Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:02:43 (4900)


[02:02]
     Viðskiptaráðherra (Sighvatur Björgvinsson) :
    Herra forseti. Í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar frá 21. febr. 1995 sem gefin var í tengslum við gerð nýrra kjarasamninga á almennum vinnumarkaði segir m.a., með leyfi forseta:
    ,,Verðtrygging fjárskuldbindinga, sem nú miðast við lánskjaravísitölu, verður framvegis miðuð við vísitölu framfærslukostnaðar. Ríkisstjórnin undirbýr nú aðgerðir til að hrinda þessari aðgerð í framkvæmd þannig að hún hafi almennt gildi, einnig gagnvart verðtryggingu núverandi fjárskuldbindinga. Jafnframt verður unnið að því að draga úr verðtryggingu í áföngum.``
    Frumvarp þetta er liður í því að hrinda fyrrgreindri stefnu í framkvæmd. Samhliða því er lagt fram frumvarp, sem hæstv. forsrh. mælti hér fyrir áðan, um vísitölu neysluverðs er komi í stað gildandi laga um vísitölu framfærslukostnaðar og er þá búið að skipta um nafn á vísitölunni og setja heiti hennar ,,vísitala neysluverðs`` í stað vísitölu framfærslukostnaðar.
    Um leið og þessi breyting er gerð er tækifærið notað til lagahreinsunar, þ.e. tekin hefur verið ákvörðun um það með frv. þessu að fella V. kafla laga nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála og fleira, svokölluð Ólafslög, í lög um vexti, nr. 25/1987, og þar komi inn verðtryggingarkaflinn sem upphaflega var í Ólafslögum og tækifærið hefur verið notað til þess að breyta honum eilítið í ljósi reynslunnar meðal annars.
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að fara mörgum orðum um þetta frv. en minni á að í janúar 1989 var grundvelli lánskjaravísitölunnar og almennrar verðtryggingar í landinu breytt. Í stað þess að grundvöllur lánskjaravísitölu væri samsettur af framfærsluvísitölu að 2 / 3 hlutum og byggingarvísitölu að 1 / 3 eins og áður var var ákveðið í janúar 1989 að bæta launavísitölu við og að hver þessara vísitalna hefði þriðjungsvægi í grundvelli lánskjaravísitölu. Þessari breytingu var hrint í framkvæmd með því að viðskiptaráðuneytið gaf út reglugerð um samsetningu vísitölugrundvallarins. Seðlabankinn auglýsti síðan grundvöll lánskjaravísitölu til verðtryggingar sparifjár og lánsfjár í samræmi við þessa reglugerð og í dómum, sem gengu í kjölfar þessarar breytingar, staðfesti Hæstiréttur að stjórnvöld hefðu haft heimild til að ákveða þessa breytingu og staðið rétt að henni.
    Nú er tekin sú ákvörðun með frv. þessu að leggja til að breytingin sem nú er verið að gera verði gerð með lögum í stað reglugerðar viðskrh. og auglýsingu Seðlabanka og er þar með búið að festa það í sessi að breytingar verði ekki gerðar á verðtryggingarviðmiðun nema með breytingu á lögum í stað þess

að hægt var að gera það með einfaldri reglugerð eins og áður var.
    Auk þess að gera þá breytingu sem hér um getur var gerð nokkur lagahreinsun á kaflanum um verðtryggingar í Ólafslögum um leið og gerð er tillaga um að færa þann kafla í vaxtalög, nr. 25/1987, eins og fyrr segir.
    Aðeins örfá orð um þessa breytingu sem gerð hefur verið. Vil ég þá benda á tvö atriði í 21. gr. sem var, þ.e. b-lið 1. gr. í frv. Þar er í fyrsta lagi gert ráð fyrir því að menn geti verðtryggt sparifé og lánsfé annaðhvort með vísitölu neysluverðs, sem er nýjung þar sem stóð lánskjaravísitölu, eða með vísitölu gengis á erlendum gjaldmiðli sem heimilt var í verðtryggingarkafla Ólafslaga.
    Þá er einnig gert ráð fyrir því að Seðlabanki geti að fengnu samþykki viðskrh. heimilað að fleiri opinberlega skráðar vísitölur en tilgreindar eru í 1. mgr. geti verið grundvöllur verðtryggingar sparifjár og lánsfjár. Í öðru lagi er það nýmæli að gert er ráð fyrir því að Seðlabanki geti ákveðið lágmarkstíma verðtryggðra innstæða og lána að fengnu samþykki viðskrh. og að bankinn geti jafnframt að fengnu samþykki ráðherra ákveðið að vextir verðtryggðra innstæðna eða lána skuli vera óbreytanlegir á lánstímanum.
    Þetta er m.a. þáttur í því, sem einnig hefur verið boðað af ríkisstjórninni í tengslum við kjarasamninga, að verðtrygging af lánum verði afnumin í áföngum og lán þá lengd eða réttara sagt notuð sú heimild sem þarna er gefin til þess að lengja lágmarkstíma verðtryggðra innstæðna og útlána í því skyni að feta sig út úr því verðtryggingarkerfi sem setti mark sitt á íslenska lánamarkaðinn umfram það sem gerist og gengur í löndunum í kringum okkur þar sem verðtrygging út- og innlána er fremur undantekning en regla.
    Þá er einnig nýmæli í d-lið 1. gr. þar sem gert er ráð fyrir því að Seðlabankinn setji nánari reglur um verðtryggingu sparifjár og lánsfjár. Í þeim skuli m.a. kveðið á um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana en þó þannig að heimildin til þess að jöfnuður eigna og skulda standist ekki alfarið á sé rýmkuð nokkuð, en þó þannig að Seðlabankinn geti beitt viðskiptabanka, sparisjóði og aðrar lánastofnanir viðurlögum sé ákvörðun bankans í þessum efnum ekki sinnt þó svo verið sé að gefa bankanum rýmri hemildir til þess að kveða á um jöfnuð verðtryggðra eigna og skulda viðskiptabanka, sparisjóða og annarra lánastofnana.
    Þá er það einnig nýjung í e-lið að það er gefið út og ákveðið hvernig vísitala neysluverðs skuli reiknuð gagnvart fjárskuldbindingum sem samið hefur verið um fyrir 1. apríl 1995 og er það þá gert með því að nýta margfeldisstuðul sem er hlutfall vísitölu neysluverðs og lánskjaravísitölunnar eins og hún er í dag, þ.e. fyrir gildistöku þessara lagabreytinga ef samþykktar verða. Einnig er tekið fram að verði gerð breyting á grunni vísitölu neysluverðs skuli Hagstofan birta í Lögbirtingablaðinu nýjan margfeldisstuðul fyrir þannig breytta vísitölu í stað stuðulsins sem getið er um í 1. mgr.
    Þetta er gert einfaldlega til þess að einfalda breytingar á útreikningi á lánskjaravísitölu sem kveðið er á um í skuldabréfum og í verðtryggingarákvæðum verðtryggðra fjárskuldbindinga þannig að hægt sé að nýta til þess margfeldisstuðul sem er, eins og ég áður sagði, hlutfall af vísitölu neysluverðs og lánskjaravísitölunni eins og hún er nú fyrir gildistöku laganna ef samþykkt verða.
    Í 2. gr. er gert ráð fyrir því að lögin öðlist þegar gildi og komi til framkvæmda 2. apríl 1995. Þá falli úr gildi verðtryggingarkafli laganna nr. 13/1979, um stjórn efnahagsmála o.fl.
    Virðulegi forseti. Ég tel ástæðulaust að hafa fleiri orð um þetta mál, en legg til að frv. verði að lokinni þessari umræðu vísað til 2. umr. og hv. efh.- og viðskn.