Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:27:07 (4776)


[22:27]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Við stöndum á tímamótum. Fram undan er val um hvert við viljum stefna í þeirri uppbyggingu sem fram undan er. Drögum lærdóm af reynslunni. Þegar horft er um öxl er stöðugleiki umdanfarinna ára mikilvægastur. Grunnur hans er að á milli aðila vinnumarkaðarins og stjórnvalda náðist sátt og samvinna um kaup og kjör. Sátt um að leggja áhersluna á kaupmátt en ekki hverfular krónur. Nýgerðir kjarasamningar byggja á gagnkvæmu trausti. Markmið þeirra er að treysta áframhaldandi stöðugleika og vaxandi kaupmátt. Verkalýðshreyfingin í landinu hefur enn á ný sýnt að hún er þess megnug að standa vörð um hag þeirra sem mest þurfa á að halda. Það er þetta sem er ánægjulegast við kjarasamninginn, hann byggir á launajöfnuði og að þeir sem lægst hafa launin fá mesta hækkun.
    Undanfarna viku hefur starfað samráðshópur félmrn., ASÍ, BSRB, banka, lífeyrissjóða, sveitarfélaga og Neytendasamtakanna. Þar höfum við saman farið yfir alla þá þætti er snúa að vanskilum heimilanna. Ég trúi að þetta góða samstarf eigi sinn þátt í afstöðu verkalýðshreyfingarinnar og í því trausti sem hún leggur á yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar um aðgerðir í húsnæðismálum. Við munum ekki bregðast því trausti. Það er tryggt að fjármagn verður veitt til aðgerða vegna greiðsluerfiðleika í húsnæðismálum. Auk þess eru ýmsar ákvarðanir þegar farnar að hafa áhrif til bóta. Alþfl. hefur haft forustu um umbætur í velferðarmálum. Hvað felst í því? Hverju breytti t.d. fyrsta heildstæða löggjöfin um félagslega þjónustu? Áður upplifði fólk að það að leita hjálpar vegna fátæktar þýddi beiðni um framfærslu, eins konar ölmusu. Með lögunum var festur réttur fólks til stuðnings eftir reglum sem sveitarfélög setja og réttur einstaklinga varðandi málmeðferð og til þjónustu var tryggður. Ný löggjöf í málefnum barna og unglinga þýðir byltingu í þeim málaflokki. Þrátt fyrir samdrátt í ríkisútgjöldum hefur orðið raunaukning í málaflokki fatlaðra á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Stórkostlegar réttarbætur voru festar í nýlegum lögum. Nefna má nýja möguleika í búsetumálum fatlaðra, aukna liðveislu og þar með stuðning við þátttöku fatlaðra í atvinnulífi og í samfélaginu almennt. Á þessu ári verður stærra átak í úthlutunum Framkvæmdasjóðs fatlaðra en nokkru sinni fyrr í sögu sjóðsins.
    Mikil fjölgun hefur orðið á félagslegum íbúðum. Á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar og á stjórnartíma Alþfl. hefur stórkostleg aukning félagslegra íbúða átt sér stað eða um 4.650 íbúðir og er það nær helmingur allra félagslegra íbúða frá upphafi. Lán sem hvíla á þessum íbúðum gætu numið u.þ.b. 20--30 millj. í dag. Ég spyr vegna þeirra orða sem fallið hafa hér úr þessum ræðustóli í kvöld hvort það séu skuldir sem menn gagnrýna. Þessi húsnæðiskostur hefur skipt sköpum fyrir láglaunafólk sem hefur í þessum mæli fengið varanlega úrlausn. Frá síðustu áramótum hafa húsaleigubætur skapað jafnræði milli leigjenda og íbúðareigenda hvað varðar stuðning hins opinbera. Húsaleigubætur hækka ráðstöfunartekjur hjóna og einstaklinga að meðaltali um 10% og einstæðra foreldra um allt að 17% samkvæmt útreikningum Þjóðhagsstofnunar. Það eru ungar barnafjölskyldur, einstæðir foreldrar og láglaunahópar sem fyrst og fremst eru á leigumarkaði. Þess vegna eru þessar úrbætur svo mikilvæg aðgerð til kjarajöfnunar.
    Alþfl. er flokkur frumkvæðis og kjölfestu í íslensku stjórnmálalífi. Hann tileinkar sér ekki baráttuaðferð yfirboða og óábyrgra loforða. Þeirri austrænu dulspeki sem felst í útflutningsleið Alþb. er ætlað að standa undir bálki kosningaloforða þar sem hvert einasta orð kostar 10 millj. kr. og þá eru atviksorð meðtalin. Það kæmi ekki að sök væri sá bálkur kjarnorður, en langlokan kostar því miður á þriðja tug milljarða. Á sama tíma eru einu viðbrögð formanns Alþb. við nýju kjarasamningunum: Hver á að borga?
    Merkileg könnun um launamun karla og kvenna hefur mikið verið til umræðu í þjóðfélaginu. Þessi könnun er hafsjór af fróðleik og mikilvægum upplýsingum um hvar launamunurinn verður til. Mín afstaða er að við náum ekki fullkomnu jafnrétti nema tryggja að breytingar verði á viðhorfum til fjölskyldunnar, t.d. að lögð sé áhersla á aukna ábyrgð feðra í uppeldi barna sinna. Í markvissri fjölskyldustefnu liggur grunnur að jafnrétti. Meðan svo háttar að bæði kynin eru ekki jafnt kölluð til ábyrgðar í fjölskyldulífi og umönnun barna náum við ekki árangri.
    Fyrir Alþingi liggur þáltill. um mótun opinberrar fjölskyldustefnu. Hún byggir á heildarsýn í málefnum fjölskyldunnar og að stjórnvöld setji sér framkvæmdaáætlun til að bæta aðstæður hennar. Í slíkri ályktun felst leiðsögn um hvernig við setjum okkur markmið til að keppa að í þessum mikilvæga málaflokki. Einungis með slíkum hætti getum við náð árangri.
    Virðulegi forseti. Góðir tilheyrendur. John Osborne skrifaði áhrifaríkt leikrit sem heitir ,,Horfðu reiður um öxl``. Stundum þegar ég hlusta á stjórnarandstöðuna í sínu beiskjutali um allt sem miður hafi farið koma þessi orð í hugann. Horfum ekki reið um öxl. Lítum fram á veg og byggjum á því gagnkvæma trausti sem tekist hefur að festa í sessi. Það er á þann hátt sem þessi þjóð nær árangri. --- Ég þakka þeim sem hlýddu.