ef stöðunni verður ekki glutrað niður.
    Á sama tíma höfum við reynt að gæta þess að taka af skilningi á móti sanngjörnum óskum aðila vinnumarkaðarins um viðbrögð ríkisvaldsins á samningstímamótum. Við höfum reynt að teygja okkur til hins ýtrasta til að mæta sjónarmiðum þeirra en þó aldrei svo langt að meginmarkmið okkar, og í raun þeirra, mundu bregðast. En þetta viðhorf ríkisvaldsins hefur tryggt það í fyrsta sinn að kjaraskerðing hefur ekki lent þyngst á þeim sem minnst bera úr býtum, það er nýjung.
    Ég hef stundum haft það á tilfinningunni að þótt allir hafi talað um að verja lægstu kjör og hag þeirra sem minnst bæru úr býtum hafi fæstir meint með því nokkura alvöru. Þetta væri bara klisja sem hver æti eftir öðrum. Reynslan af þessu kjörtímabili er önnur. Þeir kjarasamningar sem nú hafa tekist á almenna vinnumarkaðnum tryggja að kaupmáttur almennings byrjar að hækka á ný. Það var tími til kominn.
    Forustumenn vinstri flokkanna vona kannski að menn séu búnir að gleyma þeirri stórkostlegu kjaraskerðingu sem varð hér er þeir réðu málum. En það hefur enginn gleymt kaupmáttarhruninu 1989 né því þegar samningsrétturinn var tekinn af fjölmennum stéttum með lögum af þeim sömu sem nú þykjast, eins og jafnan fyrir kosningar, vera sannir talsmenn almennings. Þeir samningar sem nú hafa verið gerðir auka kaupgetuna á ný hjá fólkinu í landinu og mest hjá því sem minnst hafa. Og það besta er að það er gert án þess að allt fari um koll eins og iðulega hefur gerst við kjarasamninga. Verðbólgan verður lág, atvinnuleysið mun halda áfram að minnka, við munum halda áfram að greiða niður skuldir okkar í útlöndum og vextir verða áfram lágir. Það er enn fagnaðarefni að allt bendir til þess að þessir farsælu samningar muni leiða til þess að áfram verði hægt að auka kaupmátt enn meir í næstu samningum.
    Hæstv. forseti. Góðir tilheyrendur. Það á að vera bjart yfir okkur Íslendingum um þessar mundir. Sól er að hækka á lofti og þjóðarhagur fer hratt batnandi. Kosningabaráttan sem fram undan er mun ekki snúast um einhver gervimál sem menn taka upp úr hatti eða búa til fyrir kosningar. Hún mun snúast um það að nægur stjórnmálalegur styrkur verði til staðar eftir kosningar til að fylgja batanum eftir og bregðast af festu og öryggi gegn hverju því sem upp kann að koma. Það er gleðiefni, góðir áheyrendur, að þessi kjarni komandi kosninga er að verða æ fleiri Íslendingum mjög vel ljós. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.