Almennar stjórnmálaumræður (útvarpsumr.)

103. fundur
Miðvikudaginn 22. febrúar 1995, kl. 23:23:24 (4783)


[23:23]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Góðir áheyrendur. Nú þegar komið er að lokum þessa kjörtímabils er ekki úr vegi að staldra við og spyrja hvað hafi einkennt þetta tímabil, hvaða breytingar séu helstar orðnar á högum landsmanna og aðstæðum.
    Mér sýnist ljóst að þessa tímabils og ríkisstjórnar Sjálfstfl. og Alþfl. verði fyrst og fremst minnst og það með litlu þakklæti fyrir eitt, þ.e. atvinnuleysið. Þetta er tímabilið þegar atvinnuleysið hélt innreið sína, þetta er ríkisstjórnin sem ber ábyrgð á því. Nálægt 5% atvinnuleysi ár eftir ár, 6--7 þúsund Íslendingar án atvinnu að meðaltali allt árið. Tímabil algerrar stöðnunar í atvinnumálum, hlutfallslega minnstu fjárfestinga á Íslandi í hálfa öld.
    Alþb. hefur ítrekað á undanförnum árum hvatt til samstöðu í baráttunni gegn atvinnuleysinu. Við höfum lagt fram okkar tillögur og það er ánægjulegt að hér í kvöld hafa allir flokkar eytt umtalsverðum tíma í umfjöllun um kosningastefnu Alþb. Ég þakka þá athygli sem þessi stefna Alþb. og óháðra hefur fengið. Hún er til marks um að okkur hefur tekist að vekja athygli á þeim tillögum sem við höfum fram að færa.
    Því miður hefur hæstv. ríkisstjórn sofið þyrnirósarsvefni í atvinnumálum allt þetta kjörtímabil í anda stefnunnar ,,kemur mér ekki við``.
    Í málefnum undirstöðugreina eins og sjávarútvegs og landbúnaðar hefur ríkisstjórnin hrakist áfram stefnulaus, og óstarfhæf sökum innbyrðis illinda. Sjálfstfl. hefur farið með bæði þessi mikilvægu atvinnuvegaráðuneyti. Mér segir svo hugur að ráðherra hans í þessum efnum verði seint minnst fyrir frumkvæði og hugmyndaauðgi í þeim efnum.

    Svokölluð endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar varð að engu í höndum tvíhöfða nefndar ríkisstjórnarinnar og í landbúnaðarmálum hefur ríkisstjórnin verið óstarfhæf vegna stanslausra illdeilna. Það hefur komið fram í skýrslu, sem hæstv. landbrh. gaf við beiðni þingflokks Alþb., að um stórkostlegar vanefndir á búvörusamningnum er að ræða. Landbrh. talaði áðan um að búvörusamningurinn væri erfiður sauðfjárbændum en það er þá varla, hæstv. landbrh., í miklu samræmi við það að svíkja svo bændur ofan í kaupið um hundruð milljóna og milljarða sem til þeirra áttu að renna samkvæmt þeim samningi. En hæstv. ráðherra hefur sjálfur lagt fram skýrslu sem sannar þessar vanefndir upp á hann. Jafnvel svo einfaldur hlutur og að ganga frá framkvæmdaatriðum sem snúa að alþjóðasamningum sem tengjast landbúnaðinum hefur þvælst fyrir ríkisstjórninni allt kjörtímabilið. Þetta er hörmuleg frammistaða í málefnum undirstöðuatvinnugreina landsmanna, sjávarútvegs og landbúnaðar, og ekki von á góðu þegar þvílíkt dugleysi einkennir framgöngu ráðherra stærsta stjórnmálaflokksins í þessum efnum.
    En því miður, góðir áheyrendur, verður þessa tímabils einnig minnst fyrir versnandi lífskjör á Íslandi. og fyrir stóraukið misrétti í launa- og skattamálum. Nýframkomin skýrsla um launamun kynjanna segir ljóta sögu um grimmilegt kynbundið launamisrétti. Nýgerðir kjarasamningar duga því miður skammt til að hækka lægstu laun og slá á launamisréttið sem hefur stóraukist hin síðustu ár. Þáttur ríkisstjórnarinnar í þessari samningagerð er allur hinn furðulegasti og felst fyrst og fremst í því að gefa út 4 milljarða víxil án þess að stakt orð fylgi með um það hver á að borga.
    Góðir áheyrendur. Alþýðubandalagið hefur í þessum kosningum fengið til liðs við sig öfluga sveit nýrra liðsmanna um land allt og býður fram í samstarfi við óháða, G-lista Alþb. og óháðra um allt land. Á sama tíma og flestir aðrir flokkar ganga klofnir og margklofnir til kosninga og ný klofningsframboð reyna fyrir sér gengur Alþb. heilt og óskipt og öflugra en fyrr til kosningabaráttunnar í samstarfi við nýja liðsmenn. Alþb. er kjölfestan til vinstri í íslenskum stjórnmálum. Framboð Alþb. og óháðra er eina aflið sem vinstri menn og félagshyggjufólk eiga sem hefur styrk til að knýja fram breytingar. Skoðanakannanir sýna um þessar mundir að önnur framboð eiga þar litla möguleika.
    Meginverkefni þeirrar kosningabaráttu sem í hönd fer er að fella núverandi hægri stjórn, stjórn atvinnuleysis og stöðnunar. Það má ekki gerast að hún nái fylgi til að sitja áfram. Þá á eftir er mikilvægast að tryggja að unnt sé að mynda raunverulega vinstri stjórn.
    Góðir Íslendingar. Við þurfum vor í íslenskum stjórnmálum eftir fjögurra ára vetur atvinnuleysis og hægri hyggju. Við þurfum vor til vinstri.
    Sem síðasti ræðumaður þessarar umræðu vil ég leyfa mér að þakka ykkur, áheyrendur góðir, fyrir samveruna. --- Góðar stundir.