Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Fimmtudaginn 23. febrúar 1995, kl. 23:48:42 (4867)


[23:48]
     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Það er út af fyrir sig mjög ánægjulegt að kjarasamningar skuli hafa tekist núna um daginn en vissulega hljótum við að staðnæmast við bæði kosti og galla þeirra frv. sem við stöndum frammi fyrir að þurfa að taka afstöðu til. Okkur er ekki ætlaður mikill tími til þess en það er út af fyrir sig afskaplega vont mál. Það er alltaf bagalegt að þurfa að búa við það að grípa til tiltölulega flausturslegra vinnubragða og það er nákvæmlega það sem við höfum æ ofan í æ brennt okkur á. En tímasetningar eru þannig að það verður ekki öðruvísi gert og ég treysti því að hv. efh.- og viðskn., sem mun væntanlega hafa þetta mál til umfjöllunar, taki sér tíma til að fara í gegnum þetta og athugi að þarna sé allt rétt gert.
    Hins vegar hefur mönnum orðið tíðrætt um, og ekki að undra, yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga. Það sem mér finnst kannski ámælisverðast við það og ber vott um m.a. í þessu frv. er það að hér er verið enn einu sinni að taka upp sömu tuggurnar og hafa verið seldar stéttarfélögum hvað eftir annað í kjarasamningum eftir kjarasamninga og alltaf er aftur og aftur verið í rauninni að selja mönnum sama pakkann og því miður hefur ekki alltaf orðið sama um efndirnar.
    Vissulega er ánægjulegt að vita það að nú skuli loks verið tekið til við að glíma við tvísköttun lífeyrisgreiðslna og í rauninni er valin sú leið sem við kvennalistakonur höfum bent á. Það finnst mér út af fyrir sig þakkarvert en það er farið mjög hægt í þetta og það er á þann hátt að fólk nýtur ekki góðs af því og eftir sem áður, og það höfum við kvennalistakonur alla tíð séð, þá er þarna ákveðinn hópur sem þarf bæði að bíða og það er búið að gefa mikil fyrirheit um að það væri gert með þessum hætti og svo er ákveðinn hópur sem mun ekki fá þetta bætt. Og því lengra sem hefur liðið þeim mun meiri hætta er að sjálfsögðu á slíku. Það er mál sem mér finnst þurfa að skoða sérstaklega.
    Ég vil minna á það að hæstv. fjmrh. tók þátt í umræðum þegar hv. þm. Kvennalistans, Kristín Sigurðardóttir, mælti fyrir frv. til laga um breytingar á lögum nr. 75/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, þar sem einmitt var verið að fjalla um nákvæmlega þessar iðgjaldagreiðslur til viðurkenndra lífeyrissjóða. Þar var verið að miða við það að þessi leið væri farin, að þær yrðu ekki skattlagðar. Þegar hæstv. fjmrh. kom inn í þær umræður, sem voru haustið 1991, 21. okt. 1991, eftir framsögu hv. þm. Kvennalistans tók hann undir með flm. að það væri að sjálfsögðu þörf umræða. Síðan eru næstum því fjögur ár og þessi mjög svo þarfa umræða hefur vissulega verið í gangi en það er ekkert verið að gera í þessu máli þrátt fyrir ýmis fróm fyrirheit ríkisstjórnarinnar fyrr en þetta mál er selt í kjarasamningum. Þetta er í rauninni það sem mér finnst svo grátlegt. Ég er ekki að harma niðurstöðuna heldur er ég að harma það að fólk, sem er að semja um kaup og kjör, þurfi að kaupa dýrum dómi einfaldar sanngjarnar lagfæringar. Þetta er í rauninni siðferðilega mjög vafasamt.
    Það er mjög sérkennilegt ef litið er til máls hæstv. fjmrh. frá því fyrir hér um bil fjórum árum síðan að á þeim tíma fer hann að tala um að það sé í rauninni vafasamt að halda því fram að um tvísköttun lífeyrissjóðsiðgjalda sé að ræða því hann er að tala um það nákvæmlega sama og núna virðist vera viðurkennt sem tvísköttun. Hann finnur þessari aðferð á þeim tíma nokkuð til foráttu og þá er hann einnig að fetta fingur út í það að breyting sem þessi muni ekki auka jöfnunaráhrif skattkerfisins af því að hún gagnist lítið þeim sem eru tekjulágir og skattlausir. Það væri gaman að vita hvað hæstv. fjmrh. hefur um þetta mál að segja núna þar sem hann er búinn að selja þessi verðmæti dýrum dómi í kjarasamningum. Þetta finnst mér auðvitað mjög sérkennilegt að rifja nú upp. Ég sat ekki á þingi á meðan þessi umræða fór fram en ég hafði hins vegar spurnir af henni og fannst því ástæða til þess að fletta henni upp, en það var varamaður minn, hv. þm. Kristín Sigurðardóttir, sem flutti þetta mál og eðlilega gat ég ekki verið viðstödd né blandað mér í umræðuna þá. Því miður reyndist það vera rétt munað hjá mér að hæstv. fjmrh. fann þessu allt til foráttu og raunar kemur gagnrýni hans fram í sjö liðum og ég ætla ekki að vera að rekja það hér, en það er öllum mögulegt að nálgast þessa umræðu í þingtíðindum því þar er þetta allt til skráð.
    En eins og ég segi þá gleðst ég auðvitað yfir því að þessi leið skuli á endanum hafa verið valin. Það sýnir bara hversu hyggnar við vorum og hversu fáfengileg þessi gagnrýni hæstv. ráðherra í rauninni var. Það er hins vegar dálítið gremjulegt að núna þegar þessu er flaggað sem einhverju miklu gæðamáli og hagsbótamáli fyrir launþega þá skuli ekki einu sinni vera vikið að því einu orði að í þessu umdeilda máli er einmitt valin þessi leið sem við kvennalistakonur lögðum til á þessum tíma. Hefði þetta verið gert þegar við lögðum þetta til fyrir fjórum árum síðan þá hefði að sjálfsögðu sá hópur verið minni sem lenti í þessari tvísköttun af fullum þunga og fær í rauninni ekki fulla bót samkvæmt þessu því við gripum á þessu fljótlega eftir að staðgreiðsla skatta var tekin upp og við gripum á þessu miklu fyrr heldur en ríkisstjórnin núna sem ákveður að versla með þetta.
    Þetta er því í rauninni afskaplega undarlegt mál, svo ekki sé meira sagt. Hvað varð svo um þessa tillögu okkar? Jú, hún dagaði uppi í nefnd. Það var ekkert hægt að gera í þessu. Það var samt sem áður búið að taka þá pólitísku ákvörðun á Alþingi að samþykkja ályktun sem einn af hv. sjálfstæðisþingmönnum flutti um að það ætti að reyna að taka á þessu tvísköttunarmáli. En það var gert enn fyrr. Það eru fimm ár síðan það var gert og það hefur tekið mikinn tíma að gera þetta. Þess vegna er afskaplega gremjulegt að sjá það að síðan eigi að vera að treina þetta fram til 1. júlí 1997 og þá erum við sem sagt komin með sex ár eða hátt í sjö ár síðan við vorum að reyna að vinna þessu máli fylgi á Alþingi og ríkisstjórnin beinlínis ákvað að leggja stein í götu okkar máls með því að hleypa því ekki í gegnum þá nefnd sem hæstv. ríkisstjórn hafði öll tök á að gera.
    Það er fleira sem mér þykir ástæða til að staldra við í þessum málum sem auðvitað tengjast öll fyrst og fremst yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar í tengslum við kjarasamninga lands- og svæðasambanda innan ASÍ og vinnuveitenda. Ég sat á óformlegum fundi í kvöld ásamt virkum félögum úr fleiri en einu stéttarfélagi og meðal þess sem gert hefur verið á þeim vettvangi er að reikna út 14. liðinn í þessari makalausu yfirlýsingu. Margt er jú gott þar en annað gamalt og enn eldra, jafnvel í takt við þau frv. sem hér liggja fyrir og þetta er selt sem fullgild söluvara hér. Í þessum 14. lið stendur, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til þess að tryggja framhald verkefna sem miða að því að gera tillögur um aðgerðir til að draga úr launamun milli karla og kvenna mun ríkisstjórnin leggja fram viðbótarfé á þessu ári allt að 3 millj. kr.``
    Þetta er sem sagt hið glæsta framlag ríkisstjórnarinnar til að draga úr launamun á milli karla og kvenna. Við erum búin að vera að horfa upp á það að það er enn og aftur verið að staðfesta þann raunveruleika sem við kvennalistakonur höfum þekkt í langan tíma, að konur fá fyrir fulla vinnu þegar best gerir kannski um 80% og þegar verst gerir ekki nema rétt liðlega helming af launum karla og þarna erum við að tala um fullvinnandi fólk í flestum tilfellum. Þetta er auðvitað fyrir neðan allar hellur og þarna kemur þessi stórkostlega lausn. Nú á bara hreinlega að draga úr þessum launamun með heilum 3 millj. kr. Það var reiknað út, að vísu nokkuð lauslega en mun þó vera nokkuð nærri lagi, að þetta muni gera 60 kr. á hverja þeirra kvenna sem þessi ákvæði ná til. --- 60 kr. Þetta er sem sagt svo stórkostlegt að það er bara varla hægt að ímynda sér það. Þetta er meira en ríkisstjórnin hefur nokkru sinni gert. Þetta er sem sagt hátindurinn á ferli ríkisstjórnarinnar í aðgerðum í launamálum og til að rétta hlut kvenna sem standa höllum fæti á launamarkaðnum. Hér er sem sagt hátindinum náð og gjörið svo vel, á þessu samningstímabili þá skulu konur fá allt að 60 kr. Ég geri ráð fyrir því að allt að 3 millj. kr. merki það að konur megi búast við því að fá í viðbót vegna þessa launamunar allt að 60 kr. Lái mér hver sem vill þó að ég hugsi með mér: Ja, hvílík rausn. Ef þetta er einhver vísbending um hug þessarar ríkisstjórnar til kjarajöfnunar milli kynjanna þá held ég að þjóðin verði að þakka fyrir það að lífdagar hennar eru senn á enda. Ég held líka að þjóðin verði að hugsa sig býsna vel um áður en hún veitir þeim flokkum brautargengi sem standa að þessari dómadagsvitleysu.
    Ég verð að viðurkenna að ég veit ekki í rauninni hvort þetta er bara hlægilegt eða hlægilegt og grátlegt í senn vegna þess að með þessu þá afhjúpar þessi ríkisstjórn sitt raunverulega eðli og heimsku sína. Það hefði þá bara jafnvel verið nær að sleppa þessu og vera ekki að þykjast vera að gera eitthvað. Þessi 60 kall er smánarblettur sem ég held að þessi ríkisstjórn muni aldrei geta þvegið af sér og kannski þau eftirmæli sem segja best hvernig tekið er á málum þeirra sem hallar á í samfélaginu. Þetta gerist nákvæmlega á þeim tíma sem lagðar eru fram merkar og miklar niðurstöður um þennan gífurlega launamun og þessi launamunur er ekki upp á 60 kr., hann er nær því að vera upp á 60 þús. kr. Þessi 14. punktur er mjög sérkennilegt fyrirbæri þarna í þessari gullkornakistu.
    Sem betur fer er þetta hámark fáránleikans. Það er þó eitt annað mál sem ég verð að gera hér að umtalsefni og kom raunar að um daginn, sem mér finnst vera eins og blaut tuska í andlitið á þeim sem eru í erfiðri stöðu í sínum húsnæðismálum.
    Hæstv. félmrh. mælti um daginn fyrir frv. þar sem átti að taka á ýmsum málum er varða Húsnæðisstofnun og var hægt að lesa úr hennar orðum að það hefði tafist vegna ágreinings og viljaleysis í ríkisstjórninni að taka á þessum málum. Í 25. gr. þess frv. var að finna alveg ljómandi góðan punkt. Ég segi ljómandi góðan vegna þess að þar var einnig farið í smiðju okkar kvennalistakvenna og búið að finna það út að það þyrfti að hafa möguleika á því að endurmeta þau tilvik þar sem fólk sem kaupir í félagslega íbúðakerfinu lendir í því að vera metið upp í vöxtum, sem sagt fá hærri vexti á sig heldur en þegar það tók upprunalegu lánin vegna þess að það fari á tilteknum tíma yfir tekju- eða eignamörk. Oft er það þannig að fólk er kannski tímabundið með tekju- eða eignamörk þannig að vextir séu hækkaðir, en ef það kemur eitthvað upp á og aðstæður fólks breytast snögglega og það er einmitt það sem er að gerast nú, þá situr fólk uppi með vexti sem hafa verið metnir upp og hefur enga áfrýjunarmöguleika núna, og samkvæmt þessu frv. enga áfrýjunarmöguleika í þrjú ár, þ.e. ef það verður farið eftir frv. eins og hæstv. félmrh. vill sjá það, en það er ekki eins og það er prentað í þskj. vegna þess að í þskj. er farin sú leið sem við kvennalistakonur bentum á að það megi biðja um endurmat. Svo gerist það að þegar hæstv. félmrh. mælir fyrir frv. þá tekur hann það jafnframt fram að þetta hafi bara verið allt í plati og frv. megi alls ekki standa óbreytt heldur vera mun lakara og mælir í raun fyrir breytingartillögum um leið og hún mælir fyrir þessu frv. Fyrr má nú vera vitleysa. Loksins þegar hæstv. ríkisstjórn, í 25. gr. frv., kemst að einhverri þokkalegri niðurstöðu þá er dregið í land um leið og mælt er fyrir frv. Að vera svo að koma með einhvern kattarþvott í húsnæðismálum þegar það er ekki einu sinni hægt að treysta því að það standi einu sinni stafirnir í frv. sjálfrar ríkisstjórnarinnar. Við hverju býst maður? Við hverju getur maður búist af ríkisstjórn sem hagar sér svona?

    Ég verð því miður að segja það um þessa hæstv. ríkisstjórn að slæm var hún, verri verður hún og ég veit ekki hvar hún endar, nema að sjálfsögðu að næstu kosningar verði endalok hennar og þess hljóta allir heilvita menn að óska. Þess vegna má ekki láta hana fylgja þessum frumvörpum og þessum vilyrðum úr hlaði vegna þess að henni er hreinlega ekki treystandi fyrir því.