Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:30:42 (4856)

[22:30]
     Steingrímur J. Sigfússon :

    Hæstv. forseti. Það er óhjákvæmilegt að fara nokkrum orðum um þetta frv. sem hæstv. fjmrh. hefur mælt fyrir og einnig þá yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar sem málinu tengist og nýgerðum kjarasamningum við aðildarsambönd Alþýðusambandsins og hæstv. fjmrh. gerði hér sérstaklega að umtalsefni. Þetta er fyrsta frv. af nokkuð mörgum sem hæstv. ríkisstjórn þarf væntanlega að flytja hér ef hún ætlar að standa við fyrirheit sín samkvæmt þessari yfirlýsingu og því er það að vonum og eðlilegt að hæstv. fjmrh. hafi gert fyrirheit ríkisstjórnarinnar og hlut hennar í þessum samningum talsvert að umtalsefni.
    Það er sögð sú saga að sænskur fjármálaráðherra hafi orðið svo upptekinn af hlutskipti sínu að hann hafi á síðari hluta fjármálaráðherraferils síns og æ síðan jafnan borið upp sömu spurninguna þegar mál voru fyrir hann lögð og hún var þessi, upp á sænska tungu: Hvem betalar? Það var alveg sama hvað var borið upp við þennan hæstv. ráðherra og síðan þingmann það sem eftir lifði hans stjórnmálaferils, að hann svaraði öllum málum með sömu spurningunni: Hver á að borga?
    Það er greinilegt að núv. hæstv. fjmrh. íslenska lýðveldisins er ekki jafnþungt haldinn af þessu og þessi sænski kollegi því það fer lítið fyrir því hér að spurt sé um það hver eigi að borga þegar þessi víxill var útgefinn. Staðreyndin er auðvitað sú að það vekur ýmsar spurningar þegar hæstv. ríkisstjórn á síðustu dögum, mér liggur við að segja, valdaferils síns stendur að málum með þeim hætti sem hér er gert, að það er gefinn út heljarstór víxill, fjögurra milljarða víxill, fyrir næstu tvö ár og því algjörlega velt yfir á framtíðina að svara nokkru til um það hvernig þessum útgjöldum eigi að mæta og hvaða áhrif þau muni hafa. Reyndar var hæstv. fjmrh. það heiðarlegur í fjölmiðlaviðtali sem ég heyrði við hann tekið rétt eftir að samningarnir voru gerðir, að hæstv. ráðherra einfaldlega sagði: Það er verkefni næstu ríkisstjórnar --- það er verkefni næstu ríkisstjórnar að sjá fyrir því. Kannski sagði hæstv. ráðherrann, að stærstum hluta, ég man það nú ekki, en efnislega voru það u.þ.b. þessi orð sem hæstv. ráðherra viðhafði.
    Og þá er komið að þeim kjarna þessa máls að það er alveg ljóst að fyrir þessum útgjöldum verður að sjá og þá kemur að spurningunni hvernig og hverjir eiga að borga. Þá verð ég að segja alveg eins og er að ég hef miklar efasemdir um að það sé mikið framfaraspor sem hér er stigið, þ.e. sá hlutur málsins sem snýr að hæstv. ríkisstjórn, ef útgjöldunum yrði svo mætt með sömu skattapólitík og þessi ríkisstjórn hefur ástundað og þessir 4 milljarðar yrðu þá í raun og veru sóttir ofan í vasa almenns launafólks og ekki síður lágtekjufólks heldur en annarra. Og þá er það auðvitað alveg ljóst að þessar aðgerðir fela ekki í sér kjarajöfnun, nema síður sé, heldur þvert á móti eru hlutfallslega þannig úr garði gerðar að þær kæmu ekki síður til góða hátekjufólkinu í landinu. En það er eins og kunnugt er þannig að í tíð þessarar ríkisstjórnar hefur skattbyrði almennra launatekna þyngst til muna og færst neðar í launaskalanum því skattfrelsismörk hafa lækkað um 7.000--10.000 kr. á kjörtímabili þessarar ríkisstjórnar. Og þó að nú sé þar um smávægilega leiðréttingu að ræða eða lagfæringu að ræða á þessu ári og skattfrelsismörkin geri aðeins betur en að fylgja verðlagi þá munar það ekki miklu og að mestu leyti er óbætt sú skattþynging sem orðið hefur í tíð þessarar ríkisstjórnar á fólki við skattfrelsismörkin.
    Stærst í þessum pakka er að sjálfsögðu sú ákvörðun hæstv. ríkisstjórnar og samkvæmt óskum aðila vinnumarkaðarins, að iðgjöld í lífeyrissjóði verði frádráttarbær frá tekjum við álagningu skatta og komi þetta til framkvæmda í áföngum. Það er mjög merkilegt að hér um áramótin voru til afgreiðslu ákvarðanir í skattamálum sem áttu að fela í sér afnám svonefndrar tvísköttunar. Sá sem hér stendur gagnrýndi þá aðferð og þá útfærslu sem þar var valin og varaði við því að menn færu inn á þá braut að láta skattfrelsið koma til framkvæmda útgreiðslumegin, ef svo má að orði komast, en það var tillaga ríkisstjórnarinnar. Í einhverju gleðikasti sem hljóp í ríkisstjórnina í byrjun desembermánaðar þá ákvað hún allt í einu að bjóða mönnum skattfrelsi á 15% tekna úr lífeyrissjóðum. Það var sagt að það ætti að vera til að afnema svonefnda tvísköttun. Á það var auðvitað bent að það eru í minnstum mæli þeir sem eru að fá útgreiðslur úr lífeyrissjóðum í dag sem hafa orðið fórnarlömb nokkurrar tvísköttunar. Hins vegar er það auðvitað ákvörðun um það að varanlega undanþiggja skattgreiðslum lífeyrissjóðstekjur að gera það með því að iðgjaldagreiðslurnar séu skattfrjálsar.
    Þannig að ég vil vera sjálfum mér samkvæmur í því og segja að ég tel þetta hina einu réttu leið til að fyrirbyggja tvísköttun. En þá koma upp spurningar af því tagi: Er þetta eðlileg framkvæmd? Á að láta þetta skattfrelsi ná hlutfallslega upp úr tekjuskalanum án tillits til þess hversu mikil lífeyrisréttindi menn eru að mynda og síðast en ekki síst vaknar sú spurning hvað á að gera við 15% sem ríkisstjórnin ákvað í desember? Ég óska eftir að hæstv. ráðherra svari því. Tók ríkisstjórnin um leið afstöðu til þess að fella niður þessi 15% á móti? Og þá hvenær og hvernig eða ekki? Því það er ljóst að það var ekki síst til þess að bæta kjör núverandi lífeyrisþega og ellilífeyrisþega í dag sem þessi ákvörðun var tekin um áramótin og mæltist auðvitað vel fyrir í þeim hópum. Eða er það kannski meiningin hjá hæstv. ríkisstjórn að hafa skattfrelsið báðum megin, hafa bæði 4% iðgjöld skattfrjáls og 15% af lífeyristekjunum þegar þar að kemur, þannig að hér sé ekki bara um afnám tvísköttunar að ræða heldur, ef svo má að orði komast, um afsköttun að ræða eða að menn fái tvöfalt skattfrelsi, bæði á inngreiðslunum og tekjunum? Þá segi ég nú: Fyrr má nú aldeilis gagn gera. ( Gripið fram í: Fyrr má nú aldeilis fyrr vera.) Fyrr má nú aldeilis fyrr vera hefði einhver sagt. Góðsemin í hæstv. ríkisstjórn svona rétt fyrir kosningar, að það er ekki nóg að afnema tvísköttunina bara öðrum megin heldur skal það líka gert hinum megin. Þetta er nú almennileg ríkisstjórn. Svona eiga sýslumenn að vera. Að vísu hefði nú mátt uppgötva þessa góðsemi í hjarta sínu fyrr en á síðustu vikum kjörtímabilsins. En betra er seint en aldrei, eigum við ekki að segja það.

    Það er reyndar svo, hæstv. forseti, að ríkisstjórnin er allt í einu orðin full manngæsku og kærleika og eys út góðverkunum á báðar hendur. Þannig hefur t.d. hæstv. iðnrh. allt í einu uppgötvað, eftir fjögur ár, að húshitunarkostnaður í landinu sé allt of hár. Kannski er þetta tilviljun. Það er kannski hrein tilviljun að þessir hlutir séu að gerast núna í lok febrúar og byrjun marsmánaðar á kosningaári þegar á svo að kjósa 8. apríl. En alla vega stendur nákvæmlega svona á. Og það er komið inn á það í þessari makalausu yfirlýsingu að það eigi að skoða húshitunarkostnað á sama tíma og ljóst er að á þessu kjörtímabili hafa menn í raun engra sérstakra niðurgreiðslna notið á húshitun þegar þess er minnst að ríkisstjórnin tók þá ákvörðun á sínum tíma að leggja fullan virðisaukaskatt á húshitun.
    Þannig er þetta nú, virðulegur forseti, að margt er býsna sérkennilegt í kýrhausnum þegar kemur að frammistöðu þessarar hæstv. ríkisstjórnar svona síðustu dagana fyrir kosningar.
    Eitt þykir mér líka mjög skemmtilegt og verð eiginlega að segja það alveg eins og er, að ég get ekki annað en hrósað hæstv. ríkisstjórn fyrir ja, a.m.k. hugkvæmnina, svo ég segi nú ekki ósvífnina, þ.e. að selja mönnum sömu hlutina trekk í trekk. Það er sagt að sjómaður á Ísafirði sem átti hund hafi selt hann þrisvar um borð í skip og hundurinn stökk alltaf frá borði og synti í land þegar skipin lögðu út á höfnina og hann hafði gott upp úr hundinum trekk í trekk með því að selja hann. Það liggur við að það megi segja það sama um sum atriðin í þessari ríkisstjórn eins og hundinn á Ísafirði forðum, að það sé búið að margselja þau.
    Hérna eru til að mynda gömul loforð frá fyrri kjarasamningum sem efh.- og viðskn. hefur verið að undirbúa að lögfesta á undanförnum vikum en svo skjóta þau allt í einu upp kollinum eins og ný fyrirheit frá hæstv. ríkisstjórn. Ný fyrirheit. Það er t.d. þannig að við erum búin að vera að skoða frumvarpsdrög í efh.- og viðskn. alllengi um að mönnum skuli heimilt að draga tapað hlutafé í félögum sem hafa orðið gjaldþrota til rekstrargjalda. Þetta er löngu gefið fyrirheit sem efh.- og viðskn. vissi ekki betur en að hún væri að vinna að og væri ákveðið að hrinda í framkvæmd. Nei, en svo skýtur það hér upp kollinum sem alveg spánýtt loforð. Þetta er mikil snilld í viðskiptum að selja hlutina svona oft. Það varð nú frægt hér í vetur þegar ríkisstjórnin seldi í þriðja skiptið átak í vegamálum. Var tvisvar áður búin að lofa þessu átaki, í maí í fyrravor og síðan um mitt sumar þá kom forsrh. enn fram með þetta og svo seldi hann það í þriðja skiptið í haust. Þannig er háttað með ýmislegt fleira hér og það er auðvitað nokkuð sérkennilegt.
    Þá verð ég að segja, hæstv. forseti, að mér finnst húsnæðismálakafli þessarar yfirlýsingar, 11. punkturinn í þessari 18 liða --- eða 17 er það nú víst, svo allt sé nú haft nákvæmt, hæstv. forseti --- 17. og svo 18. liðurinn er Davíð Oddsson. Það er undirskriftin, það er 18. punkturinn. Ekki tölusett að vísu, hæstv. forsrh. En 11. liðurinn er um húsnæðismál. Það verð ég að segja alveg eins og er að eins og ástandið er í þeim málum þá jaðrar við að ég hefði frekar sleppt því að nefna húsnæðismál en að fjalla um þau með þessum hætti. Þarna er nú harla magurt fé á ferðinni, svo ekki sé meira sagt. Nú veit ég svo sem ekki um það hvort einhver heiðursmannasamkomulög, óskrifleg, liggja þarna á bak við, en ég verð að segja alveg eins og er að mér finnst texti af þessu tagi, hæstv. forseti, nánast eins og blaut tuska í andlitið á því fólki sem er að missa húsnæði sitt um þessar mundir. Hér segir, með leyfi forseta:
    ,,Næstu vikur verða nýttar til að skilgreina til hvaða aðgerða eigi að grípa í skuldbreytingum hjá þeim sem eru í greiðsluerfiðleikum. Seðlabanki Íslands, Félagsvísindastofnun og Húsnæðisstofnun ríkisins munu skila athugun sinni á umfangi vanskila og eðli greiðsluerfiðleika heimilanna á næstunni.`` --- Eðli greiðsluerfiðleika heimilanna. Ég meina, vantar menn eitthvað að vita um það hvers eðlis sá vandi er hjá fólki sem er að missa húsnæðið sitt? Hvers eðlis vandinn er hjá þeim fjórðungi allra húsbréfaeigenda í landinu sem eru í vanskilum? Eðli vandans er það, hæstv. fjmrh., að fólkið hefur ekki peninga til að borga af lánunum. Það er eins einfalt og það getur verið. Ég held að það þurfi ekki skýrslur, hvorki frá Seðlabanka, Félagsvísindastofnun né Húsnæðisstofnun, til að skilgreina eðli þess vanda. Eðli vanda þess fólks sem á ekki fyrir útgjöldum. Þetta er satt best að segja harla sérkennilegt orðalag, að það skuli vera orðið innlegg í kjarasamninga á Íslandi að skilgreina eðli vanda þess fólks sem ekki á fyrir útgjöldunum. Þjónar það nú einhverjum tilgangi í raun og veru að setja slíka texta á blað, ef mér leyfist að spyrja?
    Þá vil ég aðeins nefna áhrif þessara útgjalda á ríkissjóð og vaxtamál og efnahagsmál eins og þau blasa við um þessar mundir. Við ræddum það hér nokkuð fyrir jólin ýmsir að staðan í þessum efnum væri síður en svo eins traust og hæstv. ríkisstjórn væri að reyna að gefa í skyn. Við vöruðum við því að vextir hlytu að fara hækkandi á næstunni ef ekkert yrði að gert og að staða ríkisfjármála og hins innlenda fjármagnsmarkaðar væri mjög ótrygg. Hvað hefur verið að koma á daginn, hæstv. forseti? Það sem m.a. hefur verið að koma á daginn er það að einir 4 milljarðar ríkispappíra eru nú í uppnámi eftir innlausn skuldabréfa og árangurslaus útboð ríkispappíra á síðustu vikum, einir 4 milljarðar. Nettókröfur Seðlabankans á ríkissjóð eru yfir 18 milljarðar um þessar mundir. Þeir langhæstu í sögunni. Á mannamáli þýðir það að Seðlabankinn er búinn að kaupa svo mikið af ríkisskuldabréfum og ríkisvíxlum að hann getur þar engu bætt við sig, hann er kominn á tapp. Í raun og veru vita það allir sem eitthvað vilja vita um ástandið á innlenda fjármagnsmarkaðnum að þar er hlutunum haldið gangandi annars vegar með handafli og hins vegar með seðlaprentun. Og flestir, innlendir sem erlendir sérfræðingar, sem eitthvað vita um innlenda lánamarkaðinn og vaxtastigið á Íslandi og/eða gengismál, segja: Annað tveggja er óumflýjanlegt á næstunni, a.m.k. ekki seinna en strax eftir kosningar, vaxtasprenging eða gengisfelling. Það verður að segja alveg eins og er að það er merkilegt hvernig hæstv. ríkisstjórn er að reyna að halda þessum hlutum niðri og hefur út af fyrir sig tekist það bærilega vegna þess að það verður ekki öðruvísi skilið en að þagnarsamsæri ríki í fjármagnsheiminum um þetta ástand.
    Mér er til að mynda kunnugt um það að erlendir sérfræðingar sem hafa verið að fylgjast með íslenska peningamarkaðnum gefa sínum umbjóðendum aðvaranir af þessu tagi, að menn verði að búa sig undir það að ástandið í þessum efnum geti orðið mjög alvarlegt hér með vordögum strax eftir kosningar. Þetta ástand minnir mig á andrúmsloftið sem hér var skapað í aðdraganda kosninganna 1987. Þá var mönnum talin trú um það á Íslandi að það væri góðæri og það væri gott ástand og það væri allt í himnalagi í efnahagsmálum. Hver var staðan hálfu eða einu ári síðar? Einhver versta krísa sem gengið hefur yfir í íslenskum efnahags- og atvinnumálum, sem endaði með sprengingu ríkisstjórnar haustið 1988 þegar ríkisstjórn undir forustu Sjálfstfl. hafði gefist upp gagnvart því hrikalega ástandi í efnahagsmálum sem þá var orðið, aðeins 12--14 mánuðum eftir hið mikla góðæri sem átti að einkenna ástandið þegar kosið var vorið 1987, sem reyndist auðvitað falskt og tilbúið. Því miður er það svo að það eru mörg sömu sjúkdómsmerkin á ferðinni núna til að mynda í ríkisfjármálum og á innlenda fjármagnsmarkaðnum. Það verður auðvitað að ræða þessa hluti eins og þeir eru þó það séu að koma kosningar og það sé óþægilegt fyrir hæstv. fjmrh. að um þetta sé fjallað.
    Vextirnir hafa verið að hækka á síðustu mánuðum jafnt og þétt og núna seljast ekkert nema skammtímapappírar af því að enginn vill binda fjármagnið nema í stuttan tíma af því að menn búast við breytingum, hækkun á vöxtum eða gengislækkun. Þetta eru auðvitað hlutir sem er óhjákvæmilegt að tala um. Það skyldi nú ekki vera að umfjöllunin um húsnæðismál væri jafnfátækleg og raun ber vitni vegna þess að enginn þorir að taka á því að fjármögnun húsnæðiskerfisins gekk ekki upp á síðasta ári. Húsnæðisstofnun seldi engin bréf eftir mitt ár og ríkissjóður varð að halda henni gangandi með því að taka lánin sjálfur og endurlána byggingarsjóðunum. Það er ekki annað að sjá en að sama ástand eigi að ríkja fram yfir kosningar. Svo á auðvitað að koma og uppgötva allt í einu mikla erfiðleika sem kalli á aðgerðir og niðurskurð og vaxtahækkun og alls konar hluti sem ekki eru nefndir á nafn fyrir kosningarnar.
    Ég held að það sé ástæða til að vara við þessu svikalogni, þessu falska ástandi sem er verið að reyna að búa hér til til að geta kosið í anda og nafni einhverrar glansmyndar í efnahagsmálum sem því miður er ekki til. Atvinnuleysið hefur ekki haggast, ekki haggast, og það er ekki á það minnst í þessari yfirlýsingu. Þvert á móti er það þannig að erlendar stofnanir eru nú að spá miklu meira atvinnuleysi en íslenskar stofnanir og af hverju er það? Gæti það ekki verið m.a. vegna þess að þær eru ekki tilbúnar til að teygja sig jafnlangt á bjartsýnum forsendum eins og íslenskar stofnanir hafa gert í spám sínum upp á síðkastið af einhverjum ástæðum. Þar sem m.a. er spáð áframhaldandi metverðmætum úr loðnuvertíð og jafnmiklum verðmætum úr Smugunni og úr fleiri áttum, sem margir telja ástæðu til að hafa fyrirvara á.
    Auðvitað þýðir ekki annað en að ræða um þessa hluti eins og þeir eru í tengslum við þessa mjög svo kostulega að mörgu leyti yfirlýsingu hæstv. ríkisstjórnar.
    Að lokum vil ég taka einn þátt hér fyrir og það er verðtrygging lánsfjár og yfirlýsing ríkisstjórnar um í fyrsta lagi að breyta lánskjaravísitölunni og í öðru lagi að afnema hana í áföngum með einhverjum hætti án þess að það sé útskýrt nánar. Ég óska eftir því að ábyrgðaraðilar þessa máls, hæstv. fjmrh. eða hæstv. forsrh., tjái sig um þetta efni. Hvernig hyggjast menn standa að þessum breytingum og hvaða áhrif telur hæstv. fjmrh. að afnám eða breytingar á lánskjaravísitölunni séu líklegar til þess að hafa á næstu vikum og mánuðum? Mjög margir sérfræðingar óttast að þetta geti ýtt enn þá frekar undir spekúlasjónir og spákaupmennsku. Þetta geti haft frekari áhrif í þá átt að þrýsta upp vöxtum og burt séð frá mikilvægi þess að verja launamenn fyrir áhrifum af hækkaðri lánskjaravísitölu og ég geri ekki lítið úr, þá verða menn líka að horfa á hina hliðina og afleiðingar þess. Því hefur verið haldið fram, m.a., ef ég man rétt, af hæstv. forsrh., að það hafi verið sérlega ámælisvert af fyrri ríkisstjórn að fikta með lánskjaravísitöluna. Ég þykist muna það rétt að einhvern tímann hafi hæstv. forsrh. látið slík orð falla. Það hafi ekki reynst auðvelt að telja útlendingum trú um að á þessu væri ekki byggjandi af því að fyrri ríkisstjórn hafi fiktað við lánskjaravísitöluna. Þær breytingar voru smávægilegar borið saman við þetta og vegna þess að hér er ekki bara talað um að breyta reiknigrundvellinum heldur líka afnema hann í áföngum ættu áhrifin að sama skapi að vera meiri.