Vaxtalög

104. fundur
Föstudaginn 24. febrúar 1995, kl. 02:10:56 (4901)


[02:10]
     Jóhannes Geir Sigurgeirsson :
    Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að hafa mörg orð um þetta mál. Ég hygg að það sé mjög almenn skoðun á Alþingi að það beri að breyta lánskjaravísitölunni og minnka vægi hennar á lánamarkaðnum. Ég get þá vitnað til bréfs sem mér barst fyrir nokkrum dögum sem var, ef ég man rétt, undirritað af tíu þingmönnum þar sem var skorað á efh.- og viðskn. að afgreiða frv. sem liggur fyrir þinginu um að banna vísitölubindingu með lögum. Ég hygg því að í það minnsta allur sá hópur og ýmsir fleiri sem hafa flutt það mál á árum áður ( Gripið fram í: Hverjir eru það?) væru tilbúnir til þess að ganga til breytinga á lánskjaravísitölunni þó ekki yrði gengið eins langt og þar var lagt fram.
    Hitt er annað mál að ég bendi á þingmann sem hóf fyrir níu árum krossferð sína fyrir því að afnema lánskjaravísitöluna og hefur lagt frv. þess efnis fyrir Alþingi á hverju ári síðan án nokkurs árangurs og ég hlýt að leyfa mér að vona það að hæstv. viðskrh., sem nú leggur fram þetta frv. til breytingar á lánskjaravísitölunni, sé ekki að leggja upp í álíka krossferð og það verði örlög hans að leggja þetta frv. fram á næstu átta þingum ( Gripið fram í: Og bjóða sig fram á Suðurlandi.) og enda væntanlega með sérframboði. Sporin hræða í þessu máli.
    En að öllu gamni slepptu þá held ég að þetta sé eitt af því sem er bitastæðast í yfirlýsingu ríkisstjórnarinnar. Það var annars margt skondið í þeirri yfirlýsingu og snerti sumt vinnubrögð Alþingis og vinnubrögð framkvæmdarvaldsins gagnvart Alþingi eins og hér hefur komið fram. Þegar framkvæmdarvaldið er búið að biðja nefnd í Alþingi um að flytja fyrir sig mál vegna þess að það standi upp á ríkisstjórnina að efna gefin loforð í kjarasamningum, senda formleg bréf til efh.- og viðskn. með drögum að

frv. þá er þeim kippt til baka daginn áður en átti að leggja frv. fram vegna þess að það þurfti að nota þetta aftur. Auðvitað hefur maður gaman af þessu en við ættum að taka þetta alvarlega og þetta ætti að verða til þess að nefndir þingsins taki það ekkert mjög alvarlega ef þær fá bréf frá ráðherrum og beiðni um að flytja mál.
    Annar punktur var þess efnis að ríkisstjórnin lofaði aðilum vinnumarkaðarins að reka á eftir því að afgreidd yrði nauðsynleg löggjöf til þess að til staðar væru öll lög sem þyrfti til þess að kljást við skattsvik. Auðvitað ættum við þingmenn, sem lýstum því yfir í efh.- og viðskn. fyrir jólin þegar verið var að afgreiða lög um bókhald og ársreikninga að við mundum sjá til þess og flytja þau frumvörp sem eftir voru til þess að ganga frá og klára þá löggjöf, að taka það óstinnt upp að lesa svo í blöðunum daginn eftir að við vorum búnir að ganga frá þeim pakka öllum og mæla fyrir honum á Alþingi að ríkisstjórnin hefði á sama degi lofað aðilum vinnumarkaðarins að reka þannig á eftir þessum málum að þau yrðu afgreidd. Þetta eru ekki góð vinnubrögð og auðvitað ættum við að taka þetta mjög óstinnt upp. En kannski er bara Alþingi orðið svo vant því að framkvæmdarvaldið komi fram við það eins og druslu að menn segja ekkert við þessu nema í mesta lagi kannski að gera að því grín. Þetta er hins vegar sannleikurinn í málinu en ég lofa því hins vegar að þessi málsmeðferð mun ekki hafa nokkur áhrif á efnislega meðferð á frv. sem hér er fram lagt. Það er búið að boða alla aðila málsins á fund efh.- og viðskn. kl. 9 í fyrramálið til þess að fara yfir það þó að sýnt sé að ekki verði búið að vísa því til nefndar þá.