Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:03:49 (4863)


[23:03]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það sem við erum að vekja athygli á, ráðherrarnir, er það hversu ómerkilegur og hættulegur þessi málflutningur er sem stundaður er af hv. þm. Alþb., að koma í ræðustól, þykjast búa yfir upplýsingum og hreinlega ljúga að þjóðinni. Hvers vegna er þetta gert? Þetta er gert til þess að skapa tortryggni. Það var talað um vaxtahækkanir og gengislækkanir. Það hefur alltaf legið fyrir að vextir mundu hækka og lækka hér samsvarandi og gerist í öðrum löndum. Það gerðist frá desember til febrúar. Það vita allir. En það sem ég var að segja var það að vextir hafa lækkað á undanförnum dögum vegna þess að kjarasamningarnir voru gerðir, án þess að nokkur vaxtabreyting hafi verið í útlöndum. Þetta verður hv. þm. að viðurkenna. Ég get bætt því við að það var meira að segja gengishækkun fyrir skömmu, ekki mikil en þó var gengishækkun íslensku krónunnar. Það þýðir ekki að koma fram aftur og aftur með slíkar hrakspár eins og þeir hafa gert nema þeir annaðhvort vilji vera menn sem ekki er hægt að taka mark á eða að þeir eru að reyna að koma þeim óróa á með öllum sínum ráðum til þess að geta komið í veg fyrir það að samningar gengju eftir, til þess að koma í veg fyrir það að hér ríki stöðugleiki, til þess að reyna að koma á upplausn í þjóðfélaginu og það er alvarlegt þegar slíkt gerist. Það hlýtur að vera í okkar verkahring nú þegar það kemur í ljós að þeir hafa haft rangt fyrir sér þegar við skoðum þetta mál nú, tveimur mánuðum síðar, að vekja athygli á þessum ómerkilega málflutningi hv. þm. Alþb.