Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 21:11:32 (4770)


[21:11]
     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson) :
    Virðulegi forseti. Góðir Íslendingar. Á flokksþingi okkar jafnaðarmanna í byrjun febrúar samþykktum við einróma ályktun um leiðir til jöfnunar lífskjara. Aðalatriðin í þessari ályktun voru þessi:
    Við vildum nýta efnahagsbatann, sem við mátum á um 10 milljarða kr., til þess að jafna lífskjörin í landinu. Við lögðum það til að samið yrði í kjarasamningum um fasta krónutölu og að hinum lægstlaunuðu yrði tryggður kaupauki sem síðan fjaraði út við tiltekin tekjumörk. Við lýstum okkur reiðubúna til þess að afnema lánskjaravísitöluna í núverandi mynd í trausti þess að ríkisstjórnin hefur þegar náð þeim árangri að verðbólga er því sem næst horfin í okkar landi.
    Áður höfðu stjórnarflokkarnir lýst því yfir að þeir væru reiðubúnir til að afnema tvísköttun lífeyrisgreiðslna og niðurstaðan í samningunum varð sú að skattfrádráttur yfir 4% iðgjaldagreiðslna launþega var tryggður sem hækkar skattfrelsismörkin yfir 60 þús. kr. á mánuði. Alþfl. lagði líka til að myndaður yrði starfshópur á vegum stjórnvalda og með aðilum vinnumarkaðarins til að kanna sérstaklega verðmyndun í opinbera kerfinu, þar sem einokun og fákeppni gætir, til þess að lækka þjónustugjöld í bankakerfi og til þess að reyna að stuðla að lækkun á orkuverði, símakostnaði, flutningskostnaði, fargjöldum og tryggingarkostnaði, allt saman kjarabætur án verðbólgu.
    Aðfaranótt þriðjudagsins, þegar yfirlýsing ríkisstjórnarinnar var birt og aðilar vinnumarkaðar höfðu undirritað samninga, var ljóst að allt hafði þetta gengið eftir. Þar með hafði verkalýðshreyfingin á Íslandi, atvinnurekendur og stjórnvöld, innsiglað þann sameiginlega vilja sinn að hverfa af braut falskra lífskjara, gengisfellinga og skuldasöfnunar, til þess að varðveita stöðugleikann til frambúðar og verkalýðshreyfingin á Íslandi á sérstakar þakkir skilið fyrir þátt sinn og þjóðhollustu í þessu máli.
    Sumir hafa lýst ótta sínum við það að boginn hafi verið spenntur of hátt, sérstaklega í ríkisfjármálum. Þá menn bið ég að hugleiða að stöðugleiki til frambúðar er einnar messu virði og í annan stað að það var sagt skilmerkilega af hálfu stjórnarflokkanna við samningsaðila að þessum auknu útgjöldum á næstu tveimur árum yrði að sönnu að mæta með auknum niðurskurði á öðrum sviðum eða með nýrri tekjuöflun. Og af því að formaður Framsfl., Halldór Ásgrímsson, lýsti því hér yfir áðan að hann hefði áhyggjur af því að ekki hefði nægilega verið gengið í átt til tekjujöfnunar í þessum samningum og aðgerðum stjórnvalda þá er ástæða til þess að spyrja um framhaldið.
    Hinn 10. des. sl. lýsti ríkisstjórnin því yfir að hún vildi mynda samstöðu og samstarf með stjórnarandstöðunni og aðilum vinnumarkaðarins til þess að ná samstöðu um útfærslu á framkvæmd fjármagnstekjuskatts sem kæmi til framkvæmda um næstu áramót. Nú vill svo til að aðilar vinnumarkaðarins og fulltrúar stjórnarandstöðuflokkanna hafa lýst sig reiðubúna til slíks samstarfs, en mér skilst að enn standi á Framsfl. Ef hægt er að nefna nokkurt eitt mál, réttlætismál sem mundi skipta sköpum um það að stuðla frekar að kjarajöfnun, þá væri það þetta. Ég skora á formann Framsfl. að láta ekki bíða lengur eftir sér. Með þessum sögulegu kjarasamningum hefur óvissu um framtíðina verið eytt. Fyrirtækin hafa fram að þessu beðið með ákvarðanir með útgjöld og fjárfestingar, en nú þurfa þau ekki að bíða lengur. Það er nefnilega nýtt vaxtarskeið fram undan, eftir þessa sögulegu samninga og aðgerðir ríkisstjórnarinnar, sem tryggir öllum vinnufúsum höndum verk að vinna á næstunni.
    Góðir Íslendingar. Berum nú saman stuttlega síbyljuáróður stjórnarandstöðuflokkanna á undanförnum árum og svo þann dóm staðreyndanna um árangur stjórnarstefnunnar á erfiðum tímum sem við blasir. Verðbólga ógnar ekki lengur afkomu ykkar og atvinnuöryggi. Gengið er traust. Framfærslukostnaður heimilanna hefur lækkað í fyrsta sinn í lýðveldissögunni milli ára. Matvælaverð fer lækkandi. Vaxtalækkunin hefur létt greiðslubyrði skuldugra fyrirtækja og heimila á ársgrundvelli sem svarar 123 þús. kr. á ári fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu. Viðskiptajöfnuður við útlönd er hagstæður þrjú ár í röð. Þjóðin er hætt að lifa um efni fram. Það hefur, þrátt fyrir þær tölur sem hv. formaður Framsfl. nefndi hér áðan, tekist loksins að stöðva aukningu erlendrar skuldasöfnunar þjóðarbúsins, þótt vissulega sé það rétt hjá honum að ríkið er enn rekið með halla og safnar skuldum vegna þess að það hefur orðið fyrir tekjubresti á samdráttarárunum og auknum útgjöldum til þess að halda uppi atvinnustiginu. Hagvöxtur er tekinn að glæðast á ný eftir sjö ára samdrátt og hnignun, skuldir fyrirtækja fara minnkandi og afkoman batnandi, sem er ávísun á aukna atvinnu.
Atvinnulífið hefur komist klakklaust í gegnum þrengingarnar. Það hefur farið í megrunarkúr og veitti að sumu leyti ekki af og er við betri heilsu en oft áður. Það er betur í stakk búið til þess að hefja hið nýja framfaraskeið sem nú tekur við í kjölfar kjarasamninganna.
    Þeir sem til þekkja í íslensku atvinnulífi sjá hvarvetna batamarki. EES-samningurinn hefur virkað sem vítamínsprauta á íslenskan sjávarútveg. Við erum að vinna meiri verðmæti úr minni afla. Samkeppnisstaða útflutnings- og samkeppnisgreina hefur ekki í annan tíma verið betri. Sjávarútvegsfyrirtækin eru að greiða

niður skuldir. Það er umtalsverð veltuaukning í iðnaði og þjónustugreinum. Matvælaiðnaðurinn á Íslandi er í sókn. Með dyggum stuðningi iðnrh. hafa skipasmíðar og viðgerðir rétt úr kútnum. Útflutningsverðmæti iðnaðarins á sl. ári jókst um 30%. Vaxtargreinar eins og t.d. framleiðsla á rafeindavogum og hátæknibúnaði fyrir fiskveiðar og vinnslu eru vaxtarbroddur þessarar sóknar. Íslenskur iðnaður hefur aukið markaðshlutdeild sína innan lands. Hvarvetna þar sem menn fara um vinnustaði mætum við nú jákvæðara hugarfari og bjartsýni á framtíðina.
    Í ljósi þessara staðreynda hljómar bölmóðurinn sem kveður við í ræðum stjórnarandstæðinga líkt og slitin, gömul plata af vinsældalistanum frá því í hittiðfyrra. Með þjóðlegri samlíkingu mætti líkja forustumönnum stjórnarandstöðuflokkanna við þau nátttröll þjóðsögunnar sem daga uppi við dagsbrún morgundagsins og talkór gylliboðanna hljómar falskur. Efnahagsbatinn byggir nefnilega hvorki á töfrabrögðum né skyndilausnum. Hann byggist t.d. ekki á því að þegar Alþb. hefur gefist upp á austrinu, sem það kenndi sig við til skamms tíma, að það fari enn þá lengra austur og þá til þeirra markaðshyggjuhagkerfa sem byggja á því að halda verkalýðshreyfingunni í skefjum og keyra hagvöxt á lágum launum. Efnahagsbatinn byggir ekki á töfrabrögðum. Íslenska þjóðin er einfaldlega að uppskera ávöxt erfiðis síns á undanförnum árum. Efnahagsbatinn er nú kominn til skiptanna hjá fólkinu í landinu. Hann er árangur skynsamlegrar hagstjórnar og stefnufestu andspænis ytri erfiðleikum og þrátt fyrir svartagallsraus og gagnrýni stjórnarandstöðunnar.
    Við þurfum fram að aldamótum að skapa 8.600 ný störf fyrir ungt og vel menntað fólk sem sækir út á vinnumarkaðinn. Það tekst okkur því aðeins að við varðveitum stöðugleikann og skjótum fleiri stoðum undir íslenskt atvinnulíf. Það er ekki síst þess vegna, vegna framtíðarþarfa unga fólksins á Íslandi, sem við jafnaðarmenn hvetjum hugsandi fólk á íslandi að skoða vandlega og án fordóma spurninguna um aðild Íslands að Evrópusambandinu, sem við kunnum að þurfa að gera upp við okkur á næsta kjörtímabili, jafnvel á næsta ári.
    Virðulegi forseti. Þegar við lítum til framtíðarinnar þá er það kannski einkum tvennt sem ber skugga á. Í sjávarplássum landsins gætir vaxandi uggs um það að óbreytt kvótakerfi loki ungum og framtakssömum athafnamönnum aðgangi að greininni og að veiðiheimildir færist sífellt á færri hendur. Í sveitum landsins eru augu bænda smám saman að opnast fyrir því að svokallaðir vinir þeirra hafa hneppt þá í fátæktarfjötra. Þetta er þeim mun dapurlegra sem aðrar atvinnugreinar atvinnulífsins þokast hægt en örugglega í frjálsræðisátt, ekki síst fyrir áhrif EES-samningsins sem tekur til flestra þátta þjóðlífsins nema landbúnaðar.
    Þann 11. feb. sl. skrifuðu hjón, Gunnar Einarsson og Guðrún S. Kristinsdóttur, ábúendur á Daðastöðum, grein í Morgunblaðið sem vakti þjóðarathygli og var beinskeytt ákæra á hendur bændaforustunni undir heitinu ,,Skipulögð fátækt.`` Ég tek undir orð þeirra þegar þau segja að hagur bændastéttarinnar væri áreiðanlega betri í dag ef meginreglur verslunar og viðskipta hefðu gilt um þeirra atvinnugrein í staðinn fyrir miðstýrt rígskorðað ofstjórnarkerfi. Bændur mega gjarnan hugsa til þess að Alþfl. hefur aldrei farið með stjórn landbúnaðarmála. Alþfl. á enga sök á því hvernig komið er kjörum bænda. Alþfl. er ekki óvinur bænda, en hann er svarinn óvinur þess kerfis sem hneppt hefur bændur landsins í þessa fátæktarfjötra. Um þá menn sem eiga þvílíka vini og leggja hald sitt og traust á þá má segja að þeir þarfnast heldur ekki óvina.
    Bændur standa nú frammi fyrir því á næstu árum að þeir þurfa að keppa um hylli neytenda á grundvelli gæða og vöruverðs. Það geta þeir ekki gert með báðar hendur bundnar fyrir aftan bak. Þess vegna vill Alþfl. afnema núverandi kvótakerfi og í stað framleiðslutengdra styrkja komi búsetustuðningur, grænar greiðslur í anda GATT, eins konar lágmarkslaun til þess að styrkja bændur fremur en búfénað. Til greina kemur einnig að okkar mati að tekjur ríkissjóðs í framtíðinni af innflutningstollum verði nýttar til að auðvelda öldruðum bændum að bregða búi með reisn, þeim sem þess óska.
    Núverandi stjórnkerfi fiskveiða þarfnast gagngerðrar endurskoðunar og það er mér þess vegna mikið ánægjuefni að stjórnarflokkarnir hafa náð samkomulagi um að flytja frv. um breytingar á stjórnarskipunarlögum þar sem sameign þjóðarinnar á fiskimiðunum er stjórnskipulega varin og fest í sessi eins og lýst var yfir í stjórnarsáttmála. En meðan núverandi skömmtunarkerfi er við lýði er það samt sem áður stærsta réttlætismálið að þeir sem fá ókeypis úthlutað heimildum fyrir óveiddum fiski í sjó greiði eðlilegt afgjald til eigenda auðlindarinnar, íslensku þjóðarinnar. Þetta er ekki skattlagning á sjávarútveginn því að kvótar ganga kaupum og sölum á háu verði og hluti þeirra fjármuna gengur út úr greininni. Tekjum af veiðileyfagjaldi framtíðarinnar mætti hins vegar ráðstafa innan greinarinnar, m.a. til þess að leysa staðbundinn vanda sem af kvótakerfinu hlýst.
    Íslendingar geta ekki mikið lengur varið það fyrir samvisku sinni að loka augunum fyrir þeim staðreyndum að veiddum fiski er hent í sjó í stórum stíl. Það verður einfaldlega að gera það fjárhagslega hagkvæmt fyrir sjómenn að koma með allan veiddan fisk að landi. Það er skynsamlegri leið að gera það hagkvæmt en að hóta mönnum Brimarhólmsvist. Auk þess verðum við að hlúa betur að vistvænum veiðum á grunnslóð og skoða vandlega hvort ekki sé tímabært að vísa öflugustu vinnsluskipunum af grunnslóð.
    Virðulegi forseti. Stjórnmálaflokkum ber að móta framtíðarsýn. Alþfl., Jafnaðarmannaflokkur Íslands, vill sjá Ísland til borðs með lýðræðisþjóðum Evrópu. Flokkurinn hafnar hræðsluáróðri um missi sjálfstæðis og þjóðernis Íslendinga. Ungt fólk á Íslandi, best menntaða kynslóð Íslandssögunnar, á annað og betra skilið af forustumönnum sínum en úrtölur og vonleysi. Jafnaðarmenn hafna þeirri framtíðarsýn sem byggir á

hræðsluáróðri gegn samstarfi Evrópuþjóða. Ísland í Evrópu framtíðarinnar er því okkar kjörorð.
    Það er leitun á jafnskýru dæmi um staðfestu Alþfl. að hann var eini stjórnmálaflokkurinn á Íslandi sem frá upphafi til enda stóð heill og óskiptur að baki EES-samningnum. Fyrrv. formaður Framsfl. var í upphafi eins konar guðfaðir EES-samninganna í krafti embættis síns sem forsrh. Eftir kosningar og utan stjórnar söðlaði hann síðan um. Fræg eru ummæli núv. formanns Framsfl., Halldórs Ásgrímssonar, þau að ef Framsfl. hefði verið í stjórn eftir seinustu kosningar þá hefði hann stutt EES-samninginn. Það er með öðrum orðum ekkert að marka síbylju Páls Péturssonar, hins góðkunna baráttumanns gegn litasjónvarpi og annarra sálufélaga hans í Framsókn, í þessum málum fremur en öðrum, að sögn formanns Framsfl. og ekki rengi ég þau orð hans. Og hver veit þá hvernig vindar munu blása eftir næstu kosningar og hvernig flokkar með slíkan feril að baki haga seglum eftir vindum eftir kosningar.
    Ég virði andstæðingum okkar jafnaðarmanna það til vorkunnar þótt þeir vilji nú gjarnan hafa látið ósagt það sem þeir létu sér um munn fara um EES-samninginn, en þingtíðindin geyma ræður þeirra sem minnismerki um skammsýni grunnhygginna stjórnmálamanna sem þorðu ekki að taka ákvörðun sem þeir í hjarta sínu vissu að var þjóðinni fyrir bestu.
    Nú vita allir sem vita vilja að EES-samningurinn reyndist sjávarútveginum og þá sérstaklega fólkinu á landsbyggðinni, lyftistöng, að EES-samningurinn knýr þann efnahagsbata sem hart keyrðir launþegar á Íslandi eru nú að uppskera í formi bættra lífskjara.
    Þjóðhagsstofnun metur heildaráhrif EES-samningsins á landsframleiðslu á bilinu 2,5--3 milljarða fyrstu árin en allt að 6 milljarða þegar fram í sækir. Þetta þýðir á mannamáli 44 þús. kr. tekjuaukningu fyrir hverja fjögurra manna fjölskyldu að jafnaði á ári, upphæð sem síðan muni tvöfaldast að mati Þjóðhagsstofnunar þegar fram líða stundir. Þetta má kalla að færa björg í bú.
    Með því að greiða atkvæði allir sem einn gegn EES-samningnum hafnaði Alþb. útflutningsleiðinni sem það játar í orði. Kvennalistinn dæmdi sig úr leik sem framfaraafl og Framsfl. gat því miður í hvorugan fótinn stigið. Nú er EES-samningurinn orðinn helsta haldreipi þeirra sem vilja reka gamla, falska hræðsluáróðurinn gegn aðild Íslands að Evrópusambandinu. Það er að vísu óvænt traustsyfirlýsing í garð núv. utanrrh. og sannast þar hið fornkveðna að stundum birtist ólundin í óvæntu ljósi, nefnilega í formi gullhamra.
    Virðulegi forseti. Við jafnaðarmenn erum reynslunni ríkari eftir gerningahríðina gegn EES-samningnum. En við skulum hafa það hugfast að andstæðingar okkar höfðu líka rangt fyrir sér þegar þeir fóru hamförum gegn Atlantshafsbandalaginu. Þeir höfðu líka rangt fyrir sér í andstöðunni gegn varnarsamningnum við Bandaríkin. Þeir höfðu líka rangt fyrir sér í andófi sínu gegn stóriðjunni og hafa það enn. Þeir höfðu rangt fyrir sér í hræðsluáróðri sínum gegn aðild okkar að EFTA upp úr 1970. Þeir höfðu rangt fyrir sér í krossferðinni gegn aðild okkar að EES-samningnum og enn á ný mun það sannast að þeir hafa rangt fyrir sér í Evrópumálum einfaldlega vegna þess að þetta forrit þeirra er vitlaust og þeirra leiðir leiða til einangrunar Íslands og þar með lakari lífskjara ef þeir ná vilja sínum fram. Íslendingar verða sjálfir að ákveða framtíð sína. Aðrir gera það ekki fyrir okkur, ekki heldur Norðmenn. Ekki heldur þeir flokksforingjar sem vilja ekki ræða málið við þjóðina fyrir kosningar. Skilaboð okkar jafnaðarmanna eru skýr. Ef þeir fjölmörgu kjósendur, sem eru í hjarta sínu í grundvallaratriðum sammála okkur um hvar Íslendingum beri að skipa sér á bekk í samfélagi þjóðanna, ef þeir fylgja fram sannfæringu sinni í verki, þá er engin hætta á því að þjóðin verði dæmd til einangrunar og áhrifaleysis í framtíðinni. Höfum það hugfast, Íslendingar, það sem við erum að læra, að fyrirhyggja er dyggð og við tryggjum ekki eftir á.