Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:51:09 (4857)


[22:51]
     Forsætisráðherra (Davíð Oddsson) (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Hv. þm. nefndi það að spár væru með einhverjum einkennilegum hætti eða gaf það til kynna. Ég las það þannig að hann væri að gefa til kynna að opinberar spástofnanir væru að þjónka einhverjum málstað. Þannig vill til að á öllu sl. ári voru spár hinna opinberu spástofnana of varfærnar hvað varðaði efnahagsbatann. Það varð að leiðrétta þær á þriggja mánaða fresti því þær voru alltaf of varfærnar. Þetta veit hv. þm. Það voru nokkrir aðilar hins vegar sem spáðu vitlaust og þar fór hv. þm. mjög framarlega í flokki. Í þessum löngu ræðum sínum, sem hann er frægur fyrir hér og víða um jarðir, spáði hann því í desember sl. að nú í janúar eða febrúar yrði hér vaxtasprenging. Því var lýst og talað fjálglega um þessa miklu innlausn spariskírteina sem var að verða og þá ógn sem af því stafaði og það yrði vaxtasprenging einmitt á þessum mánuðum. Það er hið þveröfuga að gerast. Það varð ekkert vandamál uppi þegar innlausn þessa skírteinaflokks varð. Þvert á móti þá styrktist staða Seðlabankans og viðtökur almennings sýndu að vaxtastigið er á afskaplega traustum grunni byggt. Og núna eftir þessa kjarasamninga þá lækka vextir enn og enn heldur hv. þm. áfram að spá. Reynslan af spádómi hv. þm. er nú ekki þannig að hann ætti að draga spádóm annarra í efa.