Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 14:43:01 (4805)


[14:43]
     Kristín Einarsdóttir :
    Hæstv. forseti. Stjórnarskrá lýðveldisins Íslands er að stofni til frá árinu 1874 og hafa ekki verið gerðar stórvægilegar breytingar á henni frá þeim tíma nema að því er varðar kosningaskipan og kjörgengi og er vert að minnast þess að árið 1915 var gerð sú breyting að konur fengu kosningarrétt.
    Stjórnarskrár hafa að geyma þau grundvallarlög sem á að vera rammi þjóðfélagsins. Það á því að ganga út frá því að ákvæði í stjórnarskrá séu þannig að ekki sé sífellt verið að breyta þeim. Þrátt fyrir þetta grundvallaratriði held ég að allir hafi verið því sammála að löngu var orðið tímabært að endurskoða stjórnarskrá lýðveldisins. Þar var ekki síst horft til mannréttindaákvæðanna sem eru vissulega ekki mörg í núgildandi stjórnarskrá. Það urðu því flestir til að fagna því að Alþingi ákvað á Þingvöllum þann 17. júní 1994 að endurskoða skyldi mannréttindakafla stjórnarskrárinnar og ljúka þeirri endurskoðun fyrir lok kjörtímabilsins.
    Við máttum e.t.v. strax þá segja okkur að tíminn væri knappur og því varla von til þess að hægt væri að vanda undirbúninginn eins og best hefði verið á kosið og hægt væri að gefa sér þann tíma sem e.t.v. hefði verið æskilegur til þess að sem flestir kæmu að málinu. En þrátt fyrir nauman tíma var í desember lagt fram frv. til breytinga á VII. kafla stjórnarskrárinnar, sem kallaður hefur verið mannréttindakaflinn, ásamt örlitlum öðrum breytingum. Sérnefndin um stjórnarskrána, sem ég var svo heppin að vera valin í, ákvað að reyna á þeim stutta tíma sem var til stefnu að kalla fram umræður í þjóðfélaginu um málið. Það tókst svo um munaði og lá við að mönnum þætti nóg um á stundum. Féllu stundum þung orð og óvægin, en ég legg áherslu á að þessi umræða var mjög mikilvæg og hún hefur verið mjög góð líka og hefur verið til góðs og ég get ekki annað en dáðst að öllu því fólki sem hefur lagt þessu máli lið og vil þakka því hve vel það brást við með umsögnum og greinargerðum sem bárust nefndinni, með blaðagreinum, með einkasamtölum og fundum. Allt hefur þetta haft áhrif á störf nefndarinnar og sést árangurinn í þeim brtt. sem nefndin leggur til, sem að mínu mati eru margar mjög þýðingarmiklar.
    Ég hefði viljað sjá miklu víðtækari breytingar, en ég vona að gagnrýnendur frv. séu mér sammála í því að með þeim breytingum á stjórnarskránni sem nú eru lagðar til sé stigið skref í rétta átt þótt langt sé frá því að gatan sé troðin til enda.
    Flestir þeirra sem hafa látið álit sitt í ljós gagnrýna hve lítill tími hefur gefist til að fara með eðlilegum hætti yfir málið. Það verður að segjast eins og er að tíminn var allt of stuttur og hefði verið best að málið fengi að gerjast lengur og þroskast, en ekki gefst meiri tími í þetta sinn af eðlilegum ástæðum. Í því sambandi hefur undanfarna daga verið vitnað til umsagna dómarafélagsins, sem segir orðrétt, með leyfi forseta:     ,, . . .  að frv. verði ekki barið í gegn fyrir þinglok heldur gefinn eðlilegur vaxtartími og vandað verði til þess bæði hvað varðar hugsun og orðalag eins og frekast er unnt.``
    Þetta sjónarmið hefur komið fram hjá fleirum og þessi gagnrýni á auðvitað fyllilega rétt á sér og ég skal fúslega viðurkenna það að lengi framan af í starfi nefndarinnar var ég langt frá því að vera sannfærð um að rétt væri að stefna að afgreiðslu fyrir þessar kosningar. Umræðan í þjóðfélaginu var þess eðlis að ég átti erfitt með að sjá hvernig hægt væri að sætta ólík sjónarmið, ekki aðeins þeirra sem sendu nefndinni athugasemdir heldur var langt frá því að nefndin væri samstiga um málið í upphafi. Nefndarstarfið var því oft erfitt en umfram allt mjög fróðlegt og skemmtilegt.
    Nú er það svo í nefndarstarfi þar sem markmiðin eru að ná samstöðu um mál, að ekki geta allir fengið að sjá málin eins og þeir hefðu helst kosið. Það á einnig við um þetta mál sem við erum nú að ræða. Ekki hefur verið hægt að taka tillit til allra þeirra ábendinga sem nefndinni bárust og verður hver og einn að meta það hvort betra hefði verið að láta málið ekki ná fram að ganga í þeim búningi sem það er eða fresta því um fjögur ár að ná fram mikilvægum breytingum á stjórnarskránni. Ég sannfærðist um það undir lok nefndarstarfsins að þessar breytingar væru það mikil framför og það mikil réttarbót að það væri rétt að leggja áherslu á að frv. næði samþykki nú.
    Kvennalistinn stendur að þessu frv. þótt við hefðum sannarlega viljað sjá fleiri breytingar. Ég vil t.d. nefna ákvæðið í 3. gr. frv. þar sem ég lagði áherslu á að inn kæmi að það bæri að skylda stjórnvöld að grípa til sérstakra aðgerða til að ná fram jafnrétti. Um það tókst ekki samkomulag í nefndinni, að setja slíkt ákvæði inn í stjórnarskrána, þó að það næðist samstaða um að setja inn ákvæði um að konur og karlar skyldu njóta jafnréttis í hvívetna. Mér þykir mjög mikilvægt að fá þetta ákvæði inn í stjórnarskrá og einmitt í tilefni af þessum orðum mínum, sem ég sagði hér um að það þyrfti að grípa til aðgerða, að ég vildi hafa slíkt ákvæði inni í stjórnarskrá, vek ég athygli á að í nál. á bls. 4 stendur orðrétt, með leyfi forseta, og mig langar að leggja sérstaklega áherslu á það:
    ,,Í öðru lagi er með breytingartillögu komið til móts við það sjónarmið að í frv. vanti sérstakt ákvæði um jafnrétti karla og kvenna þótt fjallað sé um það í raun með orðum 3. gr. Er sérstöku ákvæði bætt við til þess að leggja frekari áherslu á jafnan rétt kvenna og karla á öllum sviðum þjóðlífs.`` --- Þarna

stendur það mjög ákveðið inni og síðan stendur síðar í nál.:
    ,,Hvað varðar svonefnda ,,jákvæða mismunun`` telur nefndin að það gæti verið réttlætanlegt að gera ákveðnum hópum hærra undir höfði en öðrum með það að markmiði að rétta skertan hlut þeirra. Er nú þegar dæmi um slíkt í lögum um jafna stöðu og jafnan rétt karla og kvenna. Nefndin álítur að í jafnræðisreglunni felist þessi heimild ef beiting hennar byggist á málefnalegum forsendum.``
    Þetta þykir mér mjög mikilvægt og legg mikla áherslu á að þarna verði gripið til aðgerða til að jafna rétt kvenna og karla þangað til raunverulegu jafnrétti verði náð.
    Við höfum verið gagnrýnd nokkuð fyrir það að ekki skuli vera tekin fleiri atriði inn í 1. mgr. 3. gr., þ.e. upptalninguna á því hverjir skuli vera jafnir fyrir lögum og hefur þá einkum verið nefnt bæði fatlaðir og samkynhneigðir. En ég legg áherslu á að síðasti málsliðurinn þar sem stendur ,,og stöðu að öðru leyti`` eigi við um það fólk að sjálfsögðu. Þetta vil ég leggja sérstaka áherslu á.
    Kvennalistinn hefur á þessu kjörtímabili lagt fram tillögur um að breytingar yrðu á stjórnarskránni að því er varðaði þjóðaratkvæðagreiðslur. Auðvitað komum við fram með þær hugmyndir inn í nefndina og reyndar fleiri en það var ekki samstaða um það mál og þess vegna var ekki samstaða um það í nefndinni að taka það ákvæði inn í stjórnarskrána að þessu sinni.
    Sama gildir um bráðabirgðalög. Kvennalistinn hefur lagt fram frv. til breytingar á stjórnarskránni að því er varðar að afnema bráðabirgðalagaréttinn úr stjórnarskránni. Við höfum einnig lagt áherslu á að auðlindir til lands og sjávar verði lýstar þjóðareign og það kom sannarlega fram í nefndinni. Þess vegna kom mér nokkuð á óvart þegar það kom skyndilega fram hjá hæstv. ríkisstjórn að þeir ætluðu að leggja áherslu á þetta atriði og ætluðu sér að flytja hér breytingartillögu að því er þetta varðar.
    Ég lýsi því hér að ég er algerlega sammála þeirri brtt. Það erum við kvennalistakonur, enda höfum við lagt áherslu á að það bæri að tryggja rétt þjóðarinnar á auðlindunum og ekki bara auðlindum til sjávar heldur líka til lands. Þess vegna munum við styðja slíka tillögu. En ég verð hins vegar að gagnrýna það harðlega að það skuli vera að koma núna fram frá ríkisstjórninni slík tillaga þegar búið er að hafna því innan nefndarinnar að hægt sé að flytja brtt. við þetta frv. öðruvísi en að allir séu sammála um það atriði. Og ég ætla að lýsa því hér yfir að í tilefni þess að ríkisstjórnin er að koma með þessa tillögu þá erum við kvennalistakonur að undirbúa það að leggja hér fram sérstakt frv. til breytinga á stjórnarskránni þar sem kveðið verður á um að afnema bráðabirgðalagaréttinn, að auðlindir til lands og sjávar verði lýstar þjóðareign og að það verði tekið inn í stjórnarskrána ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu og einnig höfum við hug á því að það verði sett inn ákvæði varðandi umhverfisrétt. Þannig að ég vil bara lýsa því yfir að þegar ríkisstjórnin gengur fram með þeim hætti, að hér sé hægt að koma með brtt. sem hafa verið ræddar inni í nefndinni og þeim hefur verið hafnað þar í anda samstöðu, þá auðvitað kallar það á það að við munum undirbúa frekari tillögur.
    Ég lýsi því hér yfir að ég er ekki að rjúfa það samkomulag, ég ætla ekki að flytja neina brtt. við frv. heldur verður um að ræða sérfrv. eins og ríkisstjórnin hefur hér lýst yfir. Mér finnst þetta vera svik við það sem við höfum verið að vinna og mér þykir það mjög slæmt. En ég enn og aftur ætla að segja: Ég mun ekki greiða atkvæði gegn slíkri tillögu þó að hún komi frá ríkisstjórninni, langt í frá, en ég vil bara segja það að við erum búnar að flytja á þessu kjörtímabili ýmsar breytingartillögur við stjórnarskrána og við munum auðvitað taka þær upp aftur, sem og fleiri sem við höfum lagt áherslu á, þegar slík vinnubrögð eru höfð í frammi gagnvart þeirri vinnu sem við höfum haft í stjórnarskrárnefndinni.
    Og enn og aftur lýsi ég því yfir að það voru mörg atriði sem við vorum ekki sammála um að kæmu inn og ég ætla ekki að fara að tíunda þau neitt sérstaklega fleiri, en það er ámælisvert þegar skyndilega kemur inn tillaga frá ríkisstjórninni sem við hefðum svo gjarnan getað tekið upp í nefndinni sjálf af því að við höfðum lagt áherslu á það og ekki bara Kvennalistinn heldur fleiri. Þetta vil ég sérstaklega taka fram í ljósi þess sem hér er sagt.
    Það er ein grein sem mig langar sérstaklega til að tala um, sem ég sakna sérstaklega og á að fella nú úr stjórnarskránni, en það er 78 gr. stjórnarskrárinnar.
Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Sérréttindi, er bundin séu við aðal, nafnbætur og lögtign, má eigi taka í lög.``
    Ég sakna þessarar greinar alveg sérstaklega úr stjórnarskránni og þykir mikill missir að því að það skuli vera lagt til að hún falli brott með þessum brtt. En ég ákvað að láta ekki deilur um það stoppa það að þetta mál næði fram að ganga þar sem ég taldi að þarna væri um það miklar réttarbætur að ræða og þetta fyrsta skref væri það mikilvægt í því að endurskoða mannréttindakafla stjórnarskrárinnar að það væri rétt að taka þau af þessu tilefni.
    Við hefðum auðvitað getað valið það, kvennalistakonur, að standa ekki að málinu. Það kom alveg til greina. En eins og ég segi, við vorum búin að ákveða að það væri það mikil réttarbót falin í frv. og því skyldum við standa saman að málinu. Þannig að mér þykir vera komið aftan að okkur með þessum hætti. Ég get einnig upplýst að við fáum heilmikla gagnrýni fyrir það að standa að þessu frv. sem ekki gengur lengra en þetta en við gerum það og gerum það heils hugar og munum standa að frv. þrátt fyrir gagnrýni. En þá á ekki að koma aftan að manni.
    Frú forseti. Ég vil taka það fram og vitna þar til þess sem stendur í nál. að sú umræða sem er komin af stað sé mjög nýtileg og allt það sem við höfum fengið af umsögnum sé allt mjög nýtilegt til þess

að halda áfram endurskoðun stjórnarskrárinnar. Það má ekki líta svo á að þetta sé einhver lokapunktur og hún eigi að standa næstu 100 árin eða enn þá lengur. Þetta er aðeins upphafið og eins og ég vitnaði til í upphafi var þáltill. á Þingvöllum þess eðlis að endurskoðun mannréttindakaflans skyldi lokið fyrir lok kjörtímabilsins. Ég lít svo á að honum sé ekki lokið heldur séum við aðeins að byrja á þeirri endurskoðun og það verði að halda áfram auk þess sem fjölmörg önnur atriði í stjórnarskránni þurfa endurskoðunar við. Get ég nefnt sem dæmi að það vantar öll ákvæði um Hæstarétt. Það vantar heilmörg ákvæði í stjórnarskrána fyrir utan það að breyta þyrfti mörgum atriðum. Ég legg því áherslu á það að endurskoðuninni er ekki lokið.
    Ég á þá von að umræðan í þjóðfélaginu haldi áfram, að með samþykkt þessa frv. verði ekki þar með lokið þeirri mikilvægu umræðu sem fram hefur farið núna síðustu vikur heldur haldi hún áfram. Ber ég þá von í brjósti að fjölmiðlar haldi þeirri umræðu sérstaklega á lofti og vakandi og bendi áfram á ýmislegt sem betur mætti fara að því er varðar stjórnarskrána. Nú höfum við fjögur ár til þess að vinna í málinu þannig að það á að vera hægt að vinna áframhaldið með vandaðri hætti en gert hefur verið með þetta. Við verðum að viðurkenna það að við vorum í mikilli tímaþröng. Við þurfum að hafa lengri tíma og við þurfum að leita til sérfræðinga á sviðinu. Ég hef látið mér detta í hug að við þyrftum að setja á stofn nýja stjórnarskrárnefnd sem gæti tekið við þar sem frá er horfið og unnið ötullega í málinu þannig að lýðveldið Ísland fái heildstæða stjórnarskrá sem verði þannig að við getum verið mjög stolt af. Með því er ég ekki að segja að ég sé ekki stolt af stjórnarskránni en ég held að það sé mjög margt sem við erum núna að gera til bóta og ég vona að við berum gæfu til að samþykkja þetta frv. núna og að upphlaup frá ríkisstjórn og öðrum verði ekki til þess að skemma þetta mál og stefna því í þá hættu að það verði ekki samþykkt á þessu þingi.