Stjórnarskipunarlög

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:13:32 (4824)


[18:13]
     Ólafur Þ. Þórðarson (andsvar) :
    Herra forseti. Einmitt vegna þess að dómarar hafa rétt til að dæma samkvæmt eðli máls þarf ekki að setja allt í lög og það er að mínu viti ekkert vafaatriði að við erum að setja hér lög og eins og síðasti hv. ræðumaður orðaði það getum við ekki stjórnað öllu mannlegu með lögum. Þess vegna er það mjög hættulegt að láta sem svo að við stjórnum öllu mannlegu með lögum og höfum þar með sigrast á öllum vandamálum.
    Ég geri mér grein fyrir því að hv. þm. Ragnar Arnalds hefur hugsað þetta fram og til baka. Ég hef líka heyrt lagaprófessor lýsa því yfir að þegar ágreiningur er um hvað stendur í lagagrein og hvað stendur í greinargerð, textinn er ekki sá sami, þá er það bókstafur lagagreinarinnar sem blífur. Svo einfalt er það mál. Þess vegna er greinargerðin aldrei borin undir atkvæði og þar með hefur hún ekki lagagildi.