Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 22:57:39 (4780)


[22:57]
     Landbúnaðarráðherra (Halldór Blöndal) :

    Hæstv. forseti. Góðir Íslendingar. Ég tel óhjákvæmilegt í upphafi máls míns að víkja nokkrum orðum að afkomu sauðfjárbænda sem hefur farið mjög versnandi eins og flestum er kunnugt síðan búvörusamningarnir voru gerðir á öndverðu ári 1991, eins og ég hef raunar áður vikið að, bæði á aðalfundum Stéttarsambands bænda og búnaðarþingum. Þar hef ég vakið athygli á því að forsendur búnaðarsamningsins hafi brostið eins og þær voru hugsaðar af þeim sem settu nafn sitt undir samningana. Ég hef boðið upp á endurskoðun þeirra en meðal bænda eru skiptar skoðanir um hvernig við vandanum skuli brugðist. Ég er sannfærður um að það sé óhjákvæmilegt að finna leiðir til þess að rýmka um framleiðslukvótann, bæði til þess að treysta búsetu í sveitum og ná niður vöruverði.
    Ég hef þegar náð samkomulagi við bændur um að einstakir sauðfjárbændur geti dregið úr framleiðslu sinni eða jafnvel hætt henni en snúið sér þess í stað að landgræðslustörfum eða gróðurvernd. Ég vil sömuleiðis koma til móts við þá bændur sem búa við skerta starfsorku vegna sjúkdóms eða aldurs. Menn kunna að segja að þetta vegi ekki þungt til að draga úr heildarframleiðslunni en það munar um hvert einasta skref sem við stígum ef það er í rétta átt. Við verðum að huga að tekjumöguleikum bænda til hliðar við búskapinn. Ferðaþjónustan hjálpar sumum, aðrir hafa náð tökum á hrossarækt og enn aðrir eru í aðstöðu til að sækja vinnu af bæ.
    Við verðum að horfast í augu við að sumir sauðfjárbændur hafa enga afkomu eins og nú er komið. Þess vegna verðum við að auðvelda þeim sem vilja að hverfa frá búskapnum, líka þótt þeir kjósi að búa áfram á jörðum sínum. Fyrir nauðsyn þessa er vaxandi skilningur í þjóðfélaginu og við heyrðum það áðan hjá formanni Alþfl. að vinum bænda fer fjölgandi og ég get sagt við minn gamla skólabróður: Nú líkaði mér við þig.
    Bændur gera sér ljóst að ekki má dragast lengur að samstaða takist um skipan útflutningsmála þeirra. Ég er sammála þeim sem segja að bændur eigi að nýta sér reynslu hinna sterku sölusamtaka fiskiðnaðarins. Þetta er sérstaklega brýnt af því að við erum nú að efna til sérstaks markaðsátaks erlendis undir merki hollustu og hreinleika og er samkomulag um að verulegu fjármagni úr ríkissjóði verði veitt til þessa átaks á næstu árum.
    Eftir að ég varð samgrh. hratt ríkisstjórnin í framkvæmd sérstöku átaki í vegamálum. Markmið þess var að leggja bundið slitlag á þá vegi sem tengdu saman atvinnusvæði og nálægar hafnir. Sérstök áhersla var lögð á það í fyrsta lagi að ljúka veginum til Akureyrar og það tókst á sl. sumri. Í öðru lagi að teygja slitlagið austur að Höfn í Hornafirði og það er í sjónmáli að það takist. Og í þriðja lagi að hefja framkvæmdir við uppbyggingu vegarins yfir Fjöllin í Mývatnssveit til Egilsstaða og opna hann yfir veturinn. Það hefur komið í ljós að þessi ákvörðun hefur haft mikla þýðingu fyrir atvinnulífið á Norðurlandi og Austurlandi. Þannig hefur umferð aukist og viðskipti lifnað milli þessara landsfjórðunga sem áður voru dauð. Og það er mikill þrýstingur á að halda þessu verki áfram. Þess vegna leggjum við nú áherslu á það í nýju átaki í vegamálum að halda áfram uppbyggingu vegarins yfir Möðrudalsöræfi og það má vel minna á það að sú framkvæmd fannst hvergi á landakortinu hjá síðustu ríkisstjórn.
    Þá hefur verið tekin ákvörðun um að hefja uppbyggingu vegarins inn í Ísafjarðardjúp af fullum krafti. Það markar kaflaskil í samgöngumálum Ísfirðinga. Verulegum fjármunum er veitt til brýnustu gatnagerðarframkvæmda á höfuðborgarsvæðinu, það markar líka kaflaskil, og samningsgerðin um gerð jarðganga undir Hvalfjörð er komin á lokaskrið. Gilsfjarðarbrú verður boðin út og þannig koll af kolli.
    Það er eftirtektarvert og vitaskuld ánægjulegt hversu góður árangur hefur náðst í ferðamálum. Þannig hafa gjaldeyristekjurnar vaxið um þriðjung á tveimur árum og voru nær 17 milljarðar á sl. ári. Á sama tíma hefur erlendum ferðamönnum fjölgað úr 140 þús. í 180 þús. Annars vegar þökkum við þetta því að hér hefur náðst jafnvægi í efnahagsmálum og verðlag hér á landi er nú hagstæðara í samanburði við önnur lönd en það hefur verið um áratugi. Þetta hefur gefið okkur gullið tækifæri til þess að vinna að markaðsmálum okkar erlendis með öðrum og markvissari hætti en áður. Í samvinnu við Flugleiðir og bændur var á síðasta ári varið 100 millj. kr. til þessa sérstaka átaks. Þessir fjármunir hafa skilað sér til baka tífalt og jafnvel fimmtánfalt ef mið er tekið af gjaldeyristekjunum.
    Ávinningurinn verður enn meiri ef við tökum inn í dæmið þann mikla vöxt sem orðið hefur á flugleiðinni milli Evrópu og Ameríku. Ég er að tala um 20% fjölgun farþega milli ára. Ég er að tala um það að á síðasta ári fóru farþegar Flugleiða í fyrsta skipti yfir eina milljón. Vegna þessa góða árangurs sem náðist með markaðsátakinu á sl. ári hefur verið ákveðið að halda því áfram til hagsbóta fyrir alla þá sem með einhverjum hætti koma að ferðaþjónustunni hvort sem þeir búa hér á suðvesturhorni landsins eða úti á landsbyggðinni, hvort sem þeir starfa á hótelum eða í veitingasölum eða bílstjórar eða leiðsögumenn eða vinna við verslun. Kannanir sýna að átakið ,,Ísland, sækjum það heim`` fékk góðar undirtektir hjá þjóðinni, ýtti undir fólk að fara um landið og líka, sem er mikilvægt, að taka íslenskar framleiðsluvörur fram yfir erlendar. Það er ánægjulegt að sjá hvílíkar framfarir hafa orðið í heimilisiðnaði og smáiðnaði hvers konar. Nú eru heiti eins og þessi á hvers manns vörum: Handverkskonur milli heiða, Þingborgarhópurinn og frú Lára að öllum öðrum ógleymdum.
    Reynslan hefur sýnt að það er mikil samsvörun í afkomu heimilanna og fjölda farþega í innanlandsflugi. Á sl. ári tók þeim að fjölga jafnt og þétt borið saman við næsta ár á undan og sömu sögu er að segja af tveimur fyrstu mánuðum þessa árs. Þrátt fyrir erfitt tíðarfar fjölgaði farþegum um 10% í janúar og stefna í 15% fjölgun nú í febrúar. Þetta gefur með öðru vísbendingu um að við Íslendingar erum á réttri leið. Það

ríkir meiri bjartsýni í þjóðfélaginu en áður. Við horfum fram til betra lífs og bjartari tíma.
    Góðir Íslendingar. Það er rétt sem Stefán Guðmundsson sagði í upphafi ræðu sinnar hér áðan að það urðu vatnaskil í íslenskum þjóðmálum með ríkisstjórn Davíðs Oddssonar. Sú stöðnun sem orsakaði atvinnuleysið sem við búum nú við hófst með síðustu ríkisstjórn og stóð allt hennar valdaskeið. Nú er atvinnulífið aftur komið á skrið, hjól framleiðslunnar snúast hraðar en áður og þjóðartekjur fara vaxandi. Atvinnutækifærum fjölgar og lífskjör batna. Störf ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar hafa borið árangur. Nýir kjarasamningar leggja grundvöllinn að hagsæld fyrir alla.