Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 10:39:18 (4786)

[10:39]
     Flm. (Geir H. Haarde) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli fyrir frv. til stjórnarskipunarlaga sem samkomulag hefur orðið um að formenn þingflokka flyttu. Mál þetta er ekki efnismikið, í því eru tvær tillögur um breytingar á stjórnarskránni. Hin fyrri er sú að gert er ráð fyrir að embætti eða störf yfirskoðunarmanna ríkisreiknings verði ekki lengur inni í stjórnarskránni heldur verði einungis kveðið á um að endurskoðun á fjárreiðum ríkisins, stofnana þess og ríkisfyrirtækja skuli fara fram á vegum Alþingis og í umboði þess eftir nánari fyrirmælum í lögum.
    Ástæða þessarar tillögu er sú að eftir að Ríkisendurskoðun var flutt undir yfirstjórn Alþingis þá eru ákvæði um yfirskoðunarmenn úrelt og ekki ástæða til að hafa þau lengur í stjórnarskránni. Alþingi getur hins vegar að sjálfsögðu skipað með lögum svo til að sérstakir skoðunarmenn verði kjörnir eða falið sérstakri þingnefnd að yfirfara þær endurskoðunarskýrslur sem fram koma. Það er að sjálfsögðu í hendi þingsins á hverjum tíma. Stjórnarskrárákvæðið sjálft er reyndar hálfgerður forngripur og menn eru sammála um að fella það brott úr stjórnarskránni. Hins vegar er gert ráð fyrir því að umboð þeirra yfirskoðunarmanna sem síðast voru kjörnir gildi þar til þeir hafi lokið skoðun sinni á ríkisreikningi ársins 1994.
    Hins vegar er hér, virðulegi forseti, ákvæði til bráðabirgða, sem er allt annars efnis. Ákvæðið gerir ráð fyrir því að lengja megi næsta kjörtímabil um allt að einn mánuð. Er það vegna þess, eins og allir vita, að kjördagur hefur verið að færast fram með hverjum kosningum sem fram hafa farið undanfarin ár, allt frá árinu 1983, og færst þá á æ óhentugri tíma fyrir almenning og stjórnmálaflokka. Tillaga flm. er sú að að næsta kjörtímabili loknu skuli reglulegar alþingiskosningar fara fram annan laugardag í maí 1999, nema Alþingi hafi áður verið rofið. Þessi tillaga er því flutt til þess að koma alþingiskosningum á hentugri árstíma að loknu næsta kjörtímabili. Hygg ég að um þetta mál sé samstaða meðal flestra hér í þinginu.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að fara frekari orðum um þetta frv., virðulegi forseti, en legg til að því verði vísað til 2. umr. og hv. stjórnarskrárnefndar þingsins.