Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:18:15 (4885)

[01:18]
     Jón Kristjánsson :
    Virðulegi forseti. Þeir ráðherrar sem hafa hlustað á þessa umræðu hafa verið heldur hörundsárir fyrir henni og það er von því að þeir hafa m.a. í gær í almennum umræðum lagt kapp á það að draga upp glansmynd af því að nú sé allt í lagi í þjóðfélaginu. Og ef einhverjum skugga bregður á þá glansmynd er von að hæstv. ráðherrar missi jafnvægið. Satt að segja hefur það ekki mikið upp á sig að vera að ræða hvað þessar yfirlýsingar kosta vegna þess að það kemur auðvitað í hlut næstu ríkisstjórnar að framkvæma þær og standa við þær því að það er nú svo að þetta er ekki fyrsta yfirlýsing sem ríkisstjórnin gefur sem hér liggur fyrir og þetta frv. til laga um breyting á lögum um tekjuskatt og eignarskatt er afsprengi af. Það var áður gefin út yfirlýsing ríkisstjórnarinnar 10. des. sem hét Yfirlýsing ríkisstjórnarinnar um aðgerðir til að stuðla að aukinni atvinnu, stöðugleika og kjarajöfnun. Það var sagt úr þessum ræðustól af einstökum stjórnarliðum að þetta væri yfirlýsing aldarinnar sem hér væri um að ræða. Hæstv. utanrrh. sagði þegar þessi yfirlýsing sá dagsins ljós að þetta væri besti dagurinn sem hann hefði upplifað í stjórnarsamstarfinu. Þeir hafa reyndar ekki verið góðir margir svo það er kannski ekki . . .   ( JGS: Það var nú ekki nema siglingin

úr Viðey . . .  ) Það er nú kannski ekki nema siglingin já, heimsiglingin, sem var góð, þannig að það er kannski ekki við mikið að miða í þeim efnum.
    En í þessari yfirlýsingu frá 10. des. er m.a. yfirlýsing um samstarf um lausn á greiðsluvanda vegna húsnæðislána og þar stendur:
    ,,Ríkisstjórnin mun beita sér fyrir viðræðum við fulltrúa lánastofnana og lífeyrissjóða um leiðir til þess að taka á greiðsluvanda þeirra íbúðareigenda sem hafa orðið fyrir sérstökum skakkaföllum vegna samdráttar í tekjum.`` --- Svo kemur hér önnur yfirlýsing dagsett 20. feb. og í henni segir:
    ,,Því verður beint til bankastofnana og lífeyrissjóða að gert verði átak í að skuldbreyta lánum.``
    Það var fræg persóna í sögu eftir Halldór Laxness sem hét Pétur þríhross og hann fékk viðurnefni sitt af því að hann seldi sama hrossið þrisvar. Ég sé ekki annað en að ríkisstjórninni hafi tekist að selja sama hrossið a.m.k. tvisvar. En ég lái verkalýðshreyfingunni það ekkert þó að hún reyni að knýja ríkisstjórnina með yfirlýsingu í tengslum við kjarasamninga til þess að standa við réttlætismál. Þeim hefur auðvitað ekki fundist fullreynt.
    Svo eru náttúrlega skondnar yfirlýsingar í þessu, t.d. yfirlýsing númer níu: ,,Ríkisstjórnin mun skipa nefnd sem gerir tillögur um aðgerðir til að lækka framfærslukostnað heimilanna. Nefndinni verði sérstaklega falið að leita leiða til að lækka vöruverð á landsbyggðinni.``
    Það var nú svo að ríkisstjórninni og hæstv. viðskrh. gafst tækifæri til að sýna vilja sinn í þessum efnum við afgreiðslu fjárlaga. Í þessu skyni var á fjárlögum 1994 800 þús. kr. til að lækka vöruverð á landsbyggðinni. Þessi upphæð var lækkuð á fjárlögum árið 1995 niður í 500 þús. kr. 800 þús. kr. voru notaðar til að halda einn fund í nefndinni norður í Fljótavík á Ströndum, en 500 þús. kr. eiga að notast til að halda fund einhvers staðar nær höfuðborginni um þessi mál. Hins vegar er ríflegra framlagið til þess að auka jafnrétti karla og kvenna. Þar eiga þó að vera 3 millj. til að tryggja að skýrslugerð um þessi mál haldi áfram eins og hæstv. félmrh. sagði hér áðan. Það er náttúrlega mjög gott að skýrslugerðin haldi áfram enda er það svo að þessi mál hafa farið þannig fram í Alþfl. á síðasta kjörtímabili, samkvæmt umræðum hæstv. fyrrv. félmrh. og hæstv. umhvrh., að fyrrv. félmrh., Jóhanna Sigurðardóttir, hefði rausað í þingflokknum stanslaust í fjögur ár og hinir þingmennirnir hefðu sofið á meðan. Síðan á að veita 3 millj. núna til að gera skýrslu um málið, til að skýrslugerð geti haldið áfram um þetta mál. Jú, það er mjög gott.
    En glansmyndin er m.a. fengin með góðum spám um efnahagshorfur á næsta ári sem Þjóðhagsstofnun hefur gefið. Hæstv. forsrh. sagði áðan að varnaglar hefðu verið slegnir. Það er bara hreinlega ekki rétt. Varnaglar voru ekki slegnir í þessum spám. Hún var einfaldlega sett fram en hins vegar sögðu forsvarsmenn Þjóðhagsstofnunar í viðræðum við fjárln. að þessi glansspá væri háð óvenjumörgum óvissuþáttum. Eigi að síður var allt byggt á þessari spá og engir varnaglar slegnir af ríkisstjórnarinnar hálfu. Það er alveg rétt að forstjóri Þjóðhagsstofnunar sló varnagla í þessum viðræðum við fjárln.
    Það er náttúrlega ekki allt í lagi í þjóðfélagi þar sem um 6.000 manns ganga atvinnulausir. Það er sú nöturlega staðreynd sem má ekki gleymast og má ekki stinga undir stól í þeirri umræðu sem nú fer fram. Verkalýðshreyfingin hefur sýnt mikla ábyrgð í því að reyna að ná kjarasamningum og gera ábyrga kjarasamninga. Þess vegna ber skylda til að leita allra ráða til þess að vinna bug á atvinnuleysinu í landinu sem er stærsta vandamálið um þessar mundir.