Kosningar til Alþingis

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 11:15:40 (4792)


[11:15]
     Ólafur Þ. Þórðarson :
    Frú forseti. Ég greiddi á sínum tíma atkvæði gegn þeim lögum sem í gildi eru um skiptingu þingsæta í landinu og tel mig því ekki bera á þeim neina ábyrgð. Ég vildi aftur á móti vekja athygli á því að það er eitt atriði í þessum lögum sem minnkar rétt einstaklingsins og það er það ákvæði að það er styttur tíminn til að leggja fram kjörskrá. Hér er því slegið föstu að menn geri aldrei mistök, Hagstofan geri ekki mistök, Hagstofan týni engum manni út af þjóðskrá. Það hefur þó gerst í þessu landi. Spurningin er: Ef maður fær svo stuttan tíma til að kanna það hvort hann sé yfirleitt á kjörskrá nokkurs staðar í landinu hverjir eru hans möguleikar að ná fram rétti sínum? Þeir hafa verið minnkaðir verulega, tíminn þrengdur og afleiðingin getur orðið sú að einhver sitji uppi með það að hann verði hvergi með heimild til að kjósa.
    Ég hef aldrei talið stóra hættu á því að þeir dánu færu á kjörstað en allur er varinn góður og frá því er nú tryggilega gengið að þeir skuli strikaðir út. En auðvitað eru menn þá að gera því skóna að það sé hægt að svindla í kosningum á Íslandi og menn geti kosið fyrir aðra. Þá er líka miklu meiri hætta á því, ef menn líta svo á að þetta sé tilfellið, að þá þurfi að setja reglur um að menn mæti með skírteini á kjörstað. Ég vek athygli á þessu vegna þess að í gegnum mína reynslu þá hefur maður séð einstaklinga eiga lögheimili á óbyggðum stöðum, þ.e. lóðum sem ekkert hús stendur á og allt þar fram eftir götunum. Mér er til efs að sú stytting sem hér er þökkuð tölvutækninni sé þess vegna til bóta varðandi framlagningu kjörskrárinnar.
    Hér hefur verið vikið að öðru atriði og það er auknu lýðræði. Þeir sem kasta því fram eru vafalaust með ákveðnar skoðanir á því hvað lýðræði er. Ég tel að mesti skorturinn á lýðræði í þessu landi sé sá að þjóðin fær ekki að velja sinn forsrh. Íslenska þjóðin hefur ekki þau mannréttindi að hún megi velja sinn forsrh. Það eru hrossakaup annaðhvort á bak við lokaðar dyr eða í gönguferðum úti í eyjum eða annars staðar sem ráða slíku. Og hvaða sanngirni er í því að svipta þjóðina réttinum til að velja sér forsrh.? Er það ekki viðurkennt af öllum sem hér eru að hann sé valdamesti maður landsins á meðan hann starfar? Af hverju á íslenska þjóðin ekki að fá að ráða því hver fer með það vald? Það er vegna þess að okkur var einu sinni færð stjórnarskrá samin að danskri fyrirmynd þar sem enginn gerði ráð fyrir öðru en að konungur skyldi hafður upp á punt sem æðsti maður þess ríkis og forsrh. kæmi svo næstur honum, en þó í reynd sá sem völdin hefði.
    Mesta lýðræðisbreytingin sem hægt væri að framkvæma í þessu landi væri að láta kjósa forseta lýðveldisins og afhenda honum full völd, þau sem í dag eru hjá forsrh. Þá fengi þjóðin í reynd það vald sem hún hefur viljað fá. Ég hef heyrt hina hörðustu sjálfstæðismenn segja: Við kusum aldrei þessa ríkisstjórn. Og ég hef heyrt hörðustu alþýðuflokksmenn segja: Við kusum aldrei þessa ríkisstjórn. Hvaða lýðræði er þá í því að það kerfi sé við lýði að alþýða Íslands fái ekki að velja þann sem stjórnar landinu? Svo tala sömu menn um það að þeirra tillaga sé að gera landið að einu kjördæmi. Ég hygg að það hefði verið betra fyrir Ísland ef við hefðum sótt fyrirmyndina um stjórnarskrá til þess lands sem braust sem nýlenda fyrst allra landa undan nýlenduveldi Breta og stofnaði lýðfrjálst ríki. Og þaðan hafa menn í vaxandi mæli verið að sækja fyrirmyndirnar í því í hverju lýðræði eigi að vera fólgið, m.a. jafnræði þegnanna, sem nú verður trúlega staðfest í stjórnarskránni í fyrsta skipti á Íslandi.
    Ég vil gjarnan við þetta tækifæri rifja það upp að þegar Ísland tapaði sjálfstæði sínu þá var Ísland sambandslýðveldi. Þjóðveldið var sambandslýðveldi. Það var lýðveldi hinna fornu fjórðunga og það hefði engu gilt þó ákveðið magn Sunnlendinga hefði skrifað undir og uppfyllt þann fjölda sem þurfti til þess að við afsöluðum okkur frelsinu, þá hefði aðeins Sunnlendingafjórðungur tilheyrt Noregskonungi, ekki hinir fjórðungarnir. Þessu sjálfstæði hefur aldrei verið skilað aftur. Hér utan á þinghúsinu eru merkin og táknin um þetta forna þjóðveldi, lýðveldi hinna fornu fjórðunga. Ef menn eru reiðubúnir að samþykkja að þessu verði skilað aftur þá eru menn í reynd búnir að viðurkenna að það er hálfhlálegt að annars vegar skuli vera um sveitarfélög að ræða sem fá um 20% af skatttekjum landsmanna og hins vegar sé um að ræða ríkisvald sem hefur um 80% skattteknanna undir sínum höndum.
    Menn ræða þetta sjaldan á þessum grunni og sumir hafa nú sennilega ekki lesið söguna nóg til að vita þetta. En hvað um það. Nú leggja menn til í orðræðum að landið verði gert að einu kjördæmi. Hvers vegna skyldi það vera? Það er vegna þess að ef við tækjum okkur til og fækkuðum þingmönnum í 40 og létum svo jafnmarga menn vera á bak við hvert þingsæti í hverju kjördæmi þá eru til kjördæmi í landinu sem fengju engan þingmann. Svo einfalt er það mál. Mér finnst það því bera vissan vott um hugleysi að halda því fram að það eigi að hafa hér eitt kjördæmi. Væri þá ekki nær að menn þyrðu að segja að það yrði að sameina kjördæmamörk og fjórðungsmörk í landinu? Væri þá ekki nær að menn þyrðu að segja það? Hvenær skyldi Breiðafirði hafa verið gerð önnur eins bölvun og þegar hann var klofinn í tvennt? Sterkasta vígið sem til var á Íslandi á dögum Jóns Sigurðssonar, efnahagslega séð, hefur verið í hnignun síðan, hlutfallslega, miðað við önnur svæði. Hvenær skyldu menn hafa trúað því að svo færi að Tröllaskagi yrði meiri andleg hindrun á Norðurlandi eftir að bílvegur kom á en hann var meðan enginn bílvegur var yfir Tröllaskaga? Nú tala menn um Norðurland vestra og Norðurland eystra og það kólnar stöðugt á milli kjördæmanna. ( SJS: Það var annað á dögum Jóns Arasonar.) Það var eitt Norðurland þegar Davíð frá Fagraskógi talaði um ,,Þei, þei, nú slær klukkan á Norðurlandi tólf.`` Hann tók það ekki fram hvort það væri á Norðurlandi eystra eða á Norðurlandi vestra.
    Það liggur ljóst fyrir að þessi kjördæmaskipan hefur stórskaðað alla hina fornu fjórðunga nema Austurland. Og ef við ætlum ekki að halda áfram að byggja upp þessi nýju deilumörk í landinu þá eigum við þegar næst verður breytt að hafa þrek til þess að láta fjórðungamörkin ráða. Þetta segi ég hér vegna þess að þeir sem í dag standa upp og segja: Við viljum að landið verði eitt kjördæmi, þeir gera sér nefnilega grein fyrir því að þeir eru að leggja niður önnur kjördæmi. Þeir eru að leggja niður önnur kjördæmi.
    Ef við skoðum svo hvaða þróun hefur orðið í hinum einstöku kjördæmum í framboðsmálum þá er hún stórmerkileg. Þéttbýlustu staðirnir hafa fengið hér um bil alla þingmennina. Þannig hefur Akranes t.d. orðið sá staður sem fær þingmennina á Vesturlandi. Skyldi það vera tilviljun? Þannig er það Ísafjarðarsvæðið sem fær þingmennina að mestu leyti á Vestfjörðum. Hvað skyldi svo gerast ef landið yrði eitt kjördæmi? Hvaðan skyldu þeir þá flestir koma? Þyrði nokkur flokkur að bjóða fram mann í efsta sæti nema hann væri úr Reykjavík? Reykvíkingar eru hvorki betri menn né verri en aðrir í landinu. ( Gripið fram í: Nema kannski betri.) Nema kannski betri segir hér einn ágætur fulltrúi sjómanna í salnum. Það skal ekki dregið í efa að hann getur haft þá skoðun. Ég tel þá hvorki betri né verri. Og ég mun aldrei skorast undan að viðurkenna þá ábyrgð að það var Jón Sigurðsson, þingmaður Ísafjarðarsýslu sem stefndi fastast að því að byggja upp þennan höfuðstað Íslands og hann lagði til að hann yrði á mörkum Vestfirðingafjórðungs hins forna og Sunnlendingafjórðungs, en þó í Sunnlendingafjórðungi þeim megin við Hvalfjörð.
    Ég veit að Alþingi Íslendinga situr á tímasprengju í þessum efnum. Núverandi kerfi mun ekki halda velli, menn munu breyta. En ég trúi því ekki að svo skipist veður í lofti að menn gleymi því að til þess að til sé fullvalda þjóð þarf tvennt að vera til staðar. Það dugar ekki bara að þjóðin sé til staðar, það verður líka að vera til land. Þetta tvennt þarf að vera til staðar. Og þeir sem gleyma öðru atriðinu en muna bara eftir hinu eru að mínu viti ekki nægilega víðsýnir gæslumenn þeirra hagsmuna sem hér þurfa að vera.
    Flest borgríki sögunnar hafa því miður lagst undir lok, sé það skoðað. Flest borgríki sögunnar hafa lagst undir lok. Hjá þeim sem vilja í dag afnema fullveldi þjóðarinnar og ganga inn í ríkjasamband Evrópu, sem jafnt og þétt reynir að þróa með sér sambandslýðveldi þar sem forsetinn er ráðinn en ekki kosinn, þeir geta hugsað eins og fulltrúi Alþfl. sem talaði hér. En sjálfstæðismenn þessa lands, í hvaða flokki sem þeir eru, sem vilja sjálfstætt Ísland um ókomin ár, þeir verða að varast þær hættur sem felast í því að gleyma hvaða veikleiki hefur orðið til að fella lönd og þjóðir. Flestar þjóðir falla innan frá þegar það er skoðað. Og það skorti ekkert á ágæti þeirrar stjórnarskrár sem Weimarlýðveldið bjó við. Sumir sögðu að það væri besta stjórnarskrá í heimi. Ég trúi því nú samt að þar sem þinghefðirnar eru elstar þar eigi að leita fyrirmyndanna. Og ég trúi því að við eigum að sýna hinum fornu þingstöðum þá virðingu að við munum eftir þeim og ég vona að þegar nýtt Alþingishús verði byggt þá verði það byggt upp við Elliðavatn, í nágrenni við elsta þing þjóðarinnar, Kjalarnesþing hið forna. Það er og líka í fyrirsjáanlegri framtíð miðja höfuðborgarsvæðisins.