Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 16:27:42 (4812)


[16:27]
     Ragnar Arnalds (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Hv. 3. þm. Reykv., Björn Bjarnason, kvartaði yfir því að stjórnmálafélög og stéttarfélög væru sérstaklega tilgreind í tillögum stjórnarskrárnefndar og tekin inn í ákvæði um félagafrelsi. Að sjálfsögðu er það svo að félög sem nefnd eru í stjórnarskránni njóta þar með ákveðinnar verndar. Í því felst mikilvægi þess að nefna einstakar tegundir félaga að með því er stjórnarskráin að leggja verndarhendi sína yfir félög af því tagi sérstaklega. Þetta er gert á fjórum stöðum í stjórnarskránni, þ.e. varðandi trúfélögin, stjórnarfélögin, stéttarfélögin og sveitarfélögin. Þau fá öll þessa sérstöku meðferð og þennan sérstaka heiður að vera tilgreind í stjórnarskrá. Ég vil spyrja hv. þm. að því hvort honum finnist ekki að öll þessi félög séu slíkur grundvallarþáttur í þjóðskipulagi okkar að þau eigi það skilið að njóta sérstakrar verndar með því að vera þar nefnd.