Framleiðsla og sala á búvörum

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 20:59:42 (4846)


[20:59]
     Jóhann Ársælsson (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er sammála hv. síðasta ræðumanni um að það hefur kannski enginn meiri skyldur en formaður landbn. að koma með tillögur og reyna að koma að breytingum og lagfæringum fyrir bændastéttina í landinu og meta aðstæður eins og hann sagði. Mér þykir bara hv. þm. landbn., stjórnarliðar, nokkuð lengi að meta þessar aðstæður og það sé nokkuð seint fram komin þessi tillaga sem hér er til umræðu. Ég tel að það hefði verið full ástæða til þess að taka á málum fyrr og ég tel að þessi tillaga sé út af fyrir sig kannski svolítið sýndarmennskuleg vegna þess hversu seint hún kemur fram. Mér finnst hún líka benda til þess að hv. formaður nefndarinnar hafi ekki komist lönd né strönd í viðskiptum sínum við ráðherra ríkisstjórnarinnar, sína eigin flokksmenn, hæstv. fjmrh. og hæstv. landbrh., og það sé þess vegna sem hann leitar hér inn í þingsali til þess að geta sýnt þó eitthvað þegar hann kemur heim í hérað í kosningabaráttuna, að hann hafi þó haft viðleitni, hann hafi lagt fram tillögu á hv. Alþingi og reynt að koma málefnum bænda í betra horf. En það er býsna seint á ferðinni, hv. formaður landbn.