Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 16:33:53 (4816)


[16:33]
     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Frú forseti. Það er eðlilegt að það verði hér allnokkrar umræður um þetta stóra mál sem við stöndum frammi fyrir og hefur verið mjög til umræðu í samfélaginu á undanförnum vikum.
    Ég átti þátt í því ásamt þingflokksformönnum annarra stjórnmálasamtaka sem eiga sæti á hinu háa Alþingi að semja upphaflega frv. og það voru allótrúleg viðbrögð sem það frv. fékk og kom mörgum okkar á óvart. Það var eins og það frv., sem auðvitað var ekkert annað en tillaga, væri einhver endanleg niðurstaða í þessari umræðu og menn voru að gera flutningsmönnum málsins upp ýmiss konar skoðanir. Því vil ég láta það koma hér fram við upphaf míns máls að það frv. var að sjálfsögðu borið undir alla þingflokka og rætt í þeim öllum og því hefur það verið alveg fráleit framsetning, sem fram hefur komið í bæði ræðum og greinum ýmissa málsmetandi manna, að þingflokksformenn hafi sest yfir það að ætla að takmarka málfrelsi í landinu og ég veit ekki hvað og hvað. En eins og fram kom við 1. umr. málsins þá náðist ákveðið samkomulag í forvinnunni og það var sagt mjög greinilega við 1. umr. að í þessu frv. væru ýmis atriði sem vísað væri til þeirrar nefndar sem Alþingi síðan kaus til að fjalla um málið. Og það var lagt í hendur fólksins í landinu og nefndarinnar að vinna úr þessum tillögum og þróa þær frekar. Það er því svo fráleitt að líta á sjálft frv. sem eitthvert endanlegt plagg og lesa út úr því ýmiss konar meiningar.
    En það tókst, sem var ætlunin, að ná upp mikilli og frjórri umræðu um þetta mál og það ber að hrósa öllum þeim samtökum og einstaklingum sem hafa lagt sitt af mörkum til umræðunnar og komið með margar nýjar tillögur og frjóa umræðu um mannréttindi inn í þessa umfjöllun þingsins um mannréttindakafla stjórnarskrárinnar. Það hefur tekist í fyrsta skipti í áratugi að koma af stað öflugri umræðu um mannréttindamál og við verðum bara að vona að hún haldi áfram. Því finnst mér að allt þetta mál hafi tekist miklu betur en ég átti von á og mér finnst nefndin sem vann málið áfram hafa unnið þar mjög gott verk. Ég skil það vel að menn hafi orðið að komast að málamiðlunum rétt eins og við gerðum við upphaf málsins, en ég fæ ekki betur séð en allar þær tillögur sem hér eru lagðar fram til breytinga á upphaflega frv. séu mjög til bóta þó að ég og við kvennalistakonur hefðum kosið að sjá ýmislegt fleira. En þetta er skref sem verið er að stíga hér, og ég vil undirstrika það sérstaklega, það er verið að stíga skref. Í fyrsta skipti frá 1874 hefur tekist að ná breiðu samkomulagi um mannréttindaákvæðin og það ber vissulega að fagna því. Mér finnst að í þeirri miklu umræðu sem hér hefur átt sér stað hafi menn horft allt of lítið á það nýja og jákvæða sem var að finna í upphaflega frv. Það er eins og oft að Íslendingar festa sig við allt hið neikvæða og hafa haft uppi mjög stór orð en það hefur kannski líka skilað árangri í nýjum breytingartillögum. Þau miklu og stundum hörðu viðbrögð sem frv. fékk hafa skilað sér í nýjum tillögum þó að ég sé ekki viss um að það séu allir ánægðir með þær.
    Ég ætla að fjalla um einstaka þætti þessara brtt. en áður en ég kem að því, svo að ég gleymi ekki að halda því til haga, þá finnst mér það mjög til fyrirmyndar hvernig nefndin stóð að málinu. Hún birti auglýsingu í dagblöðum og hvatti fólk til þess að láta frá sér heyra og þetta finnst mér vera mjög góð vinnubrögð enda skilaði það sér rækilega.

    Í umræðunni sem átt hefur sér stað eru það einkum þrír efnisþættir sem hafa fengið mesta gagnrýni. Það er 3. gr. frv. um jafnræðisregluna, það er sú grein sem snýr að tjáningarfrelsinu og loks umfjöllunin um neikvæða félagafrelsið. En það hefur líka verið bent á ýmislegt annað og það er allt til bóta.
    Við 1. umr. málsins vakti ég athygli á 2. gr. frv. þar sem fjallað var um þegnskyldu og það var nokkuð óljóst hvað menn áttu við með því hugtaki. Það var látið fara inn í frv. og það kom í ljós að það er mjög misjafn skilningur á því hvað er þegnskylda og því hefur verið breytt í almenna þegnskyldu sem þýðir það að menn geta ekki af trúarástæðum skorast undan almennri þegnskyldu, en eins og ég skil það hugtak þá eru í ýmsum lögum heimildir til þess að kalla fólk til, t.d. við kosningar, til þess að vinna í þágu ríkisins eða þingsins eða almannaheilla eða hvernig sem við eigum að orða það, og það er auðvitað engin ástæða til þess að skorast undan slíku af trúarástæðum. En stóra og kannski ein mikilvægasta breytingin sem hér kemur fram varðar 3. gr. þar sem tekist hefur að fá í gegn setninguna ,,konur og karlar skulu njóta jafns réttar í hvívetna``. Þessu er bætt inn í 3. gr. og ég vil fagna þessu sérstaklega, þó að ég hafi verið þeirrar skoðunar að í rauninni næði 3. gr. utan um þetta hugtak. Þar kem ég auðvitað að umræðu sem er í gangi, m.a. í Evrópuráðinu og hjá Sameinuðu þjóðunum, varðandi alla alþjóðasáttmála og reglur sem verið er að semja um, það er þessi spurning: Á að tiltaka sérstaka hópa eða á að ganga út frá því að hugtak eins og ,,allir`` tryggi það að allir séu jafnir og lögin nái til allra, óháð stöðu, kyni, fötlun eða einhverju slíku?
    Það var mikið rætt um þetta við undirbúning frv. og eftir því sem ég best veit þá var mikið rætt um þetta í nefndinni og það er alveg ljóst að það er þegar komin upp óánægja varðandi það að fötlun skuli ekki vera talin upp í þessari grein og það er bent á að fatlaðir eru stór hópur í okkar samfélagi sem þarfnast sérstakrar verndar. Við erum ekki lengra komin en það og það gildir auðvitað um konur líka. Hér er gengið skref til þess að styrkja stöðu kvenna. Við hefðum viljað ganga enn þá lengra úr því að þetta fór inn á annað borð og að kveða á í stjórnarskrá um skyldur ríkisins til þess að grípa til aðgerða til að jafna stöðu karla og kvenna, eins og reyndar er að finna í stjórnarskrám ýmissa landa. Það gildir auðvitað alveg það sama um fatlaða. En þarna koma menn að spurningunni: Hvað á að ganga langt í svona upptalningu? Þarna hefði mátt hugsa sér upptalninguna að viðbættu kynferði, litarhætti, uppruna o.s.frv., þá stæði líka fötlun, kynhneigð, aldur og búseta og jafnvel fleira. Eflaust gleymi ég einhverju. Umræðan gekk út á það hvað ætti að ganga langt í svona upptalningu. Ég held að ég verði að beina því til nefndarinnar, nú veit ég ekki hvort hún lítur svo á að hún hafi endanlega lokið sínu starfi, en vegna þeirrar óánægju sem upp er komin varðandi fatlaða þá finnst mér að nefndin þurfi að gera betur grein fyrir sinni afstöðu til þess hvernig hún komst að þeirri niðurstöðu að ganga ekki lengra í þessari upptalningu þannig að það sé alveg ljóst hvað liggur hér að baki.
    Það er auðvitað merkilegur áfangi að við Íslendingar skulum fá hér sérstakt ákvæði varðandi stöðu kvenna og karla inn í okkar stjórnarskrá. Ég veit að konur í Bandaríkjunum hafa barist fyrir því árum saman að fá slíkt ákvæði inn í bandarísku stjórnarskrána og hefur ekki tekist og það eru ekki mjög margar þjóðir sem hafa slíkt ákvæði. Ég hef reyndar verið efins um það hvort eitthvert hald væri í slíkri lagasetningu. Mér finnst þetta meira vera spurning um hugarfar og framkvæmd laga. En ég hef verið sannfærð um það í þessari umræðu, m.a. af lögmönnum sem til þekkja, að þegar á reynir í málefnum sem snerta konur þá sé það miklu sterkara fyrir dómstólunum að hafa ákvæði eins og þetta inni í stjórnarskránni. Þannig að ég vona bara að konur nýti sér þetta ákvæði til þess að sækja rétt sinn fyrir dómstólum sem þær hafa gert allt of lítið hér á landi.
    Varðandi aðrar greinar --- ég ætla að reyna að stytta mál mitt --- þá tel ég að allar þær breytingar sem hér eru gerðar sem snerta refsingar og málsmeðferð fyrir dómstólum og slíkt sé allt saman mjög til bóta.
    Aðeins varðandi 9. gr. þá kom fram gagnrýni á hana, það er greinin sem snertir friðhelgi einkalífsins og heimilanna og það var hugsunin með þeirri undanþágu sem þar var veitt að opna fyrir þá heimild að yfirvöld, þar með talin lögreglan, geti gripið inn í þegar um ofbeldi á heimilum er að ræða, heimilisofbeldi. Það var gagnrýnt og kom fram gagnrýni á það að þetta væri of opið, það væri verið að rjúfa friðhelgi heimilisins og því hefði verið bætt inn í tillöguna orðinu ,,brýna``. Þegar ,,brýna nauðsyn ber til`` þá er heimilt að grípa inn í. Ég held að það sé augljóst að þegar um gróft heimilisofbeldi er að ræða þá ber brýna nauðsyn til þess að grípa þar inn í og það á að vera heimilt. Það þarf einfaldlega að koma þeim skilningi til skila í okkar þjóðfélagi að ofbeldi er glæpur, líkamlegt ofbeldi er glæpur, hvort sem það á sér stað inni á heimilum eða annars staðar.
    Varðandi tjáningarfrelsið og þá miklu umræðu sem orðið hefur um það þá er bætt hér inn í setningunni ,,enda teljist þær nauðsynlegar og samrýmist lýðræðishefðum``. Mér hefur þótt þessi umræða allsérkennileg og sérstaklega um þann grófa ásetning þingflokksformanna að ætla að takmarka tjáningarfrelsið í landinu. Það er alveg með ólíkindum sem flm. frv. fengu yfir sig og það var bent á að í Mannréttindasáttmála Evrópuráðsins, en hann hefur verið lögfestur hér á landi, er lagagrein sem kveður á um hvernig megi takmarka tjáningarfrelsi og það er nauðsynlegt í lýðræðisríkjum, t.d. til þess að verja börn gegn grófum ofbeldismyndum og slíku. Ég rifja það upp hér aftur að það varð mikil umræða um það í Svíþjóð á síðasta ári að í sænsku stjórnarskránni er tjáningarfrelsisákvæðið svo sterkt að þar töldu menn ekki heimilt að banna dreifingu á barnaklámi, á myndum sem sýndu gróft barnaklám. Þær myndir voru ekki framleiddar

í Svíþjóð þannig að þar var sem sagt ekki um óeðlilegt athæfi að ræða sem framið var innan landsins heldur var verið að dreifa myndum og það kom í ljós að þeir sem stóðu að þessari dreifingu bentu á sænsku stjórnarskrána og menn töldu sér ekki heimilt að grípa þarna inn í þó að um gróft barnaklám væri að ræða. Það minnast þess kannski margir að það var sýndur hluti úr mynd í fréttatíma íslenska sjónvarpsins sem var ólýsanlega andstyggileg. Það er um slíkt sem verið er að ræða hér, t.d. að geta varið börn og það að fólk fái yfir sig ýmiss konar ofbeldi í sjónvarpi eða annars staðar án þess að koma vörnum við.
    Ég get skotið því inn í í þessu samhengi að við vorum einmitt að samþykkja það í hv. menntmn., þar sem var verið að afgreiða frv. um skoðun kvikmynda og bann við ofbeldiskvikmyndum, að þar vorum við að grípa inn í og banna ofbeldisauglýsingar eða auglýsingar sem innihalda ofbeldi í skilningi laganna. Ég tel t.d. að það komi við sjónvarpið og þær auglýsingar sem núna er verið að sýna frá kvikmyndahúsunum fyrir fréttatíma sjónvarpsins á kvöldin og innihalda margar hverjar mjög gróft og ógeðslegt ofbeldi, svo ég taki sterkt til orða. Þarna er auðvitað um viðkvæmt mál að ræða, þ.e. tjáningarfrelsið, menn eiga að hafa frelsi til að orða hugsanir sínar, en því eru takmörk sett hvað menn geta leyft sér bæði í orðum og athöfnum og um það þurfa að gilda skýrar reglur.
    Þá ætla ég aðeins að koma að neikvæða félagafrelsinu, frú forseti. Ég tel að þar hafi menn misskilið mjög þá grein, enda, eins og bent er á í áliti nefndarinnar, þá gildir ekki, það er ekki skylduaðild að stéttarfélögum hér á landi. Það er ekki skylduaðild. Þess vegna er þetta ákvæði um það að engan megi skylda til þess að gerast aðili að félagi, það kemur ekki inn á þennan rétt stéttarfélaganna og menn mega ekki gleyma því að stjórnarskráin er til þess ætluð að vernda einstaklingana gagnvart stjórnvöldum. Hér getur komið upp stjórnmálaástand af ýmsu tagi og einhverjar hugmyndir um það að skylda menn að einu eða öðru félagi og þetta er lögverndaður réttur. Það er ekki hægt skylda menn til þess að vera í einhverjum félögum sem þeir kæra sig ekkert um að vera í og það breytir engu um stöðu stéttarfélaganna. Hins vegar er komið til móts við stéttarfélögin, ákvæðið er skýrt í nál. og stéttarfélögin eru nefnd í nýjum tillögum sem einn af grundvallarþáttum samfélagsins. Ég fagna því, mér finnst þetta mjög til bóta að telja upp stjórnmálafélög og stéttarfélög sem eru mjög mikilvægir þættir í okkar samfélagi. Ég vona svo sannarlega að stéttarfélögin í landinu fallist á þessar skilgreiningar sem hér koma fram og hafa lagaskýringargildi og að þar með náist sátt um þetta mál.
    Ég held að ég nefni ekki sérstaklega önnur ákvæði. Ég vil minna á að í þessu frv. er kveðið á um sérstaka vernd barna, að börn skuli njóta sérstakrar verndar. Þetta er ákvæði sem er mjög til bóta, til fyrirmyndar. Það er kveðið á í þessum nýju tillögum um bann, að aldrei megi leiða í lög dauðarefsingar hér á landi. Þetta er ákvæði sem þegar hefur vakið athygli úti í hinum stóra heimi þar sem víða stendur mikil barátta gegn dauðarefsingum sem eru notaðar mjög gróflega. Hér mætti nefna ýmis önnur ákvæði eins og bann við afturvirkni laga og að það sé ekki hægt að rukka menn um skatta eftir á o.s.frv. Þannig að mín niðurstaða er sú að hér sé um mörg jákvæð atriði að ræða og nefndin hafi unnið þetta mál enn þá betur þó, eins og ég nefndi í upphafi, enn þá megi gera miklu betur og þessi vinna sem hér er hafin þarf að halda áfram. Hún þarf að halda áfram og við þurfum að skoða fleiri ákvæði eins og t.d. bráðabirgðalagaréttinn. Ég hefði viljað sjá t.d. bann við því að innleiða herskyldu á Íslandi. Ég fagna því sérstaklega að sú grein, 78. gr., sem kveður á um að kalla megi menn til vopna hér á landi, skuli felld út. Við erum vopnlaus þjóð og það eru auðvitað engin vopn í landinu sem hægt er að láta menn grípa til. Mér finnst það að fella þetta niður undirstrika þá friðarhugsjón sem við gjarnan viljum halda í heiðri hér.
    Að lokum, hæstv. forseti, þá vil ég taka undir það að við þurfum auðvitað að huga að framhaldi þessa máls. Umræðunni er ekki lokið. Á næsta þingi verður þetta mál aftur borið undir það þing sem þá mun verða nýkjörið og menn þurfa að átta sig á því hvort þeir eru reiðubúnir að halda verkinu áfram, sem ég vona svo sannarlega að verði. Fyrst það hefur nú tekist að hreyfa svona rækilega við málinu þá held ég að ekkert ætti að vera því til fyrirstöðu að taka á öðrum þáttum stjórnarskrárinnar.
    Ég tek undir að það er okkur til vansa að ekki skuli hafa tekist að ná samkomulagi um meiri breytingar á kosningalöggjöfinni, ganga skref í átt til þess að stækka kjördæmi og jafna kosningarréttinn í ríkari mæli en hér er gert.
    En allra síðast, hæstv. forseti, þá get ég ekki annað en lýst furðu minni yfir vinnubrögðum ríkisstjórnarinnar, eins og hér hefur komið fram fyrr í dag, þar sem hún leyfir sér að taka upp tillögur sem menn hafa komist að niðurstöðu um í þessari nefnd að láta liggja. Tillögur sem voru ræddar á undirbúningsstigi, tillögur sem voru ræddar í nefndinni og ekki náðist samkomulag um þar. Síðan kemur ríkisstjórnin og er að setja hér allt í háa loft með slíkum tillögum, varpar nánast sprengju inn í þessa umræðu sem auðvitað veldur því að þá koma aðrir og segja: Hvað um þessar tillögur og hvað um hinar tillögurnar?
    Það er svo margt sem hefur verið rætt í þessu samhengi eins og um þjóðaratkvæðagreiðslu og fleira og fleira, þannig að maður lýsir furðu sinni yfir því að ríkisstjórnin skuli leyfa sér að koma inn í þessi mál með þessum hætti þegar stjórnarskráin er til umfjöllunar hér á hinu háa Alþingi og hefur verið vikum saman. Þetta er auðvitað einhver kosningaleikur eða kosningabrellur hjá ríkisstjórnarflokkunum, eitthvert samkomulag sem þar hefur náðst til þess að friða Alþfl. Ég er efnislega sammála tillögu Alþfl., en mér finnst þessi vinnubrögð vægast sagt ámælisverð. En ég ætla svo sannarlega að vona að þau verði ekki til þess að spilla þessu máli því hér erum við að stíga mikið framfaraspor þótt, eins og ég hef margnefnt, það hefði

mátt ganga lengra. Ég vona því að við náum sátt um það á þessum örfáu dögum sem eftir eru að afgreiða þetta mál.