Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 00:36:20 (4871)


[00:36]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Þessar staðreyndir sem þingmaðurinn bendir á, virðulegi forseti, liggja ekki fyrir. Hins vegar sleggjudómar um það hver staðan sé og það er kominn tími til að kanna þessi mál til hlítar og koma með réttar aðgerðir og það munum við gera og það veit verkalýðshreyfingin að við munum gera. Hún veit að það verður sett fjármagn í þetta auk ýmissa annarra aðgerða sem gripið verður til.
    Aðeins, virðulegi forseti, varðandi frv. um greiðsluaðlögun sem þingmaðurinn er mjög upptekinn af að hafa flutt. Það virðist sem þetta frv. sé bein þýðing á einstökum köflum sænsku laganna um greiðsluaðlögun. Þeir sleppa því og þeirri skiptingu sem Norðmenn og Svíar leggja ríka áherslu á og það er skipting greiðsluaðlögunar í þrjú stig. Fyrsta stig er ráðgjöf hjá sveitarfélögunum. Annað stigið er frjáls greiðsluaðlögun og þriðja stigið er þvinguð greiðsluaðlögun og þetta er ekki með þessum hætti, virðulegi forseti, í frv. framsóknarmannanna. Eins og fyrr segir er þetta mjög mikið og gott úrræði sem er mikilvægt að góð samstaða sé um og mjög mikilvægt að það sé sambland af félagslegu og réttarfarslegu úrræði sem tekið er á og aðilar sem koma að málinu geti sameinast um.
    Greiðsluerfiðleikar eru mjög flókin vandamál og erfið úrlausnar og það er ekki þannig að þau séu eins hjá öllum eða allir séu með sömu tekjur eða allir séu lágtekjuhópar. Og það hlýtur að vera að við gerum þá kröfu á sjálf okkar að við bregðumst við eftir eðli þessara mála og við bregðumst öðruvísi við hvort þetta er vegna tekjumissis og tekjuerfiðleika eða annarra áfalla eða hvort það er hjá hátekjufólki og jafnvel út af óráðsíu. Þá er ég ekki að benda á eða gera lítið úr því að aðstæður hafi breyst líka hjá þeim sem betri hafa efnin og stærri hafa keypt sér eignirnar.