Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:29:45 (4888)


[01:29]
     Guðmundur Bjarnason :
    Virðulegur forseti. Ég skal ekki lengja þessa umræðu mikið en mér finnst eins og það hafi aðeins gætt óþreyju hjá hæstv. ráðherrum í þeirri umræðu sem hér hefur farið fram, langri og ítarlegri, um þetta frv. til laga um breyting á lögum um tekju- og eignarskatt, sem tilheyrir auðvitað þeim nýgerðu kjarasamningum á vinnumarkaði sem vonandi verða samþykktir og ríkisstjórnin er með frv. þessu m.a. að leggja sitt lóð á vogarskálarnar að geti orðið að veruleika. Mér finnst eins og það hafi gætt nokkurrar óþreyju í máli hæstv. ráðherra við þessum ræðuhöldum stjórnarandstöðunnar. Mig langar aðeins út af því að segja það sem mína skoðun að það er ekki óeðlilegt að stjórnarandstaðan noti þetta tækifæri til að ræða ofurlítið við ríkisstjórnina um málið af því að hún á ekki í raun beinan aðgang að málsaðilum kjarasamninganna hér í hv. þingi eða á þeim vettvangi þar sem hún hefur tækifæri til þess bæði að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og spyrjast fyrir um í hverju einstök efnisatriði séu í raun fólgin.
    Það var fyrst og fremst þetta, virðulegur forseti, sem mig langaði til að koma fram með sem mína skoðun og ítreka það jafnframt að ég get lýst því yfir að ég get um margt verið sammála því sem hér er verið að fjalla um og leggja til. Ég í raun fagna því að ríkisstjórnin skuli á þennan hátt vera nokkur þátttakandi í kjarasamningunum, í kjarasamningagerðinni, vegna þess að mér finnst á stundum að hæstv. ríkisstjórn og get þá jafnframt beint orðum mínum til hæstv. forsrh., sem hér er í þingsalnum, mér finnst eins og hæstv. ríkisstjórn og hæstv. ráðherrar hafi stundum látið að því liggja að þeir vildu sem allra minnst, helst ekkert, skipta sér af því sem er að gerast á vinnumarkaði. Ég held að það sé mjög mikilvægt og reyndar nauðsynlegt eins og þetta frv. og þau frv. sem hér fylgja kjarasamningunum og eiga eftir að koma til umræðu sýna, að það er nauðsynlegt að ríkisvald komi að málunum á einhvern hátt til þess að liðka fyrir um kjarasamninga. Ég lýsi þess vegna yfir stuðningi mínum við ýmis atriði hér, en það sem ég hefði viljað spyrja um að lokum til viðbótar við það sem hefur komið fram í umræðunni og ég tel að hafi verið fróðleg og upplýst ýmislegt, er þetta ákvæði eða þessi málsliður í 2. tölulið yfirlýsingar hæstv. ríkisstjórnar sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Hér er um mjög víðtæka breytingu að ræða sem hefur í för með sér verulegt tekjutap fyrir ríkissjóð og sveitarfélögin. Þessu verður að mæta með auknum tekjum og/eða niðurskurði útgjalda.``
    Þetta hefur auðvitað komið fram í umræðunni í kvöld og ég býst við því að ýmsir hv. þm., þó ég hafi ekki fylgst með öllum ræðum frá orði til orðs, hafi spurt eftir þessu, en mér finnst að ég hafi ekki fengið viðhlítandi svör frá hæstv. ráðherrum hvað þeir sjá fyrir sér í þessu. Hvernig hugsar hæstv. ríkisstjórn, hæstv. ráðherrar, hæstv. fjmrh., hæstv. forsrh. og eftir atvikum hæstv. félmrh., sem hér er einn ráðherra Alþfl. við þessa umræðu, að mæta þessu tekjutapi ríkissjóðs sem liggur fyrir og er mjög augljóst? Það er talað um með auknum tekjum og/eða niðurskurði útgjalda. Vegna þess að mér finnst líka, eins og sumir hafa bent á hér, að þrátt fyrir allt tal um að samningar þessir séu tekjujöfnunarsamningar og bæti fyrst og fremst hag þeirra lægst launuðu, sem þeir gera að vissu marki, þá eru líka í þessu þættir sem mér finnst ganga í aðra átt. Ef það er svo að það þurfi að mæta þessu tekjutapi með álögum á launþega í landinu, eins og því miður hæstv. ríkisstjórn hefur gert á ýmsan hátt á sínum starfsferli, með þjónustugjöldum eða með óbeinni skattheimtu, þá óttast ég að það lendi mjög ósanngjarnt á þeim launþegum sem nú telja sig vera að fá bættan sinn hag og einkum hag hinna lægst launuðu. Því þjónustugjöldin hafa auðvitað lent í verulegu mæli á þeim sem hafa minni tekjur og þeim sem eiga á einhvern hátt um sárt að binda, þ.e. þeim sem þurfa að nota heilbrigðisþjónustuna.
    Ég veit ég þarf ekki að rekja þetta ítarlega, þetta vita hæstv. ráðherrar, en mig langar þó að benda á það að ég hef látið taka það saman nýlega, samkvæmt upplýsingum frá Ríkisendurskoðun og frá heilbrrn., að viðbótarálögur hæstv. núv. ríkisstjórnar, bara í þremur þáttum heilbrigðisþjónustunnar, þ.e. í sérfræðiþjónustu, í heilsugæslu og í lyfjakostnaði og má þó fleira tína til, eru nú um 1 milljarður á ári. Var ekki svo mikið á fyrstu árum hæstv. ríkisstjórnar, af því að þá var hún að feta sig inn á þessa braut, en nú nemur þetta um 1 milljarði á ári og eru samtals orðnir tæpir 3 milljarðar á þessu kjörtímabili og heldur auðvitað áfram að telja. Og því miður sýnist mér að sú hætta sé a.m.k. fyrir hendi að þessum tekjumissi eða tekjutapi ríkissjóðs og sveitarfélaga kunni að verða mætt í svipuðum dúr eða með svipuðum aðferðum og hæstv. ríkisstjórn hefur áður gert.
    Ég vil aðeins að lokum leyfa mér að lesa, með leyfi hæstv. forseta, eina setningu upp úr greinargerð fjárlagafrv. fyrir þetta nýbyrjaða ár þar sem segir --- ég hef reyndar bent á þessa setningu áður og finnst hún undirstrika það sem ég er að tala hér um, þann ugg sem ég ber í brjósti um það hvernig eigi að mæta tekjutapinu. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Þá er gert ráð fyrir því hér að þeir sem njóta þjónustunnar taki meiri þátt í kostnaði henni samfara.`` --- Þ.e. halda enn áfram á þessari braut, að auka þjónustugjöldin og auka greiðslur almennings og þá auðvitað eins og ég hef áður bent á, þeirra sem nota t.d. þennan þátt samfélagshjálparinnar, þ.e. heilbrigðiskerfið okkar, sem eru sjúkir, aldraðir, barnafólk og þá oft á tíðum þeir sem eru ekki tekjuhæstu einstaklingarnir í þjóðfélaginu, að það séu einmitt þeir sem þurfi að bera byrðarnar og kostnaðinn af þessum nýgerðu kjarasamningum í meira mæli heldur en kannski væri réttlætanlegt.