Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 14:41:28 (4804)


[14:41]
     Halldór Ásgrímsson (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Það er misskilningur hjá hv. þm. að ég hafi verið að leggja ákveðinn skilning í málið. Ég hef ekki komið fram með þessa tillögu. Hún hefur verið rædd í stjórnarskrárnefnd, eins og hv. þm. Ragnar Arnalds tók hér fram áðan, og það varð niðurstaðan að það væri ekki ráðrúm til þess að ganga frá því máli, m.a. vegna þess að það þyrfti að vera ljóst af hverju það væri gert og hvaða skilning ætti að leggja í málið. Ég var aðeins að benda á að það væri hættulegt að festa slíkt ákvæði í stjórnarskrá þegar uppi væri mismunandi skilningur hjá þeim sem nú eru að leggja það til að þetta komi inn, þ.e. hæstv. forsrh. og hæstv. utanrrh. Og ég ætla ekkert að fara að deila við hv. þm. um það hvernig eigi að stjórna fiskveiðum hér við land, um það erum við ósammála. Það er allt annað mál. En ég vænti þess að við getum verið sammála um að ef ákvæði kemur um málið inn í stjórnarskrá þá sé mikilvægt að allir leggi sama skilning í það af hverju það er sett inn í stjórnarskrána því að um það mega ekki vera deilur.