Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:05:15 (4877)


[01:05]
     Félagsmálaráðherra (Rannveig Guðmundsdóttir) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það eru athyglisverðar umræður sem fara hér fram nú snemma morguns, svo að maður noti það orð, og undir þessum lið, tekjuskattur og eignarskattur, eiginlega eins konar almenn efnahagsumræða sem hér hefur borið á góma. En það vekur undrun mína á hvern hátt þingmenn fara inn í umfjöllun um yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar og kjarasamninganna. Vegna orða hv. þm. Svavars Gestssonar um tvö atriði í þessari yfirlýsingu kem ég hér upp.
    Það er varðandi úrbætur í málum fólks í atvinnuleit og varðandi ákvæði um að halda áfram með verkefni til að draga úr launamun milli karla og kvenna. Í fyrsta lagi skipta 15 millj. afar miklu máli í fræðslu og námskeiðahaldi. Það er samt ekki punktur sem ég ætla að gera að umræðuefni heldur hitt að mér finnst felast í umfjöllun manna um þessa yfirlýsingu og kjarasamninganna fullkomið háð á störf verkalýðshreyfingarinnar. Varðandi 14. lið í þessari yfirlýsingu, þ.e. að halda áfram með þessar aðgerðir til að draga úr launamun karla og kvenna eru ýmsar hugmyndir uppi um hvernig skuli fylgja þessu eftir og þessi tillaga er komin beinlínis frá verkalýðshreyfingunni eins og hún er og mér finnst að það sé eitthvað sem við erum vön að þingmenn stjórnarandstöðunnar standi hér og skammist út í ríkisstjórnina. Þessi pappír og þessir kjarasamningar eru þess eðlis að það er ekki bara ríkisstjórnin sem er að gera eitthvað heldur er verið að setja saman og gera hluti og koma að samningum á þann hátt að sátt sé um og það var sátt um þetta plagg. Ég verð að segja að þeir sem halda því nærri því fram að þeir sem eru að semja fyrir hönd verkalýðshreyfingar séu samansafn vitleysinga, að það gengur svo langt að ég hlýt að álykta að svona sé talað af því að hér er verið að funda um nótt.