Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 15:50:04 (4810)


[15:50]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það er hárrétt hjá hæstv. forsrh. að málið er seint fram komið innan ríkisstjórnarinnar og virðist ekki hafa dúkkað þar upp fyrr en hæstv. utanrrh. taldi að það gæti nýst sér í málefnatilbúnaði sínum þegar hann er að reka áróður fyrir aðild Íslands að Evrópusambandinu. Þess vegna virðist málið ekki hafa verið rætt í ríkisstjórninni fyrr en núna á allra seinustu dögum. Engu að síður kom þessi hugmynd til umræðu fyrir nokkrum vikum síðan og ég átta mig ekki á því hvers vegna Sjálfstfl. gerði þá enga tilraun til að taka afstöðu til þessa máls þar sem málið var til umræðu innan stjórnarskrárnefndarinnar og hafði þegar verið viðrað af hæstv. utanrrh., að vísu á þann óviðfelldna hátt, vil ég nú segja, að tengja það við aðild að Evrópusambandinu, en engu að síður hafði hugmyndin verið viðruð og þess vegna skil ég ekki hvers vegna málið var ekki tekið fyrir innan Sjálfstfl. og tekin afstaða til þess hvort menn ætluðu að vera með málinu eða móti. Ef það hefði gerst fyrir nokkrum vikum þá gætum við kannski núna verið að afgreiða málið í einhverju formi.