Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 21:56:51 (4773)


[21:56]
     Jóna Valgerður Kristjánsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir landsmenn. Þetta þing fer senn að ljúka störfum og í kvöld gerum við þingmenn grein fyrir því starfi sem hér hefur verið unnið í vetur og jafnframt hvernig málin hafa þróast á kjörtímabilinu sem lýkur á vori komanda. Það er viðtekin venja hjá stjórnarandstöðu að nota tímann til að skamma ríkisstjórnina og draga fram í dagsljósið það sem aflaga hefur farið í starfi hennar. Það væri vissulega af nógu að taka en ég ætla þó ekki að eyða öllum tíma mínum í það uppgjör eingöngu. Ég hygg að hver maður og kona í þessu landi, hver einasta fjölskylda finni það á sjálfum sér og sínum aðstæðum hvernig ríkisstjórnin hefur stjórnað landinu síðustu fjögur árin.
    Barnafólkið sem hefur tekið á sig aukna skattbyrði og fengið skerðingu barnabóta finnur það. Námsmenn sem hafa fengið skerðingu námslána og sjá fram á aukna og jafnvel þrúgandi greiðslubyrði á næstu árum vita það. Húsbyggjendur sjá það í skerðingu vaxtabóta sem hafa verið árlegar og sjúklingar sem bíða eftir aðgerðum á löngum biðlistum sjúkrahúsanna finna fyrir niðurskurði í heilbrigðiskskerfinu og þeir sem sækja lyfin sín í næstu lyfjabúð greiða margfalt meira fyrir þau en fyrir fjórum árum. Og á landsbyggðinni búum við enn við sama mismun á húshitunarkostnaði og vöruverði og fyrir fjórum árum. Ríkisstjórnin lofaði að jafna húshitunarkostnað í áföngum á tveimur árum eða eins og segir í stjórnarsáttmálanum, hvítbókinni, með leyfi forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun fylgja eftir áætlunum sínum um jöfnun húshitunarkostnaðar í landinu.`` En þeim áætlunum var ekki fylgt. Í stað þess var settur 14% virðisaukskattur á húshitun sem gefur ríkissjóði 400 millj. kr. í hreinar tekjur. Jafnframt hefur orkuverð hækkað á tímabilinu og sérstaklega heildsöluverðið frá Landsvirkjun sem nú lætur landsmenn borga fyrir offjárfestingar liðinna ára eins og Blönduvirkjun sem byggðist á ofmati á framtíðarnotkun orkunnar. Þar voru stóriðjudraumarnir stærsti orsakavaldurinn en eins og þið vitið, áheyrendur góðir, hefur sá draumur ekki ræst og ekki útlit fyrir að það gerist á næstu árum. Samt byrjar enn og aftur umræðan um stóriðju þegar fer að nálgast kosningar. Nú er það sinkverksmiðja og útflutningur um sæstreng sem horft er til í hillingum. Á sama tíma fær atvinnugrein eins og garðyrkja engan stuðning við sína framleiðslu með lægra orkuverði.
    Frá árinu 1991 hefur kaupmáttur ráðstöfunartekna dregist saman um 6,2% miðað við framfærsluvísitölu. Það hefur orðið veruleg lífskjaraskerðing á síðustu fjórum árum. Hvort tekst að snúa þeirri þróun við nú með þeim kjarasamningum sem hafa verið gerðir mun tíminn leiða í ljós. Mér sýnist að ýmislegt af því sem ríkisstjórnin er þar að lofa, eins og að lífeyrisgreiðslur launþega verði skattfrjálsar, sé endurtekið loforð sem búið er að gera áður en er nú sagt með öðrum orðum. Hækkun skattleysismarka er líka orðin tóm. Sú hækkun persónuafsláttar sem koma á til framkvæmda á þessu ári er aðeins eðlileg verðlagshækkun en ekki viðbót. Hins vegar hafa skattleysismörkin verið lækkuð um 176.324 kr. á mann frá árinu 1988 til 1994 ef miðað er við árstekjur og reiknað á föstu verði.
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við höfum í kvöld heyrt stjórnarliða hæla sér af lágri verðbólgu, stöðugleika og því að nú sé þjóðin farin að grynnka á erlendum skuldum, grynnka á þeim með hagstæðum viðskiptajöfnuði. Við skulum skyggnast nánar í þessar fullyrðingar.
    Vissulega er lág verðbólga árangur sem fyrst og fremst má þakka launþegum en ekki ríkisstjórn. Hin svokallaða þjóðarsátt fólst í því að herða sultarólina hjá láglaunafólkinu í landinu, konum og körlum sem búa við laun sem ekki duga fyrir framfærslu. En sú staðreynd að nú er hagstæður viðskiptajöfnuður er ekki það sama og að ríkissjóður sé farinn að greiða niður skuldir. Þvert á móti. Það eru einstaklingar og fyrirtæki sem gera það. Það eru þau sem hafa dregið úr innkaupum. Fólk hefur einfaldlega ekki efni á að veita sér að sem það gerði áður. Sumt var kannski óþarfi, en þegar fólk er farið að eiga sama bílinn í 10--15 ár af því að það hefur ekki efni á að endurnýja hann, safna skuldum af því að tekjur duga ekki fyrir framfærslu og afborgunum af lánum, þá er ástandið orðið alvarlegt.
    Skuldir heimilanna hafa vaxið gífurlega síðustu fimm árin og skuldir sveitarfélaga hafa líka aukist, einfaldlega af því að tekjur íbúanna minnka og atvinnuleysið eykst. Þannig hefur þetta allt saman keðjuverkandi áhrif og atvinnuleysið sem var óþekkt fyrirbrigði hér á landi mælist nú 6,8%. Ekki hefur heilbr.- og trmrh. tekið á því vandamáli með því að endurskoða lögin um atvinnuleysisbætur. Sú löggjöf er úrelt miðað við ríkjandi ástand og litlar sem engar lagfæringar verið gerðar á henni þrátt fyrir vaxandi atvinnuleysi á þessu kjörtímabili.
    Ríkisstjórnin skilur eftir sig halla á fjórum árum upp á um 40 milljarða kr. og skuldir ríkis og sveitarfélaga hafa vaxið úr 33% af landsframleiðslu í 53% á síðustu tíu árum. Finnst ykkur, áheyrendur góðir, að þetta sé viðunandi árangur? Ætlið þið að gefa þessum flokkum umboð til að stjórna áfram? Kvennalistinn hefur átt fimm þingkonur á Alþingi þetta kjörtímabil. Við höfum lagt fram mörg mál sem snerta réttindi kvenna og barna, jafnréttismál, umhverfismál og byggðamál, svo eitthvað sé nefnt. En við höfum einnig lagt mörgum góðum málum lið, sama hvort þau hafa verið flutt af stjórn eða stjórnarandstöðu. Það er mikill misskilningur að þeir alþingismenn sem ekki eru innan ríkisstjórnarflokkanna séu á móti öllum málum og við kvennalistakonur látum í öllum tilfellum málefnin ráða afstöðu okkar.
    Við í Kvennalistanum höfum einnig mótað okkur sérstöðu, t.d. í sjávarútvegsmálum. Þar höfum við verið talsmenn byggðakvóta en þá tillögu lögðum við fram 1987 og hún var síðan útfærð í brtt. við frv. um stjórn fiskveiða 1990. Við höfum nú endurskoðað okkar sjávarútvegsstefnu og leggjum til að fiskimiðunum sé skipt upp í grunnsjávarmið og djúpsjávarmið. Nýtingu grunnsjávarmiðanna sé stjórnað af samstarfsnefnd sjómanna og vísindamanna. Stærri skipum sé ekki leyft að veiða á grunnsjávarmiðum heldur séu þau fyrir báta innan ákveðinna stærðarmarka. Áætluðum ársafla af djúpsjávarmiðum sé úthlutað til skipa sem vegna stærðar og gerðar geta sótt afla á meira dýpi. Við viljum endurskoðun á fiskveiðistjórninni þar sem tekið sé tillit til allra þátta lífríkisins í hafinu og áhrifa veiðarfæra á hafsbotni. Við viljum að krókaveiðar séu frjálsar með dagatakmörkunum. Líklega erum við einu stjórnmálasamtökin sem eru sammála í sjávarútvegsmálum. Það er meira en sagt verður um aðra og sjálf tek ég lítið mark á því þó að sjálfstæðismenn á Vestfjörðum séu fram komnir með nýja stefnu í fiskveiðimálum. Það vita það allir sem vilja vita að þeir ná engri samstöðu um það innan sinna raða. En þeim þykir gott að koma með tillögur sem þeir halda að dugi þeim í kosningum þó að þeir afskrifi þær fljótlega eftir kosningar.
    Á landsbyggðinni skipta samgöngumálin miklu máli. Það gildir ekki hvað síst um mitt kjördæmi, Vestfirði. Þar er enn margt óunnið í vegamálum þó að mikið hafi vissulega verið gert á seinni árum, m.a. veginum um Hálfdán, brú á Dýrafjörð og ekki síst með jarðgangagerð á norðanverðum Vestfjörðum, sem ég fæ reyndar að heyra í hvert sinn sem ég nefni samgöngumál á hinu háa Alþingi. En þessi jarðgöng komast senn í gagnið. Næsta stórverkefni er brú á Gilsfjörð og lagning Djúpvegar. En ég legg ríka áherslu á það að hvað sem allri vegalagningu líður, þá sé öryggisþátturinn ævinlega tryggður.
    Ég hef lagt mig fram um að vinna að því að rekstur ferju við Djúp væri tryggður á næstu árum meðan verið er að vinna við Djúpveg og um það eru bráðabirgðaákvæði í nýjum vegalögum sem gilda til fimm ára. Hvers vegna framkvæmdir hafa dregist þrátt fyrir framkvæmdir á fjárlögum væri rétt að spyrja þá þingmenn um sem eiga aðild að ríkisstjórn. Við Vestfirðingar horfum á það á þessum vetri að það gengur einfaldlega ekki upp að treysta eingöngu á samgöngur á landi og í lofti.
    Góðir tilheyrendur. Innan þeirra flokka sem nú stjórna landinu er of mikið af fólki sem aðhyllist frjálshyggju og telur að markaðslögmálið leysi allan vanda. En jafnframt styður ríkisstjórnin við þá fjársterku aðila sem hafa tögl og hagldir í íslensku atvinnulífi. Það er nefnilega stutt í einokuna þegar stór fyrirtæki eru farin að ráða markaðnum. Því miður höfum við dæmin fyrir okkur í því. Þessi ríkisstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. mun ekki setja málefni fjölskyldunnar, málefni kvenna og barna og láglaunafólks í neinn forgang. Einstakir ráðherrar með góðan vilja í þeim málum eða nýja fjölskyldustefnu fá því trauðlega breytt og það er heldur ekki trúverðugt þegar fyrrverandi ráðherrar tala eins og þeir einir hafi komið öllum góðum málum til leiðar. Það koma fleiri að því.
    Við kvennalistakonur munum halda áfram að berjast fyrir því hvar sem við getum því við komið og nú

er það kjósenda að gera upp hug sinn hverjum þeir treysta best. Þeir eiga síðasta orðið.
    Ég þakka þeim sem hlýddu. Góðar stundir.