Vörugjald af ökutækjum

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 01:44:09 (4893)


[01:44]
     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breyting á lögum nr. 29/1993, um vörugjald af ökutækjum. Í frv. eru aðallega fjögur efnisatriði:
    Í fyrsta lagi er lagt til að vörugjald á vélknúin ökutæki, sem falla undir gjaldflokk II, lækki úr 45% í 40%. Samanburður við aðrar þjóðir bendir til þess að hér á landi hafi átt sér stað óæskileg neyslustýring með of miklum mun á algengustu vörugjaldsflokkunum.
    Í öðru lagi er lagt til að breyting verði gerð á röðun ökutækja sem knúin eru dísilolíu þannig að hærri viðmiðanir gildi um sprengirými aflvéla dísilbifreiða varðandi röðun í gjaldflokka en gilda um önnur ökutæki. Rökin eru þau að vélar dísilbifreiða þurfa að vera stærri en vélar bensínbifreiða til að framleiða sama hestaflafjölda.
    Í þriðja lagi er lagt til að vörugjald af hópferðabifreiðum verði lækkað frá því sem nú er og kannast margir hv. þm. við þetta mál.
    Í fjórða lagi er lagt til að fjmrh. verði veitt heimild til að lækka vörugjald af fólksbifreiðum sem falla í gjaldflokk II og eru ætlaðar til útleigu hjá bílaleigum, en í viðræðum við fulltrúa fjmrn. og ferðamálayfirvalda hefur komið fram að sá markhópur sem ferðamálayfirvöld telja brýnast að ná til á næstu árum eru evrópskar fjölskyldur sem vilja ferðast á eigin vegum um landið og dvelja til að mynda í sumarhúsum og það eru slíkar fjölskyldur sem nota einkum og sér í lagi þær bifreiðar sem þarna um ræðir.
    Í fimmta lagi er síðan í frv. smávægileg breyting á 23. gr. laganna, en tillagan felur í sér viðbrögð við ábendingum frá Eftirlitsstofnun EFTA.
    Virðulegi forseti. Það hefði verið hægt að hafa mörg fögur orð um þetta frv. en ég ætla að stansa hér og legg til að frv. verði vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.