Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:40:02 (4891)


[01:40]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég get svarað því þannig að það var ekki rætt við aðila vinnumarkaðarins sem heimsóttu ríkisstjórnina og ræddu þessi mál við hana, en báðir aðilar eða kannski allir aðilar voru sammála um eitt, þ.e. að það var nauðsynlegt að ná þessum kjarasamningum. Þessir kjarasamningar eru í þeim anda sem ríkisstjórnin vill starfa. Þessir kjarasamningar stuðla að stöðugleika. Þessir kjarasamningar hafa nú þegar sýnt það að þeir stuðla að lægri vöxtum og að öllu samanlögðu teljum við að þessir kjarasamningar og þær aðgerðir sem ríkisstjórnin stendur að séu til þess fallnar að skila betra búi til næstu ríkisstjórnar hver sem hún verður. Ég held að þegar við lítum nettó á hallaaukningu ríkissjóðs vegna þessara aðgerða þá eru það ekki stórir fjármunir, eins og reyndar hv. þm. Svavar Gestsson benti á áðan, miðað við þann mikla ágóða sem allt þjóðarbúið fær vegna þessara samninga sem þegar hafa verið gerðir. Ég held að hv. þm. hljóti að vera sammála mér um að það verður þessari ríkisstjórn til hróss að hafa þó náð þeim árangri í samstarfi við aðila vinnumarkaðsins að koma á ró í efnahagsmálum landsins, ekki síst á peningamarkaði því það skiptir mjög marga miklu máli að vextir haldist lágir í landinu.