Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 17:06:11 (4818)


[17:06]
     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Mig langar fyrst til að þakka þeim fyrir sem starfað hafa að þessu máli fyrir hönd þingflokka, bæði að undirbúningi málsins í upphafi og eins á milli umræðna.

    Það er eins og eðlilegt er og ég held að öllum sé ljóst afar brýnt að stjórnarskrárbreytingar séu þannig undirbúnar og unnar hér á þinginu að um þær geti tekist sem allra víðtækust samstaða. Mér sýnist að nefndarmönnum hafi tekist að ná allgóðri samstöðu um þær breytingar sem þeir leggja til, allgóðri samstöðu á milli þingflokkanna. En það er líka nauðsynlegt við breytingar á stjórnarskránni að þær séu vel kynntar úti í þjóðfélaginu og að þeim sem starfa að þessu máli fyrir hönd þingmanna takist að ná góðu samkomulagi við aðila utan þings sem láta sig málið varða. Um það er auðvitað það að segja að sjónarmið eru nokkuð skipt um einstök efnisatriði og ég hygg að einhverjir séu ósáttir við að ýmis atriði vanti og sum séu öðruvísi en þeir hefðu kosið. En í heildina tekið vænti ég þess og þykist sjá það í fjölmiðlum og á því sem maður heyrir frá viðkomandi aðilum að nokkuð sæmileg sátt sé orðin í þjóðfélaginu eða á milli þeirra og þingmannanna sem hafa starfað að þessu máli. Það tel ég ekki síður mikilvægt að mönnum takist að koma þar á sæmilegri sátt, ekki síður en að á milli þingflokka sé góð sátt um málið. Því þetta er auðvitað ekki einvörðungu mál þingmanna sem ræða innbyrðis í sinn hóp hvort heldur er á þingflokksfundum eða á þingfundi, þetta er mál þingsins við þjóðina einnig.
    Ég vil þakka þeim sem að þessu hafa starfað fyrir verk þeirra í þessu máli og tel að þeim hafi tekist nokkuð vel til þó að auðvitað kunni að vera eitthvað sem út af standi og eitthvað sem menn eru ekki fyllilega sáttir við.
    Ég vil vekja athygli á fáeinum atriðum í þessu máli sem mér finnst eiga heima í umræðu um breytingar á stjórnarskránni þó að þar sé ekki endilega um að ræða atriði sem menn hafa tekið fyrir í þessari atrennu um breytingu á stjórnarskránni. Ég vil nefna nokkur atriði sem mér finnst að menn ættu að íhuga og taka fyrir síðar þegar menn koma sér saman um það að halda áfram endurskoðun á stjórnarskránni. Því það er eins og fram hefur komið hér í umræðunni, held ég öllum ljóst, að þetta skref nú er einungis áfangi í endurskoðun. Við erum ekki að taka stjórnarskrána í heild sinni til endurskoðunar. Það var ákveðið að taka afmarkaðan þátt hennar út úr og ljúka honum og talið að það mundi greiða fyrir því að samkomulag næðist um þau atriði ef menn féllust á að leggja önnur atriði til hliðar á meðan. Því það er ljóst að um mörg atriði er verulegur ágreiningur og ef menn drægju þau ágreiningsefni inn í endurskoðunina sem nú fer fram er hætt við að seint næðist samkomulag um alla þætti málsins.
    En ég vil fyrst nefna auðlindir þjóðarinnar. Ég er sammála því viðhorfi sem fram kom hjá talsmanni þingflokks Alþb. í því efni og hefði kosið að hugmyndir hans um það atriði hefðu verið teknar inn í endurskoðun nú. Það mál fellur í raun og veru að endurskoðun stjórnarskrárinnar og hefði verið vel við hæfi að afgreiða það við þessa endurskoðun. Hins vegar úr því að ekki náðist samkomulag um að taka það atriði inn í endurskoðunina nú þá ætla ég ekki að gera ágreining um þá niðurstöðu heldur standa að baki þeim tillögum sem menn hafa náð saman um að flytja. En í mínum huga er það mjög mikilvægt og þýðingarmikið að frá þessu atriði sé tryggilega gengið í stjórnarskrá þannig að við getum treyst því um ókomna framtíð að okkar helstu auðlindir til lands og sjávar verði skilgreindar sem eign þjóðarinnar eða almenningseign.
    Mér finnst líka að þegar að því kemur að menn taka það mál upp, og miðað við yfirlýsingar frá hæstv. ríkisstjórn í dag má ætla að það geti orðið fyrr en seinna, þá verði í þeirri endurskoðun líka tekið á afnotarétti á þeim auðlindum. Það er að mínu mati ekki síður mikilvægt að menn skilgreini afnotarétt á auðlindum en eignarhaldið sjálft. Við þekkjum það eins og afnotarétturinn er í dag á fiskstofnunum að það er nokkuð langur vegur milli framkvæmdarinnar, eins og hún er í dag, og þess sem við almennt skiljum sem eign þjóðarinnar eða að hún fari með það mál. Eins og þetta er að þróast í dag þá er forræðið eða afnotarétturinn yfir fiskstofnunum að færast í hendur æ færri aðila og æ fleiri aðilar hafa ekkert um það að segja hvernig viðkomandi auðlind er nytjuð, hvar eða hvenær. Það eru of margir sem eiga beinna hagsmuna að gæta af nýtingu fiskstofnanna sem hafa ekkert um það að segja hvernig með þá er farið eða hvar þeir eru nytjaðir. Það er auðvitað almannahagur, það eru allir sem hafa hagsmuni af því hvernig með þetta er farið og mjög víða á landinu eru það hagsmunir flestra ef ekki allra, hinir beinu hagsmunir í mörgum byggðarlögum, að frá afnotaréttinum sé ekki þannig gengið að þeir geti á engan hátt haft áhrif. Eins og mál eru í dag er fyrirkomulagið fullkomlega óaðgengilegt og óviðunandi og er nauðsynlegt að breyta því fyrr en seinna til þess að tryggja að þeir sem hafa hagsmuni af þessu og atvinnu sína hafi eitthvað um það að segja hvar fiskstofnarnir eru nytjaðir, hverjir veiða og hverjir vinna. Ég er að því leyti ósammála hæstv. sjútvrh. sem vill skilja þarna á milli og taka nytjaréttinn einvörðungu inn í löggjöf.
    Ég vil einnig nefna annað atriði sem mér finnst skipta miklu máli að menn velti fyrir sér og líka að menn breyti viðhorfi sínu í því efni frá því sem nú er og verið hefur síðustu 90 ár og það er skilningur ráðamanna eða manna á orðinu ríkisvald. Mér finnst það vera þannig notað að menn setja samasemmerki á milli orðsins ríki og orðsins þjóð. Í mínum huga er langur vegur þarna á milli og á engan hátt einboðið að það sem er þjóðareign eigi að vera í höndum ríkisins eins og það er skilgreint í dag, sem hið miðstýrða vald í höndum framkvæmdarvaldsins í Reykjavík. Ég geri mikinn greinarmun á því og reyndar gerir stjórnarskráin greinarmun á þessu í einni grein stjórnarskrárinnar, 62. gr. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Hin evangeliska-lúterska kirkja skal vera þjóðkirkja á Íslandi og skal ríkisvaldið að því leyti styðja hana og vernda.``
    Þannig að það er ljóst að höfundar stjórnarskrárinnar gera skýran greinarmun á þjóð og ríki, en ég er þeirrar skoðunar að lagaþróunin hafi verið þannig á undanförnum áratugum að æ ógleggri skil hafi orðið á milli þjóðareignar og ríkisvalds. Því nefni ég þetta að mér finnst ástæða til að halda því til haga að hér er um ólík hugtök að ræða.
    Í því sambandi vil ég drepa á það að mér finnst það á skorta að ríkisvaldið nái til þegnanna í ríkari mæli með sama hætti og það gerir hér í höfuðstöðvunum. Ég er því talsmaður þess að menn breyti þessu ríkisvaldi og dreifi því með einhverjum skilgreindum hætti eða jafndreifi því um landið eða jafnvel skipti því upp og er þar að tala um þriðja stjórnsýslustigið. Ég er að því leyti verulega sammála hv. 2. þm. Vestf. sem talaði fyrr í dag í öðru máli og hélt þar fram sjónarmiðum hinna fornu landsfjórðunga, að ég tel að menn þurfi að ígrunda þá hugmyndafræði sem að baki því liggur í ríkari mæli. Því menn verða, ef ekki á illa að fara fyrir landsbyggðinni, að breyta skipan ríkisvaldsins og hugmyndirnar um hina fornu fjórðunga eru auðvitað byggðar á því að ríkisvaldið er brotið upp í einingar en ekki haft eitt miðstýrt. Að því leytinu fara þær hugmyndir saman við hugmyndir um þriðja stjórnsýslustigið. Ég tel að menn ættu að íhuga það þegar að því kemur, ef ekki núna, hvort ekki væri rétt að setja ákvæði inn í stjórnarskrána sem skilgreindi ríkisvaldið með öðrum hætti og skaplegri en nú er, a.m.k. í augum okkar sem búum á landsbyggðinni.
    Ég bendi á þá staðreynd að hin mikla þróun sem orðið hefur í búsetubreytingum á þessari öld hefur átt sér stað fyrst og fremst síðan menn aflögðu með öllu aðra skipan ríkisvaldsins en nú er, þegar tekin var upp heimastjórn árið 1904 og byggt á einu miðstýrðu ríkisvaldi.
    Þá tel ég einnig að breytingar sem menn þurfi að gera á stjórnarskrá eða taka til alvarlegrar athugunar þurfi að geyma nokkur eftirtalinna atriða:
    Ég tel að í fyrsta lagi þurfi að vera í stjórnarskránni ákvæði sem tryggi íbúunum rétt til að geta hlutast til um mikilsverð málefni og sagt sitt álit á þeim. Þar er ég að tala um ákvæði um þjóðaratkvæðagreiðslu eins og hér hefur verið lagt fram á Alþingi á yfirstandandi kjörtímabili.
    Ég er einnig talsmaður þess að afnumin verði úr stjórnarskrá heimild til þess að setja bráðabirgðalög, sem ég tel vera arfur liðins tíma og menn eigi að afmá úr stjórnarskrá sem allra fyrst.
    Þá hef ég miklar efasemdir um að rétt sé að ráðherrar, handhafar framkvæmdarvaldsins, eigi sæti á löggjafarþinginu. Ef við ætlum okkur að halda í heiðri þrískiptingu valdsins eins og hún er skilgreind í stjórnarskránni þá verður að styrkja löggjafarvaldið á kostnað framkvæmdarvaldsins, en að mínu mati er staða þessara mála þannig og hefur verið um nokkurt skeið að framkvæmdarvaldið undir forustu ráðherranna ræður allt of miklu um störf löggjafarþingsins og stundum má jafnvel segja að það ráði því nánast að öllu leyti. Það er óviðunandi fyrirkomulag ef mönnum er einhver alvara með því að það eigi að þrískipta valdinu. Vilji menn hins vegar hafa það með þeim hætti sem nú er þá ættu menn að íhuga hvort ekki væri rétt að breyta þessu og tala um tvískiptingu valdsins.
    Þá hefur hér verið nokkuð minnst á eitt atriði sem eðlilegt er að komi til umræðu við endurskoðun stjórnarskrárinnar og í umræðum um hana og það er kosningalöggjöfin. Ég er enginn talsmaður þess að hafa óbreytta kosningalöggjöf, en ég er hins vegar talsmaður þess að menn breyti hlutunum þannig að það löggjafarþing sem á að starfa hafi þá afmarkaðri verkefni en nú er ef menn ætla að hafa löggjöfina þannig að hin huglægu réttindi um vægi atkvæða eigi að ráða för. Út af fyrir sig má færa rök fyrir því sjónarmiði, en það er óaðgengilegt að mínu viti að láta það ráða kosningalöggjöfinni við óbreytta verkefnaskiptingu í stjórnarskránni og ef menn ætla að láta Alþingi hafa öll þau verkefni áfram sem það hefur í dag í stað þess að færa þá hluta af þeim og afmarka það út til héraða eða fjórðunga.
    Mér finnst hins vegar niðurstaðan í því máli, breytingar á kosningalöggjöfinni, vera dálítið hláleg og nánast hlægileg í ljósi þeirra miklu yfirlýsinga sem fulltrúar stjórnarflokkanna höfðu uppi um það mál í upphafi kjörtímabilsins. Mér finnst að það hefði verið skynsamlegra af þeirra hálfu að blása ekki svo mjög í lúðra eins og þeir þá gerðu og tala um óréttlæti og koma síðan fram með ekki meiri breytingar en gert er í því frv. sem hér liggur frammi um breytingar á kosningalöggjöf. Ég hygg að það hefði verið skynsamlegra að hafa ekki svo hátt sem raun bar vitni en þess í stað að reyna að ná meiru fram og vinna í alvöru að þessu verki, en mér finnst framgangur þess hér í þingsölum og aðallega þó utan þings hafa verið með þeim hætti að það var engin alvara á ferðinni heldur fyrst og fremst verið að slá ryki í augu kjósenda.
    Þá vík ég aðeins að fáeinum atriðum í þessu frv. sem ég vil nefna sérstaklega. Ég vil almennt segja þó um þær breytingar sem hér eru að ég tel þær vel heppnaðar flestar hverjar og hef engar athugasemdir fram að færa við þær. Þó vil ég nefna örfá atriði sem mér finnst vera a.m.k. umhugsunarefni, ef ekki stundum sem mér finnst þau ekki vera fullnægjandi. Þar vil ég fyrst nefna breytingarnar í 3. og 14. gr. frv., í 3. gr. um það að allir skuli vera jafnir fyrir lögum og í 14. gr. um rétt til að hljóta almenna menntun og fræðslu.
    Mér finnst 3. gr. eins og hún hljóðar eftir breytingu frá nefndinni vera út af fyrir sig nokkuð góð, en mér finnst á hana vanta að nokkru leyti af því að það er ekki tekið fram í upptalningu það sem ég hefði kosið að stæði þar og það er að hópur fatlaðra væri þarna nefndur sérstaklega, sem mér finnst töluvert mikið atriði að hefði verið gert. Mér þykir það miður, af því að ég veit að það var lögð áhersla á það af hálfu Alþb. að það kæmi inn í textann, mér þykir miður að það hafi ekki náðst inn að þessu sinni.
    Þá finnst mér vanta í þessa upptalningu eða í textann að það væri tekið skýrt fram að menn eigi að vera jafnir líka án tillits til búsetu. En mér finnst framkvæmd mála í þjóðfélaginu vera á mörgum sviðum þannig að það er um að ræða verulegt misrétti eftir búsetu og textinn í þessum breytingum virðist vera þannig að menn ætli að láta það líðast áfram svona í meginatriðum. Ég nefni sem dæmi það sem kemur fram í skýringum með 14. gr., en þar er verið að útskýra þann texta sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Allir skulu eiga rétt á að hljóta almenna menntun og fræðslu við sitt hæfi eftir því sem nánar er ákveðið í lögum.``
    Reyndar er gerð tillaga um að breyta þessu í brtt. nefndarinnar og yrði þá málsgreinin þannig, með leyfi forseta:
    ,,Öllum skal tryggður í lögum réttur til almennrar menntunar og fræðslu við sitt hæfi.``
    Í skýringum með greininni, eins og ég gat um áðan, segir, með leyfi forseta:
    ,,Í 2. mgr. 14. gr. er mælt fyrir um að allir skuli eiga rétt til að hljóta almenna menntun og fræðslu við sitt hæfi, en gengið er út frá að þessum rétti verði skipað nánar með lögum. Ákvæðinu er ætlað að tryggja aðgang allra að almennri menntun. Með því orðalagi er rétturinn í þessum efnum bundinn við aðra menntun en sérnám, en með því er m.a. átt við nám á háskólastigi og annað sérhæft framhaldsnám, svo dæmi séu tekin af sviðum sem mundu falla utan marka reglunnar.``
    Ég spyr í fyrsta lagi um annað sérnám en þarna er tilgreint, t.d. á grunnskólastigi. Þar starfa margir sérskólar og ber að skilja þá þennan texta þannig að það teljist ekki brjóta gegn ákvæðum greinarinnar um rétt til almennrar menntunar þó að ekki sé það úrræði í boði þar sem mönnum er það handhægt að sækja það? Eða telja menn það ásættanlegt að hafa það áfram þannig að við þær aðstæður, að börn þurfi að sækja sérstaklega menntun eða þjálfun í sérskóla sem starfræktur er einvörðungu hér á höfuðborgarsvæðinu, þá eigi foreldrar þann kost einan og á sinn kostnað að flytjast búferlum, afla sér annarrar vinnu til þess að börnin njóti þess sem þar er í boði en annars staðar ekki? Er það skilningur manna að það brjóti ekki gegn ákvæðum greinarinnar sú framkvæmd sem er hvað þetta varðar?
    Þá finnst mér að það hefði átt, til þess að árétta þann vilja sem ég vænti að allir hafi í reynd, að setja í greinina, að allir ættu jafnan rétt á að hljóta almenna menntun og fræðslu. Því það er út af fyrir sig hægt að halda því fram að það sé hægt að fullnægja þeim rétti sem menn eiga til almennrar menntunar með því að segja: Það er í boði að sækja þennan skóla í Reykjavík og þú getur þá flutt þangað. Ef kæmi þarna inn ,,jafnan rétt`` þá getur viðkomandi eða forráðamenn hans gert kröfu til að þjónustan verði þá færð nær þeim en raun ber vitni. Ég ætla ekki að gera þetta atriði frekar að umtalsefni en mér finnst þetta vera nokkuð mikið umhugsunarefni hvort ekki væri rétt að búa betur um hnútana hvað þetta varðar þannig að betur sé tryggt en ætla má samkvæmt orðanna hljóðan að jafnrétti ríki frekar án tillits til búsetu.
    Þá vil ég, virðulegi forseti, aðeins víkja að ákvæðum um skattamál, ákvæðum í 15. og 16. gr. frv. Ég vil fyrst spyrja flm. um hvort skilja beri ákvæði þessara tveggja greina þannig, að ef um er að ræða önnur stjórnvöld en ríki og sveitarfélög þá falli ákvæði 15. gr. undir þau. Þar á ég við samtök sveitarfélaga eða samlag þeirra, sem heimilt er að setja á laggirnar í lögum þar sem um gæti verið að ræða rekstur eða stjórnsýslu með tilteknum tekjustofnum, ef menn tækju skrefið lengra í þessa veruna eða jafnvel kæmu á fót þriðja stjórnsýslustiginu, hvort beri þá ekki að skilja frv. þannig að þá mundi það falla undir 15. gr. laganna eða hvort beri að skilja það þannig að það mundi þá falla undir 16. gr., sem fjallar um sveitarfélög. Ég held að það væri rétt að hafa álit manna á þessu því stjórnarskrá má auðvitað ekki, að mínu viti, vera þannig úr garði gerð að hún geri einungis ráð fyrir því fyrirkomulagi sem er í stjórnsýslunni, sérstaklega þegar vitað er að allnokkur stuðningur er við það að breyta því eða taka upp nýtt fyrirkomulag. Þá þarf stjórnarskráin að vera það rúm að unnt sé að koma því skipulagi fyrir innan ramma stjórnarskrárinnar.
    Ég velti aðeins fyrir mér ákvæðinu í 15. gr., um skattamál, sem er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Skattamálum skal skipað með lögum. Ekki má fela stjórnvöldum ákvörðun um hvort leggja skuli á skatt, breyta honum eða afnema hann.``
    Þetta finnst mér afar gott orðalag og skýrt, en mér virðist á 16. gr., sem kemur á eftir, að það eigi að skilja 15. gr. þannig að hún eigi þá einungis við um ríkisvaldið, þannig að önnur ákvæði eða ákvæði 16. gr. gildi um sveitarfélög en ekki ákvæði 15. gr. Það skiptir verulegu máli að ljóst sé hver skilin eru þarna á milli því með ólíkum hætti er gert ráð fyrir að skattamálum verði skipað.
    Þá spyr ég um skilning á orðinu skattur í þessum greinum. Það er útskýrt í skýringum með 15. gr. í frv. eða á bls. 42 og segir þar, með leyfi forseta:
    ,, . . .  hugtakið skattur er ekki aðeins notað í þessu sambandi um gjöld sem eru bókstaflega nefnd skattar í lögum eins og á t.d. við um tekjuskatt, eignarskatt og virðisaukaskatt, heldur nær það einnig til gjalda sem hafa sömu einkenni, svo sem útsvar, sóknargjald og tollar.``
    Spyr ég nú um nánari útskýringu á þessu því fleiri gjöld eru til sem hafa einkenni skatta og eru lögð á með almennum reglum eins og mörg sveitarfélagagjöld eins og vatnsgjald, gatnagerðargjald, holræsagjald og fleira þess háttar. Ber að líta svo á að það falli undir þá skilgreiningu?
    Virðulegur forseti. Ég vil ekki fjölyrða meira um efni frv. og brtt. sem fram hafa komið. Það væri auðvitað að sumu leyti freistandi að fara nánar ofan í skattamálin í 15. og 16. gr. frv. og rökræða það fram og aftur, en ég læt það vera að sinni. Ég tel ekki nauðsynlegt að hefja upp frekari umræður um það en

fram er komið með spurningum mínum. En ég vil lýsa ánægju minni með ýmsar breytingar eins og t.d. þeirri að talin verði upp í 12. gr. frv. eða með öðrum orðum 74. gr. stjórnarskrárinnar stjórnmálafélög og stéttarfélög. Ég tel það afar þýðingarmikið að þessi félög verði sérstaklega tilgreind í stjórnarskránni og vísa til röksemda hv. þm. Ragnars Arnalds í því sambandi.
    Að öðru leyti, virðulegi forseti, ætla ég ekki að hafa frekari orð um það sem í þessu frv. er og brtt. sem fram hafa komið annað en að árétta almennt þá afstöðu mína að ég er afar sáttur við það í heild sinni þó að einstök atriði séu ekki eins og ég hefði kosið til fullnustu.