Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:01:36 (4862)


[23:01]
     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er nú enn þá sorglegra að horfa upp á hæstv. ráðherra umhverfast hér þegar menn leyfa sér að leggja öðruvísi mat á stöðuna að einhverju leyti heldur en þeir gera sjálfir. Það er bara ekki þannig, hæstv. forseti, að hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hafi einkarétt á því að meta stöðuna í efnahags- og atvinnumálum á Íslandi. Það er bara ekki svoleiðis. Sjálfstfl. ræður að minnsta kosti ekki skoðunum þess sem hér stendur varðandi það að það sé ekki gott ástand að hér gangi milli 6.000 og 7.000 manns atvinnulausir. Mér er alveg sama hvað hæstv. fjmrh., Friðrik Sophusson, tuðar mikið um kraftaverk sín í ríkisfjármálum, ég lít ekki á það sem gott ástand á Íslandi að milli 6.000 og 7.000 manns gangi atvinnulausir. Það þýðir ekkert að reyna að selja mér þá speki.
    Varðandi það að Seðlabankinn hafi náð að selja svolítið af skammtímapappírum, það er rétt, en það er vegna þess, að mínu mati, að menn eru tilbúnir að festa fé tímabundið, geyma það í skammtímapappírum. Vegna óvissunnar þá hentar það mönnum að kaupa þriggja mánaða ríkisvíxla. Það getur vel verið að það hafi gengið þokkalega hjá bankanum að koma fé yfir í þá eins og að það gekk að koma hluta af innlausninni út með því að bjóða sérstök innlausnarkjör með vaxtahækkun. Miðað við þá markaðsvexti sem menn sögðu ríkja hérna fyrir jólin þá urðu menn að fara út í það að bjóða vaxtahækkun í formi innlausnarkjara. Þannig að ég held að árangurinn sé ekki merkilegur, hæstv. fjmrh. Og minnumst þess að síðan við áttum hér orðaskipti um þessa hluti um miðjan desember þá hækkuðu vextirnir jafnt og þétt fram í miðjan febrúar. Þó að það vilji svo til að hæstv. fjmrh. geti bent á einhverja dagsveiflu í gær eða í fyrradag þá er ég ekki búinn að sjá það sem sönnun þess að það sé að verða eitthvert varanlegt brot í þessari kúrfu sem hefur verið jafnt og þétt upp á við frá því fyrri hluta sl. árs. Vextir hafa verið jafnt og þétt hækkandi á Íslandi frá því í febrúar, mars, apríl á árinu 1994, þangað til þá í gær eða í fyrradag, ef það er það sem hæstv. fjmrh. er að státa af hér.