Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:05:44 (4852)


[22:05]
     Jóhanna Sigurðardóttir (andsvar) :
    Virðulegur forseti. Ég veit ekki hvað hefur komið hæstv. umhvrh. svona úr jafnvægi. Ég var að fjalla um aðgerðir sem þessi ríkisstjórn er að leggja hér fram sem ég á engan þátt í. Fyrir jólin fjallaði ég líka um aðgerðir sem ríkisstjórnin lagði fram og ég á engan þátt í. Ég hef fullkominn rétt hér til að fjalla um þær aðgerðir og hafa skoðanir á þeim. Það er mjög gott að hæstv. umhvrh. er allt í einu farinn að hafa áhuga á jafnréttismálum kynjanna. Ég skal nefna það af því að umhvrh. hefur greinilega ekki fylgst með því sem hefur farið í gegnum þingið um jafnréttismál að framkvæmdaáætlun til fjögurra ára um jafnréttismál var lögð fram. Hún sneri t.d. að hæstv. fjmrh. Það var tvennt í því sem var mjög mikilvægt sem snýr að launajafnrétti. Í fyrsta lagi átti að framkvæma starfsmat sem átti m.a. að taka verulegt tillit til starfa sem snúa að umönnunar- og uppeldisstörfum til að jafna launamun kynjanna. Þetta snýr að fjmrh. og ég lagði þessa framkvæmdaáætlun fram.
    Í annan stað var einnig að finna í þeirri áætlun að yfirborganir sem koma einmitt fram hjá hinu opinbera yrðu jafnaðar einnig þannig að þær rynnu einnig til kvenna. Þessi könnun, sem var lögð fram nýlega, og vakti einmitt athygli á þessu hvað þetta væri miklu meira í opinbera geiranum var lögð fram fyrir tilstilli mína þegar ég var félmrh. Þannig að ég vísa þessu á bug og skil ekki af hverju ráðherrann er í svona miklu ójafnvægi. Hann er kannski hræddur um að komast ekki hér inn á þing aftur þannig að það

er kannski síðasti séns að vekja athygli á nýfengnum áhuga ráðherrans á jafnréttismálunum. Ég hygg að það sé skýringin. Hann sé að reyna að leita núna að atkvæðum kvenna með því að vekja athygli á skyndilegum áhuga sínum á jafnréttismálum.