Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 22:52:37 (4858)


[22:52]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Ég er nú ekki miklu nær eftir þetta stórkostlega, málefnalega og merkilega innlegg hæstv. forsrh., satt best að segja. Það sem ég var að fjalla um varðandi spár var til að mynda það misræmi sem er uppi núna í spám Alþjóðavinnumálastofnunar annars vegar og hins vegar Þjóðhagsstofnunar og fleiri aðila um áframhaldandi atvinnuleysi. Þar er bara uppi klárt misræmi sem er eðlilegt að spurt sé út í. Ég leyfi mér að halda því fram, já, ég leyfi mér að halda því fram til að mynda að forsendur þjóðhagsspár núna séu bjartsýnar, m.a. vegna þess að þær gera ráð fyrir fullum verðmætum út úr loðnuvertíðinni. Það mega allir vita sem eitthvað þekkja til þeirra mála. Og þó að ekkert komi annað til en það hvað loðnan byrjaði seint að veiðast og ýmislegt annað sem spilar inn í, m.a. þvergirðingsháttur stjórnvalda í sumum tilvikum, sem þvælast fyrir í sjálfsögðum hagræðingarmálum varðandi veiðar og vinnslu á loðnu, þá eru miklar efasemdir uppi um það, því miður, hjá öllum innan sjávarútvegsins og sem til þekkja, að þeir nái þeim verðmætum út úr loðnuvertíðinni sem út af fyrir sig markaðsaðstæður gæfu möguleika á vegna þess að við sitjum nokkurn veginn einir að mörkuðunum núna þar sem ekki er veidd loðna bæði í Noregi og Kanada og höfum þar af leiðandi möguleika á að ná þarna talsvert mikilli sölu. En því miður eru bara að verða mjög litlar líkur á því að við náum kvótanum og sérstaklega litlar líkur á því að á jafnskömmum tíma og er til stefnu náist að frysta það magn afurða sem þarf til að gefa okkur sambærileg verðmæti og metvertíðin á síðasta ári gerði. Algjör metvertíð þar sem verðmæti frystra loðnuafurða margfaldaðist og jókst um marga milljarða króna. Varðandi vaxtamálin þá þýðir ekkert fyrir hæstv. ríkisstjórn að láta svona, vextirnir hafa verið jafnt og þétt hækkandi. Þeir hafa verið það. Þó það hafi selst dálítið af skammtímapappírum núna, einfaldlega vegna þess að ýmsir fjárfestar ákveða að brúa bilið gegnum þessa óvissu kosninganna, þá segir það enga sögu um mat manna á langtímahorfum í þessum efnum og bæði innlendir og erlendir sérfræðingar viðurkenna að þar er mikil hætta á vaxtahækkun.