Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 00:31:32 (4869)


[00:31]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég átta mig eiginlega ekki á því varðandi spurningar þingmannsins, sem hafa verið ítrekaðar að undanförnu dag eftir dag varðandi húsnæðismál, greiðsluaðlögun og fleira, væntanlega fyrst og fremst til að mæla fyrir frv. og vekja athygli á frv. þeirra framsóknarmanna um greiðsluaðlögun, hvort skammirnar snúa að ríkisstjórninni, að félmrh. eða að verkalýðshreyfingunni. Satt best að segja virkaði það á mig að það væri verið að skamma verkalýðshreyfinguna fyrir að hafa gert samninga og láta sér nægja þá yfirlýsingu sem ríkisstjórnin setti um húsnæðismál og gera ekki aðrar kröfur. Það er eitthvað sem aðrir verða að svara fyrir en ég. Hitt er annað mál að ég met það afskaplega mikils að þessi sátt skyldi verða um kjarasamninga og að yfirlýsing ríkisstjórnar þætti þess eðlis að ástæða væri til að taka á henni svo mikið mark sem raun ber vitni.
    Ég ætla að leiðrétta það hjá hv. þm. að það er síður en svo að það eigi að fara að setja nefnd í eitthvert mál, að það eigi að fara að setja nefnd í húsnæðismálin. Ég er búin að margsegja frá því að samráðsnefnd margra aðila, þar með verkalýðshreyfingarinnar, er búin að vera í gangi í margar vikur til að skoða mjög margt sem snýr að vanskilum heimilanna. Seðlabanki, Félagsvísindastofnun og Húsnæðisstofnun eru að skila athugun á umfangi þessara mála og það er satt að segja mjög mikilvægt. Það er afar mikilvægt að nú í kjölfar þess að fólk hefur verið að fara yfir sín fjármál, m.a. í tengslum við gerð skattaskýrslu, þá skoði fólk þessi mál og að hægt sé að kanna eðli þessara mála vegna þess að staðhæfingarnar svo sem eins og koma úr þessum stól eru alveg yfirgengilegar.
    Ég ætla rétt að nefna það þegar verið er að tala um 140% hækkun vaxta í félagslega kerfinu þá er bara sanngjarnt að menn taki með í reikninginn að það komi vaxtabætur þar á móti. Hve mikið þær vega ætla ég ekki að segja en það eru vaxtabætur á móti þessari hækkun vaxta. Þingmenn eiga ekki að temja sér það að láta eins og slíkar staðreyndir séu ekki til staðar. Það er ekki trúverðugt út á við.