Einkanúmer á ökutæki

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 19:04:21 (4836)


[19:04]
     Guðni Ágústsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hér er skrýtið mál á ferðinni. Átta hv. þingmenn Sjálfstfl. sjá ástæðu til þess að leggja sérstaka áherslu á leið til þess að auka á stéttaskiptingu. Yfirstéttin geti farið að merkja sig í þjóðfélaginu, aka um með flott númer, meistari Johnsen eða eitthvað slíkt og geti aðgreint sig frá hinum fátæka fjölda. Ætli það sé ekki þörf á því fyrir Íslendinga að gera sér grein fyrir því í hve litlu samfélagi þeir lifa og vera ekki með svona tildurmál. Það eru mörg brýnni mál sem hér liggja fyrir á Alþingi og þörf er á að leiðrétta í þjóðfélaginu.
    Það væri nær fyrir Sjálfstfl. að hugsa um alla þá erfiðleika sem fjölskyldunum hafa verið skapaðir með slæmri stefnu. Hins vegar það sem kannski vekur mesta athygli er að hér sjá átta hv. þm. sérstaka ástæðu til þess að skora á hæstv. dómsmrh. Nú vil ég spyrja hv. þm. að því: Hvernig hafa þessar umræður verið í þingflokksherberginu? Hvað hefur málið oft verið tekið upp við dómsmrh., að hann setji þessa reglugerð? ( Gripið fram í: Er hann í sama flokki?) Hann mun vera það eða er talinn vera það. En ég skal að vísu viðurkenna að ég virði dómsmrh. eða tel það honum til tekna að hafa ekki orðið við þessari beiðni þingmanna Sjálfstfl. sem fyrst og fremst eru auðvitað að reyna að ala hér á stéttaskiptingu og að þeir ríku geti sýnt að þeir aka á sínum bíl með sín einkanúmer sem þeir hafa keypt og eru merktir á götunum. Ég er andstæðingur þessa máls, hæstv. forseti.