Kosningar til Alþingis

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 11:02:12 (4791)


[11:02]
     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Þingmenn Alþb. og þingflokkur eru aðilar að þessu samkomulagi sem liggur til grundvallar flutningi þessa frv. og er það í samræmi við þá niðurstöðu kosningalaganefndar sem starfaði samkvæmt bréfi eða skipun hæstv. forsrh. að ekki yrði meira að gert að sinni en að gera þær breytingar á kosningalögum sem hér eru fluttar í frumvarpsformi.
    Ég vil láta það koma fram að ég gerði í nefndinni þann fyrirvara við þessa niðurstöðu að ég teldi að sú ráðstöfun að færa 63. þingsætið, svonefndan flakkara, inn í hóp uppbótarsæta, samkvæmt 5. gr. laganna, með þeim hætti sem hér er lagt til, væri að því leyti ósanngjörn ráðstöfun að með því væri komið í veg fyrir að stærsta kjördæmi landsbyggðarinnar, Norðurl. e., sem einmitt við þessar kosningar er að missa eitt þingsæti á Reykjanes, færði í raun og veru þá fórn. Og þó ekki sé um það deilt að rík þörf sé á og mikil krafa uppi um að jafna vægi atkvæða þannig að fleiri þingsæti komi í hlut Reykjavíkur og Reykjaneskjördæmis þá er það að sama skapi óhagstæð aðferð að láta þá breytingu bitna á því kjördæmi landsbyggðarinnar sem fyrir er með fæst þingsæti miðað við íbúatölu. En ljóst er að Norðurl. e., sem langstærsta kjördæmi landsbyggðarinnar, stendur þar nokkuð sér á báti.
    Það hefði því verið æskilegra, hæstv. forseti, ef sambærilegar lagfæringar hefðu mátt ná fram að

ganga án þess að þeim fylgi þessi sérstaki annmarki, að um leið væri gengið sérstaklega á rétt þess landsbyggðarkjördæmis sem í raun og veru síst skyldi út frá atkvæðajöfnunarsjónarmiðum. Hefði 63. sætið verið fært inn í b-lið 5. gr. kosningalaganna, án þess að deilitölum b-liðarins væri breytt, hefði þetta sæti lent til Norðurl. e. og það því staðið jafnt að vígi eftir sem áður þrátt fyrir flutning eins sætis við þessar kosningar til Reykjaneskjördæmis. Deiling þessara nýju þingsæta, sem 5. gr. fjallar um, verður þá sú að fimm verða í Reykjavík og fjögur á Reykjanesi og má vissulega færa fram þau sjónarmið og þau rök fyrir þeirri niðurstöðu að með því er smáskref tekið til jöfnunar þingsæta í samræmi við íbúafjölda þar sem hvort kjördæmi fær þá við þessar kosningar eitt viðbótarþingsæti. En á því er þessi ágalli og ég vil láta hann koma hér fram, hæstv. forseti, og ég vil jafnframt að það sé ljóst að ég áskil mér allan rétt til þess að fylgja því máli eftir í frekari vinnu að endurskoðun kosningalaga, að hlutur Norðurl. e. verði þá á nýjan leik lagfærður þannig að ekki halli sérstaklega á það kjördæmi landsbyggðarinnar.
    Þá vil ég einnig láta koma fram, hæstv. forseti, að það var mikill áhugi á því af hálfu okkar þingmanna Alþb. að einhver árangur næðist við þessa endurskoðun kosningalaga í þá veru að koma á auknu persónukjöri þannig að fólk gæti í alþingiskosningum haft meiri áhrif á þá einstaklinga sem þar veljast í sæti. Var í nefndinni farið yfir ýmsa möguleika í þeim efnum en engin niðurstaða varð, enda ljóst að þar er um flókið og vandasamt verkefni að ræða, að útfæra með hvaða hætti skuli þá frá því gengið í kosningalögum. Einn möguleiki sem kæmi til greina a.m.k. væri sá að kjósendur og flokkar ættu það val að jafnframt röðuðum listum mætti bjóða fram óraðaða og gætu þá í fyrsta lagi flokkarnir valið um það hvort þeir kysu að ráða uppstillingunni sjálfir og þá með hvaða aðferðum, prófkjörum eða hefðbundinni uppstillingu, en þeir ættu líka þann kost samkvæmt kosningalögum að leggja fram óraðaðan lista og síðan ættu þá kjósendurnir einnig sama val. Þetta væri nú sú breyting sem trúlega væri einna einföldust og þyrfti ekki að kalla á í raun og veru neina breytingu á því fyrirkomulagi sem ríkt hefur í þessum efnum aðra en þá að flokkunum stæði til boða þessi möguleiki að bjóða kjósendum upp á að raða listanum í kosningunum.
    Þá var einnig mikið rætt í nefndinni um kjördæmamörk og við, fulltrúar Alþb., settum fram það sjónarmið að ekki kæmi til greina að ganga of langt í þeim efnum, að fækka tölu þingmanna í núverandi kjördæmum, þar sem með því væri í raun og veru gengið á þann þátt fulltrúalýðræðisins að sem flestir skoðanahópar gætu átt sína fulltrúa kjörna á löggjafarþinginu frá viðkomandi svæði eða viðkomandi kjördæmi. Og ljóst má vera að yrði til að mynda fjöldi þingmanna í einstökum kjöreiningum eða kjördæmum færður mikið niður úr því sem hann nú er, þ.e. fimm, þá gæti sú staða komið upp að stjórnmálahreyfingar með jafnvel 12--15% kjörfylgi og jafnvel hugsanlega meira, ættu eftir sem áður ekki möguleika á að fá sinn mann kjörinn á þing af viðkomandi svæði og það teljum við vont fyrirkomulag. Þess vegna er það okkar niðurstaða að vilji menn vinna málið á þessum grundvelli sé eina leiðin að endurskoða kjördæmaskipanina miðað við þá óbreyttan fjölda þingmanna og þá til einhverrar fækkunar og stækkunar á kjördæmum þannig að eftir sem áður gæti viðunandi fjöldi fulltrúa verið kosinn á hverjum stað.
    Þessi atriði vildi ég taka fram sérstaklega, hæstv. forseti, auk þess sem ljóst er að þetta starf hlýtur að halda áfram eftir því sem vilji manna stendur til þess að vinna þessi mál betur. Ég tel að það starf, þó í skamman tíma hafi staðið, sem unnið var í kosninganefndinni, hafi verið ágæt vinna og ágæt yfirferð á málinu og fyrst og fremst ástæða til að harma það og gagnrýna hversu seint það fór af stað og hlýtur það að skrifast á ábyrgð þeirra sem verkinu áttu að stýra, hæstv. forsrh., en eins og kunnugt er þá komst kosningalaganefndin í raun og veru ekki af stað með sín verkefni fyrr en um mánaðamótin nóvember/desember.
    Nokkrar aðrar minni háttar lagfæringar er hér verið að gera, hæstv. forseti, sumar sjálfsagðar, eins og þá að láta orðalag sem endurspeglar fyrrum deildaskiptingu Alþingis hverfa.
    Þá er hér breyting í 6. gr. sem lýtur að því að kjörskrárframlagning eða endanleg kjörskrá liggur nú fyrir með miklu skemmri fyrirvara en áður var, þ.e. þrem vikum í stað sjö vikum fyrir kjördag, ef ákvæði 6. gr. verða samþykkt. Fyrir þessu eru þau rök að tæknilega er ekkert því til fyrirstöðu í tölvufærðri þjóðskrá eða kjörskrá að hafa útskrift sem kemur þetta seint fram og er þá að sjálfsögðu að því leiti betri og réttari að hún endurspeglar íbúastöðuna í hverju og einu sveitarfélagi nær hinum endanlega kjördegi en áður var. Á móti kemur að þeir sem eru að sinna kosningaundirbúningi hafa ekki endanlega kjörskrá í höndunum fyrr en þrem vikum fyrir kjördag, sem er miklu skemmri tími en áður hefur verið og ég vil láta það koma hér skýrt fram að stuðningur okkar við þessa breytingu er á þeim grundvelli að yfirlýsing liggi fyrir um að ekkert sé því til fyrirstöðu að bráðabirgðakjörskrá eða kjörskrárstofnar verði afhentir með sama hætti og áður hefur verið með lengri fyrirvara. Þetta er mjög mikilvægt atriði m.a. vegna utankjörstaðakosningar og Íslendinga sem búsettir eru erlendis sem vilja vita um stöðu sína á kjörskrá og er af þeim sökum mjög mikilvægt að við þetta fyrirheit verði staðið, að mönnum standi til boða fullnægjandi bráðabirgðaútgáfur af kjörskrárstofninum þó hinni endanlegu kjörskrá verði ekki lokað fyrir en þrem vikum fyrir kjördag.
    Að síðustu, hæstv. forseti, er svo tekið hér inn samkvæmt tilmælum undirritaðs ákvæði um það að heimilt sé að bæta öðrum kjördegi við þessar kosningar sem fram eiga að fara 8. apríl nk. Það er af þeim augljósu ástæðum að verið er að kjósa hér á útmánuðum, eða síðla vetrar, við aðstæður sem engin trygging er fyrir að geti ekki orðið mjög erfiðar. Má segja að margt teikni til þess eins og tíðarfar og færð hefur verið á þessum vetri að þar gæti orðið um býsna krappan dans að ræða, að heyja kosningabaráttu og

koma við kosningum á þessum árstíma og er auðvitað alls ekki heppilegt né æskilegt að sitja uppi með kosningar á miðjum vetri eða síðla vetrar. Líti út fyrir að erfiðleikar geti orðið á kosningum er æskilegt að eiga þann möguleika að bæta við a.m.k. einum kjördegi því það hljóta að aukast mjög líkurnar á því að allir nái að nýta sinn kosningarrétt ef það er gert, auk þess sem að sjálfsögðu má þá ekkert til spara í formi snjómoksturs og annarrar þjónustu til að gera mönnum þetta mögulegt. Þess vegna fagna ég því að þetta ákvæði er þarna fram komið. Einnig því að nú er í bígerð að ganga þannig frá málum að við komumst á eðlilegan kjördag að loknum þessum kosningum, þ.e. að við þarnæstu reglulegar kosningar til Alþingis á árinu 1999 verði hægt að kjósa á eðlilegum kjördegi í maímánuði. Það er satt best að segja óviðunandi að búa áfram við þá þróun að kosningarnar færist framar og framar á veturinn og ef svo færi nú til að mynda að næstu kosningar á eftir þessum hefðu að óbreyttu getað orðið um mánaðamótin mars og apríl þá hljóta allir að sjá í hvaða óefni er þar að stefna, að kosningarnar eru að færast inn á harðasta veturinn. Því tel ég báðar þessar breytingar nauðsynlegar. Annars vegar þessa á kosningalögum að opna heimild fyrir öðrum kjördegi í kosningunum í apríl nk. og eins hitt að ganga þannig frá málum að þarnæstu kosningar geti orðið á eðlilegum kjördegi.
    Hæstv. forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð. Þetta er að sjálfsögðu ekki sú viðamikla endurskoðun kosningalöggjafar sem ýmsir höfðu gert sér vonir um að gæti orðið, en þetta er það sem tími vannst til að leggja hér til sameiginlega af hálfu flokkanna. Og það er að sjálfsögðu að lokum eitt það allra mikilvægasta í þessum málum öllum, það er að stjórnmálaflokkarnir og samtök í landinu nái góðu samkomulagi um þær grundvallarleikreglur sem notast er við á hverjum tíma í þessum efnum. Fátt er held ég mikilvægara með hverri þjóð heldur en að sæmilegur friður ríki um lögin og þá auðvitað ekki síst grundvallarlöggjöf af því tagi sem kosningalög hverrar þjóðar hljóta að teljast.