Tekjuskattur og eignarskattur

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:41:41 (4892)


[01:41]
     Guðmundur Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er til of mikils mælst af hæstv. fjmrh. að ætlast til þess að ég fari að hæla sérstaklega hæstv. ríkisstjórn. Hitt sagði ég áðan að ég út af fyrir sig gæti tekið undir ýmislegt sem hér er lagt til af hálfu ríkisstjórnarinnar í yfirlýsingu hennar til þess að ná og leiða fram þessa sátt á vinnumarkaði, þ.e. þessa kjarasamninga. Ég vil undirstrika það að ég tel að það sé út af fyrir sig skref --- ég reyndar nefndi það áðan --- merkilegt skref í störfum þessarar hæstv. ríkisstjórnar að viðurkenna það að hún þurfi að takast á við mál af þessu tagi og vera aðili að gerð kjarasamninga, af því að stundum hefur hún viljað halda hinu gagnstæða fram að ríkisvaldið ætti sem minnst, helst ekkert, að skipta sér af vinnumarkaði og atvinnuástandi í landinu. Það tel ég að sé rangt og afskipti ríkisstjórnarinnar af þessum kjarasamningum undirstriki að það er nauðsynlegt að ríkisvaldið komi á einn eða annan hátt sem aðili að kjarasamningagerð til þess m.a. að halda vinnufrið og til þess vonandi að treysta atvinnulíf. Það get ég út af fyrir sig tekið undir og tel að sé mikilvægt.

    Að lokum, hæstv. forseti, þá lifir það eftir í þessari umræðu að það er ljóst að þennan víxil verður að greiða, þó síðar verði, af nýrri ríkisstjórn að afloknum þeim kosningum sem senn fara í hönd. Ég vona sannarlega að það verði aðrir herrar heldur en þeir sem undanfarin missiri og ár hafa setið við völd þannig að það finnist aðrar leiðir til þess að jafna þessar byrðar, sem óhjákvæmilega hljóta að fara á einn eða annan hátt út í þjóðfélagið, heldur en að velta þeim á þá sem minnst mega sín, sjúka, aldraða og barnafólk.