Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:33:51 (4777)


[22:33]
     Margrét Frímannsdóttir :
    Virðulegi forseti. Góðir áheyrendur. Kjörtímabili ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er loksins að ljúka. Þetta hefur verið erfiður tími fyrir marga og í ljósi þess er einkennilegt að hlusta á fulltrúa ríkisstjórnarflokkanna hrósa sér af verkum sínum. Vissulega er það rétt að ákveðinn stöðugleiki hafi ríkt og verðbólga hafi verið mjög lítil undanfarin ár og það er gott. Verðbólgan var kveðin niður í tíð síðustu ríkisstjórnar þegar Ólafur Ragnar Grímsson var fjmrh. og grunnur lagður að þeim stöðugleika í efnahagsmálum sem ríkt hefur. Það má vel vera að fulltrúar ríkisstjórnarinnar sjái ástæðu til þess að þakka sér sérstaklega fyrir það að hafa ekki eyðilegt þennan árangur en ég geri það ekki.
    Ríkisstjórninni stóðu ýmsar leiðir til boða til að halda verðbólgu niðri og tryggja stöðugleika í efnahagsmálum. Stjórnarflokkarnir ákváðu að ná settu marki með því að vernda þá sem mest hafa og best eru settir, en láta aðra borga brúsann. Á þessu kjörtímabili er búið að auka þjónustugjöld og skatta á launafólk um milljarða kr. Það má með sanni segja að ríkisstjórnin hafi staðið sig vel fyrir þá sem hún ber fyrir brjósti. Launafólk og þeir sem minna mega sín eru greinilega ekki í þeim hópi.
    Hver kjaraskerðingin hefur rekið aðra undanfarin fjögur ár og það er af mörgu að taka. Barnabætur voru skertar, persónuafsláttur lækkaður, vaxtabætur skertar, skattleysismörkin lækkuð verulega, mæðra- og feðralaun voru skert, sjúklingar látnir greiða hærri gjöld fyrir heilbrigðisþjónustu, foreldrar greiða meira fyrir tannlækningar barna sinna og skólagjöld voru tekin upp. Ellilífeyrir var skertur, skattar á launafólk hækkaðir og þannig mætti lengi telja. Og ofan á allt saman kemur meira atvinnuleysi í tíð ríkisstjórnarinnar en áður hefur þekkst.
    Athafnir ríkisstjórnarinnar og aðgerðaleysi hafa orðið til þess að fjöldi heimila í landinu á við verulegan vanda að stríða. Harðast hafa þessar aðgerðir bitnað á ungu fólki í námi og ungu barnafólki sem er að stofna heimili og flytja í eigið húsnæði í fyrsta sinn. Og það er rétt í ljósi þeirrar ræðu sem við hlustuðum á rétt áðan að halda því til haga að hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir var ráðherra fjölskyldu- og félagsmála þegar þessar skerðingar á lífskjörum fóru fram, greiddi atkvæði og ber sömu ábyrgð og aðrir þó að hún hafi kosið að halda öðru fram. Það er sorglegt þegar stjórnmálamenn firra sig ábyrgð af eigin gerðum og ekki orð um það meir.

    Í nýgerðum kjarasamningum er vissulega verið að stíga skref í rétta átt með því að hækka lægstu launin meira en önnur laun. En þær kjarabætur sem verið er að semja um bæta ekki þá skerðingu á kjörum launafólks sem þessi ríkisstjórn hefur jafnt og þétt verið að auka á kjörtímabilinu. Ástandið er slæmt sem lýsir sér ekki síst í mikilli í skuldasöfnun heimilanna undanfarin ár og atvinnuleysinu sem er bein afleiðing þeirrar efnahagsstefnu sem rekin hefur verið. Í mörgum greinum atvinnulífsins eru laun enn langt undir framfærslukostnaði. Fátækt og misrétti hefur vaxið ár frá ári vegna atvinnuleysis, lágra launa og ranglætis í skattakerfinu. Það er kominn tími til að skipta um stefnu og setja fólk í landsstjórn sem vill jöfnuð, öfluga velferðarþjónustu og örugga atvinnu fyrir alla, fólk, sem lætur málefni fjölskyldunnar og þeirra sem minna mega sín hafa forgang.
    Við höfum kynnt stefnu okkar og margvíslegar tillögur um aðgerðir í atvinnumálum, uppeldismálum, menntamálum, húsnæðismálum og skattamálum sem styrkja stöðu fjölskyldnanna í þjóðfélaginu. Atvinnumálin eru í öndvegi í okkar tillögum, enda óþolandi að hér í þessu fámenna þjóðfélagi skuli vera rekin efnahagsstefna sem meinar tuttugasta hverjum manni að vinna. Í stefnu okkar kemur fram að við ætlum að tryggja að framlög til málefna fatlaðra fullnægi þjónustuþörfum þannig að þessi hópur geti notið lífsins gæða til jafns á við aðra. Við ætlum einnig að efla forvarnastarf á sviði heilbrigðis- og æskulýðsmála, hlúa að íþróttastarfsemi og styrkja baráttu gegn fíkniefnum. Við viljum að það verði forgangsverkefni næstu ríkisstjórnar að vinna að jöfnun orkuverðs, símgjalda og annarra undirstöðuþátta.
    Ranglátt skattkerfi á verulegan þátt í hvernig komið er fyrir fjölda heimila í landinu. Við höfum lagt fram skýrar tilögur um breytingar sem miða að því að bæta kjör þeirra sem erfiðast eiga og leiðrétta það hróplega misrétti sem nú ríkir. Við munum beita okkur fyrir hækkun skattleysismarka í áföngum, hertu skattaeftirliti, að fjármagnstekjur verði skattlagðar og að komið verði á raunverulegum hátekjuskatti. Við leggjum áherslu á að sett verði ný jöfnunarákvæði, vaxtabætur, húsaleigubætur og barnabætur og að skattkerfið verði gagnsætt og skilvirkt. Er t.d. eðlilegt að ég og aðrir sem höfum þokkaleg laun njótum sama persónuafsláttar og ungt barnafólk með mun lægri laun eða ungt fólk í námi? Ég tel vel koma til greina að fella niður persónuafslátt hjá okkur sem höfum góðar tekjur og færa það fjármagn sem þannig sparast til þeirra sem búa við lakari kjör.
    Í vel unnum tillögum okkar, sem ég hvet fólk til að kynna sér, er gert ráð fyrir að 5--7 milljarðar kr. verði fluttir til lág- og miðtekjuhópa. Það er kominn tími til að skila þessu fólki aftur því sem frá því hefur verið tekið á undanförnum árum.
    Verulegur hluti þeirra skulda sem hvíla á heimilum er vegna húsnæðiskaupa og margir geta ekki staðið við skuldbindingar sínar. Greiðslubyrði hefur aukist og þær lausnir sem boðaðar hafa verið þjóna aðeins hluta þeirra sem eiga við vandamál að stríða. Við leggjum m.a. til að húsnæðislán verði lengd, að veittur verði greiðslufrestur fyrir fólk sem leitar lausnar á tímabundnum erfiðleikum, að greiðslubyrði húsnæðislána verði alltaf innan við 20% af heildarlaunum, að húsaleigubætur verði almenn réttindi óháð búsetu líkt og vaxtabætur og að tekið verði sérstaklega á þörfum þeirra sem eru að tryggja sér húsnæði í fyrsta sinn.
    Góðir áheyrendur. Æviskeið ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er á enda runnið sem betur fer. Nýrrar ríkisstjórnar bíða mörg og erfið verkefni. Það verður að efla atvinnulífið og tryggja landsmönnum öllum örugga atvinnu. Það verður að lagfæra þau spjöll sem búið er að vinna á velferðarkerfinu og jafna kjörin. Það verður að leysa úr brýnum vanda þeirra sem verst hafa orðið úti í tíð þessarar ríkisstjórnar. Við erum reiðubúin til að takast á við þetta verkefni og höfum lagt fram skýrar tillögur. Við bjóðum fram okkar framtíðarsýn, okkar atvinnustefnu, okkar velferðarstefnu. --- Ég þakka þeim sem hlustuðu.