Stjórn fiskveiða

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 18:24:06 (4828)


[18:24]
     Guðni Ágústsson (um fundarstjórn) :

    Hæstv. forseti. Ég hef verið dálítið undrandi á vinnubrögðum og kannski stjórn þingsins núna á síðustu dögum. Alþingi á eftir að starfa í örfáar klukkustundir, má segja, og slitið á laugardag að sagt er en hér fer fram í stórum stíl 1. umr. um mjög stór mál. Nú veit ég það að nefndir hafa í mörgum tilfellum lokið störfum og mér finnst að menn séu að fara rangt að í þinghaldinu með því að flytja öll þessi mál. Ég heyri það í gegnum marga hæstv. ráðherra að þeir ætlast til þess að Alþingi afgreiði stór og flókin mál fyrir þá bara upp á kunningsskap.
    Ég minnist þess að þegar þinginu var breytt í eina deild þá gerðu menn kröfur um sjálfstæði Alþingis og faglegri vinnubrögð en ég hef sárar áhyggjur af þeim starfsháttum sem ég hef orðið vitni að hér í dag og í gær. Ég hefði talið eðlilegra, hæstv. forseti, við þessar aðstæður að þingið legði áherslu á örfá mál sem eru forgangsmál og eru komin langt í vinnslu frekar en að halda umræðum áfram með þessum hætti og málflutningi á mjög flóknum málum sem þurfa faglega umfjöllun í nefndum.