Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:07:25 (4865)


[23:07]
     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Það væri nú æskilegt að hafa hæstv. forsrh. í salnum og ég get lofað honum því að ég skal sýna honum myndir ef það er honum frekar til ánægju við að vera í salnum að fá að horfa á þær.
    En áður en ég kem að efni ræðu minnar þá vil ég segja eftirfarandi við hæstv. fjmrh.: Ég skora á hæstv. fjmrh. að leggja hér fram áður en þessari umræðu lýkur í fyrsta lagi tölur um það hver er kröfustaða Seðlabankans á ríkissjóð núna.
    Í öðru lagi: Hver er staða gjaldeyrisvarasjóðsins núna?
    Í þriðja lagi: Hvað um erlenda lánið sem fjmrh. og ríkissjóður í samvinnu við Seðlabankann tóku fyrir skömmu til að bjarga gjaldeyrisvarasjóðnum? Hvað var það hátt, hæstv. ráðherra? Hvenær áætlar hæstv. ráðherra að lánið verði búið? Er það eftir fjórar vikur, sex vikur, átta vikur?
    Í fjórða lagi: Hvað ætlar hæstv. ráðherra að gera þá? Ætlar hann að taka nýtt erlent lán?
    Málið er nefnilega það að þessu ástandi hefur verið haldið uppi af hálfu ríkissjóðs undanfarnar vikur með erlendri lántöku, hæstv. fjmrh. Á sama tíma og forsrh. kemur í gærkvöldi og hælir sér af því að nú sé þjóðin að borga niður erlendar skuldir þá er fjmrh. önnum kafinn við að taka erlend lán sem endast ekki nema í nokkrar vikur þar til þarf að taka nýtt.
    Ég skora í fimmta lagi á hæstv. fjmrh. að svara því hér og nú: Hvað telur hann að ríkissjóður komist lengi af á næstunni án þess að taka nýtt erlent lán? Ég vil fá skýr svör hjá hæstv. fjmrh.: Hve lengi, mælt í vikum, alla vega í mánuðum, telur hæstv. fjmrh. að ríkissjóður komist af án þess að taka erlend lán?
    Fyrr en hæstv. fjmrh. hefur svarað þessum spurningum í ræðustólnum ætti hann ekki að hafa hátt um það að menn séu að draga upp einhverja dökka mynd. Fjmrh. sem telur sig hafa efni á því að tala eins og hæstv. fjmrh. gerði áðan leggur fram þessar tölur sem ég hef beðið um og leggur þær fram í umræðunni í kvöld. Ef fjmrh. er ekki nærri töskunni þá hefur hann einfaldlega ekki unnið heimavinnuna sína. Ég fer formlega fram á það að þessar upplýsingar verði lagðar fram áður en umræðunni lýkur.
    Það væri reyndar gagnlegt fyrir fjmrh. að leggja líka fram tölur um það hvað erlendar lántökur ríkissjóðs hafa aukist mikið í tíð þessarar ríkisstjórnar. Hvað hefur ríkisstjórn Davíðs Oddssonar aukið mikið erlendar lántökur ríkisins? Það er auðvitað ekki þakkarvert þó að Jóhann frændi hv. þm. Steingríms J. Sigfússonar fari á Smuguveiðar og dragi einhverja meiri peninga í þjóðarbúið eða loðnan sé sérstaklega gjöful og menn geti þess vegna fagnað meiri gjaldeyristekjum ef forsrh. og fjmrh. eru svo önnum kafnir út um allar heimsins trissur við að taka erlend lán. Hæstv. fjmrh. og hæstv. forsrh. sögðu í haust og fyrir áramót að þessi ríkisstjórn ætlaði ekki að gefa út kosningavíxla. Það var boðskapurinn í fjárlagafrv. hæstv. fjmrh. Friðriks Sophussonar fyrir hönd ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar. Það mundu menn nú sjá að það yrði mikill munur á viðskilnaði núv. ríkisstjórnar og þeirrar síðustu. Það yrði ekki gefinn út neinn kosningavíxill. Enginn kosningavíxill. --- En, hæstv. fjmrh., það eru á borðunum frumvörp sem ríkisstjórnin vill afgreiða fyrir þinglok upp á 5--6 milljarða í kosningavíxlum.
    Í öðru lagi hefur hæstv. forsrh. og hæstv. fjmrh. hvað eftir annað sagt það að núv. ríkisstjórn mundi ekki skilja við stöðu ríkissjóðs gagnvart Seðlabankanum eins og gert var í tíð síðustu ríkisstjórnar. Þetta tvennt, engir kosningavíxlar og ekki jafnslæm staða gagnvart Seðlabankanum eins og vorið 1991, hefur verið höfuðþátturinn í boðskap þessara tveggja hæstv. ráðherra. Hverjar eru staðreyndirnar? Staðreyndirnar eru forgangsafgreiðsla í þinginu um kosningavíxla upp á 5--6 milljarða, þar af 3--4 vegna kjarasamninganna, hitt í nýjum samningum við sveitarfélögin vegna frárennslismála þar sem á síðustu dögum þingsins kemur fram stjfrv. upp á 2 milljarða hjá ríkissjóði á næstu árum án þess að nokkuð liggi fyrir um það hvernig eigi að fjármagna það. Það er kannski von á fleiri frv. í salinn, hæstv. fjmrh.?
    Þessi upphæð sem nú er gefin út í kosningavíxlum á síðustu dögum þingsins er álíka og skattatilfærslan til atvinnulífsins í landinu á kjörtímabilinu. Næstu ríkisstjórn er sem sagt ætlað að skaffa fjármagn af álíkri stærðargráðu.
    Ég hef sagt það oft í þessum ræðustól að staða í kröfugerð Seðlabankans á ríkissjóð vorið 1991 og áramótin 1990--1991 var ekki viðunandi. Það hefur ekki verið neinn ágreiningur um það milli mín og hæstv. núv. fjmrh. og forsrh. Þeir hafa hins vegar haft um það mjög stór orð og talið það vera mælikvarðann um hina gífurlegu óstjórn og þær neyðarráðstafanir sem ríkisstjórn Davíðs Oddssonar varð að grípa til bæði í vaxtamálum, skattamálum og öðrum málum þegar hún tók við. Ég birti í gærkvöldi --- og hæstv. forsrh. var eitthvað að kveinka sér undan því að það hefði verið sýnt í þingsalnum þannig að það er best að ég sýni honum það aftur og vonandi hefur hann sig inn í þingsalinn til að kíkja á það --- nettókröfur Seðlabankans á ríkissjóð og ríkisstofnanir. Þær voru í janúar 1995 yfir 18 milljarðar en voru í desember 1991 rúmir 8 milljarðar. Þær eru rúmlega 100% hærri.
    Nú má vel vera að þessir 18 milljarðar hafi eitthvað hreyfst til á allra síðustu vikum, um kannski 1, 2, eða 3 milljarða, eitthvað svoleiðis. Það má vel vera og fjmrh. leggur þá fram þær tölur. En, hæstv. fjmrh., þó þær hafi farið niður í 16, þó þær hafi farið niður í 15, þó þær hafi farið niður í 14, þó þær hafi farið niður í 13, þó þær færu niður í 8 þá er það hrikaleg staða, hæstv. ráðherra. Ég veit að hæstv. fjmrh. veit það. Ég er hins vegar ekkert viss um að hæstv. forsrh. geri sér neina sérstaka rellu út af þessari tölu.
    Hvernig ætlar ríkisstjórnin að rétta þessa stöðu við? Hvernig ætlar ríkisstjórnin á næstu vikum og mánuðum að gera hvort tveggja: Annars vegar að leggja drög að því að kosningavíxillinn sem gefinn var út í kjarasamningunum verði greiddur og síðan að ná þessari hrikalegu stöðu gagnvart Seðlabankanum niður í það sem er viðunandi í sæmilega heilbrigðu hagkerfi? Eða ætlar ríkisstjórnin virkilega að láta kröfur Seðlabankans á ríkissjóð vera dinglandi á bilinu 10, 12 og upp í 18 milljarða á næstu mánuðum?
    Staðreyndin er sú að þessi viðskilnaður ríkisstjórnar Davíðs Oddssonar er hrikalegur og ábyrgðarleysið alveg yfirgengilegt. Maður hefði kannski haldið að ríkisstjórn sem horfði á þessar tölur, stöðuna gagnvart Seðlabankanum væri ekki að gefa út kosningavíxla upp á marga milljarða án þess að segja hvernig ætti að greiða þá, en það er ekki gert. Það er bara gefið á garðann, 3, 4 milljarðar í kjarasamningunum, 2 milljarðar gagnvart sveitarfélögunum. Bara gjörið svo vel, kæru vinir.
    Við vorum á fundi í umhvn. fyrr á þessum sólarhring um kvöldmatarleytið og það lá við að formaður Sambands ísl. sveitarfélaga félli fram og tilbæði ríkisstjórnina í þakklæti fyrir þetta óvænta örlæti sem ríkisstjórnin sýndi varðandi þessa 2 milljarða. Þeir áttu varla til orð, hjá Sambandi ísl. sveitarfélaga, fyrir þetta mikla örlæti --- óvænt var orðið sem þeir notuðu. Þeir fögnuðu þessu óvænta örlæti ríkisstjórnarinnar.
    Síðan bætist í þetta safn erlendu lántökurnar sem ég vænti að hæstv. fjmrh. upplýsi á eftir, Þær hafa þróast þannig, sem hlutfall af vergri landsframleiðslu, að 1991, á þessu voðalega ári, --- hvar er hæstv. forsrh.? --- Þetta eru kannski svona miklar hryllingsmyndir að hæstv. forsrh. hefur sig ekki í það að sjá þær. Ég get vel skilið það, kannski fer hæstv. forsrh. að dreyma þessi súlurit á nóttunni. Þessi mynd sýnir það að 1991, sem hefur verið svona hryllingsárið mikla í málflutningi þessara tveggja hæstv. ráðherra, voru erlendar skuldir ríkissjóðs rúmlega 15% af landsframleiðslu. Núna eru þær að verða 30% af landsframleiðslu. 18 milljarða kröfugerð Seðlabankans á ríkissjóð og tæplega 30% hlutfall erlendra skulda ríkissjóðs af landsframleiðslu. Hvílíkur viðskilnaður, hæstv. fjmrh.
    Ég veit að vísu að hæstv. fjmrh. á kannski við svipaðan vanda að etja og ég átti á síðustu mánuðum síðustu ríkisstjórnar, að hafa í embætti forsrh. sem er orðinn ansi vaxtafælinn. Ég veit eiginlega ekki hvað er í andrúmsloftinu í gamla hvíta húsinu í Lækjargötunni sem gerir það að verkum, og ekki hefur það batnað eftir lýsinguna, að vextir verða greinilega eitthvað voðalegt mál hjá hæstv. forsrh. Auðvitað er það þannig, hæstv. fjmrh., að af pólitískum ástæðum hefur fjmrh. ekki haft svigrúm til að glíma við þennan vanda. Ég hef ekki trú á því að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson vilji endilega taka öll þessi erlendu lán. Ég hef enga trú á því að hæstv. fjmrh. Friðrik Sophusson vilji láta stöðuna gagnvart Seðlabankanum vera í 18 milljörðum. Ég hef bara ekki nokkra trú á því. Ég hef heldur enga trú á því að hæstv. fjmrh. vilji láta heildarskuldasöfnun hins opinbera vera komna yfir 30% af landsframleiðslu. En engu að síður eru þetta staðreyndirnar, hæstv. fjmrh.
    Við höfðum einu sinni borgarstjóra í Reykjavík. Hann var mjög athafnamikill og flott í sér. Hann byggði ráðhús og hann byggði Perlu og hann var mjög vinsæll. En hann hafði hins vegar vit á því að yfirgefa borgarstjórastólinn áður en það kom í ljós að þetta var byggt á sandi og það féll síðan í skaut tveggja arftaka hans, Markúsar Arnar Antonssonar og Árna Sigfússonar, að taka skellinn og tapa Reykjavík vegna skuldastöðunnar. Þannig að orðstírinn um hina góðu fjármálastjórn Sjálfstfl. féll en það var ekki núv. forsrh., fyrrv. borgarstjóri, sem tók fallið heldur fyrrv. útvarpsstjóri og fyrrv. framkvæmdastjóri, núv. framkvæmdastjóri Stjórnunarfélagsins, Árni Sigfússon. Þeir tóku skellinn. Nú blasir það við að viðskilnaðurinn í ríkisfjármálunum er hlutfallslega enn verri en viðskilnaðurinn hjá Reykjavíkurborg og hann er miklu verri en sá viðskilnaður sem menn hafa verið að gera mikið úr vorið 1991 eins og þær tölur sýna sem ég hef reitt hér fram. Menn sjá bara samanburðarhlutfallið á stöðunni gagnvart Seðlabankanum, samanburðarhlutfallið á erlendri skuldastöðu ríkisins, samanburðarhlutfallið á heildarskuldum hins opinbera. Allt þetta blasir við.
    Þá kemur ríkisstjórnin og leggur fram tilboð í kjarasamningum án þess að hafa myndugleik til þess að sýna hvernig eigi að greiða það. Hefði ríkisstjórnin lagt fram á Alþingi frv. um það hvernig ætti að standa undir þessum kostnaði þá væri virkilega hægt að segja að ríkisstjórnin hefði tekið þátt í því að greiða úr þessum vanda en það var ekki gert. Meira að segja hæstv. forsrh. er á slíkum flótta í þessari umræðu að hann reynir að koma sér undan því að viðurkenna í sjónvarpsviðtölum hvað víxillinn er hár. Hann reynir að halda sig við að það séu 1.850 millj. á ársgrundvelli, eins og hæstv. ráðherra sagði í viðtali við Stöð 2. Það er eins og hæstv. ráðherra vilji ekki einu sinni viðurkenna það að forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem er þó hans undirmaður, segir í greinargerð og álitsgerð um þessar aðgerðir að það sé alla vega 3 milljarða vöntun vegna þessa loforðs sem verði að standa skil á. Forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Halli ríkissjóðs af þessum völdum er áhyggjuefni og framhaldið byggist nokkuð á því hvernig tekst að mæta þessum auknu útgjöldum og minni tekjum með aðgerðum til að koma hallanum aftur niður á það stig sem menn höfðu reiknað með á næstu árum.``
    Hvað er forstjóri Þjóðhagsstofnunar að segja hér? Hann er að segja á kurteislegan hátt að það plan um bætur á ríkisfjármálum sem hæstv. fjmrh. kynnti í haust og forsrh. var að hæla honum fyrir í ræðunni í gær sé hrunið og nú verði það verkefni nýrrar ríkisstjórnar að glíma við a.m.k. 3 milljarða, jafnvel 4 milljarða kr. vanda til þess að koma því aftur niður á það stig sem menn höfðu þó búist við. En forstjóri Þjóðhagsstofnunar segir meira, hæstv. forsrh. Hann segir orðrétt:
    ,,Veikleikinn í þessu er sá að hallinn á ríkissjóði er meiri en viðunandi er þegar til lengri tíma er litið.`` --- Veikleikinn er sá að hallinn á ríkissjóði er meiri en viðunandi er þegar til lengri tíma er litið. Jafnvel hinn kurteisi og fágaði forstjóri Þjóðhagsstofnunar, sem veit ósköp vel að hann er með hinn harða húsbónda, forsrh., yfir sér, telur óhjákvæmilegt að láta þessi orð falla um þann kosningavíxil sem núv. ríkisstjórn hefur gefið út.
    Það er þess vegna alveg ljóst að það verður eitt af fyrstu verkum nýrrar ríkisstjórnar að setja stoðirnar undir þá kjarasamninga sem skrifað hefur verið undir vegna þess að það eru engar stoðir undir yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það er bara loft. Það er bara innantómt loft undir þessum loforðum ríkisstjórnarinnar. Hér verður gengið til kosninga án þess að Sjálfstfl., svo maður minnist ekki á Alþfl., segi orð um það hvernig á að setja stoðir undir kjarasamningana hvað þetta snertir. Það verður í fjárlögum næsta árs og í aðgerðum nýrrar ríkisstjórnar í ríkisfjármálum sem það mun ráðast hverjir munu eiga að borga þennan víxil. Skattastefna ríkisstjórnarinnar liggur fyrir. Hún hefur birst á fjórum árum. Samkvæmt henni, eins og ég rakti hér í gær, er það lágtekjufólkið, námsmennirnir og sjúklingarnir sem borga. Eða með öðrum

orðum þeir sem sagt er að kjarasamningarnir eru gerðir fyrir. Það sýnir óheilindin að Sjálfstfl. og Alþfl. leggja ekki í það að sýna á þau spil hverjir eiga að borga þennan höfuðvíxil kjarasamninganna.
    Virðulegi forseti. Hæstv. forsrh. hefur aldrei lagt í það að koma inn í salinn undir þessari ræðu. Hæstv. fjmrh. er flúinn af hólmi. Það er í samræmi við það sem Bretar segja stundum að menn lýsa stöðunni með fótunum en ekki heilanum og brotthvarf þeirra af vettvangi er táknrænt fyrir það brotthvarf sem mun við þeim blasa að morgni 9. apríl.