Kosningar til Alþingis

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 10:50:10 (4788)

[10:50]
     Páll Pétursson :
    Frú forseti. Ég hef tekið þátt í því nefndarstarfi sem liggur til grundvallar þessu frv. Við lögðum upp með talsvert mikið prógramm í því nefndarstarfi. Afraksturinn hér og nú er einungis mjög lítið skref og ekki endanlegt. Því miður náðist ekki niðurstaða í nefndinni sem menn gætu verið sæmilega sáttir við þannig að við búum áfram við núgildandi kosningalög með öllum þeim göllum sem því fylgja. Það er einungis einn annmarki lagaður í þessu frv.
    Nú er út af fyrir sig margt hægt að segja ljótt um gildandi kosningalög og ég held að þjóðin sé alveg dauðleið á þeim og við þingmenn reyndar líka og undarlegt að ekki skyldi nást samstaða um að breyta þeim þannig að aðrar talningareglur gætu komið til framkvæmda við kosningar í vor. Það er að vísu einn kostur á þessum kosningalögum og ég vil ekki gera lítið úr honum. Það er jafnvægið sem ríkir þar á milli flokka. Það liggur alveg ljóst fyrir að ríkisstjórn sem styðst við meiri hluta á Alþingi hefur á bak við sig meiri hluta kjósenda, þ.e. meiri hluti þjóðarinnar hefur þá tekið ábyrgð á þeirri ríkisstjórn sem mynduð er að kosningum loknum.
    Ég hefði persónulega kosið að talningareglunum væri breytt og ég tel að það sé hægt að gera það án þess að raska þessu jafnvægi á milli flokkanna. Ég tel að það sé í þingflokki framsóknarmanna fullur vilji til að breyta kosningalögunum og fullur vilji til að breyta stjórnarskránni og við höfum verið mjög frjóir í tillögugerð og sett fram a.m.k. þrjár tillögur til breytinga. Engin þeirra náði fram að ganga að sinni, en þær eru til umræðu áfram.
    Ég vek athygli á því að ég tel að það sé mjög mikilvægt að auka persónukjör í kosningalögunum þannig að valfrelsi kjósandans verði meira heldur en nú er. Ég vil hins vegar undirstrika það að ég tel að það eigi að vera með jákvæðum hætti, þ.e. að persónukjörið byggist á því að kjósandinn velji þann sem hann óskar eða þá sem hann óskar fremur en að strika út þá sem hann vill ekki hafa. Það er allt annar svipur á því að gera þetta með pósitívum hætti.
    Jafnframt vil ég vekja athygli á því að ég tel að í framhaldsstarfi nefndarinnar eða framhaldsstarfi að þessari breytingu, því ég geri ráð fyrir að þessi nefnd hafi lokið störfum, framhaldsstarfið við stjórnarskrárbreytingar á næsta kjörtímabili og breytingar á kosningalögum, þá eigum við að opna í betri gátt fyrir þjóðaratkvæðagreiðslu. Ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðsla er mjög lýðræðislegur háttur á afgreiðslu eða mjög lýðræðislegur háttur að leita álits þjóðarinnar á álitamálum og það tel ég að við eigum að kappkosta að gera í ríkari mæli heldur en við höfum gert.